þriðjudagur, apríl 06, 2010

Þriðjuplötur - I

Í tilefni af því að senn halda Hálfvitar í stúdíó til að búa til sína þriðju plötu verða næstu þriðjudagar helgaðir þriðju plötum nokkurra tónlistarmanna sem ég hef dálæti á.

Og svona til að byrja með trukki þá skulum við fyrst staldra við í London árið 1982. Eftir tvær öflugar plötur og vaxandi fylgi ákváðu Steve Harris og félagar í Iron Maiden að skipta aðeins um kúrs. Hinn pönkaði söngvari Paul DiAnno var ekki alveg samferða hinum í þróuninni, auk þess sem hann hafði varla úthald í stöðugt meira krefjandi tónleikaferðir bandsins. Úr varð að hann vék fyrir hinum snaggaralega skylminga- og flugkappa Bruce Dickinson. Fyrsti afrakstur nýrrar liðsskipanar var The number of the beast, einhver nafntogaðasta þungarokksplata allra tíma.

Hlustaði á hana mér til óbóta á metalárunum og þykir margt á henni enn flott. Ekkert þó flottara en lokalagið Hallowed be thy name, hér í skemmtilegri læfútgáfu úr Abbey Road stúdíóinu. Svo er Run to the hills skemmtilegt, bæði lag og myndband.

Maiden-drengir eru líka eitthvað svo indælir. Hér er heimildamynd um gerð plötunnar, þar sem þeir eru hver öðrum krúttlegri. Og svo er Bruce hér í viðtali við Jeremy Clarkson með góðar rokksögur.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim