föstudagur, janúar 22, 2010

Bland í bloggpoka

I

Mér er ljúft og skylt að halda á lofti minningu Roberts B. Parker, enda aðdáandi. Hann dó núna á mánudaginn, frekar óvænt skilst mér af fjölmiðlum. Þessum tröllvaxna ameríska sakamálasögumeistara er nú hampað fyrir að hafa með sínu helsta sköpunarverki, einkaspæjaranum Spenser, endurnýjað lífdaga hinnar harðsoðnu glæpasagnahefðar Chandlers og Hammetts fyrir nútímann. Bækurnar eru leiftrandi skemmtilegar, persónurnar eru hver annarri flottari og gneistar af samtölunum.

Ég hef lesið þær flestar, margar oft, og mæli með þeim.

Guðmundur Andri Thorsson þýddi fyrir mörgum árum tvær bóka Parkers, Guð forði barninu og Leitin að Rachel Wallace og mér hefur löngum þótt Mín káta angist eiga stíl Parkers skuld að gjalda, þó ráðvilltur og ástsjúkur íslenskunemi sé þar kominn í stað ofurtöffarans með rómantísku sálina.

Lengi lifi minning meistara Parkers.

Heimasíða
Wiki
New York Times

II
Munaðarlaus er aldeilis makalaust mergjað leikrit sem skilur mann eftir með hnút í maganum, skít á sálinni og hugsanir í kvörnunum. Sýning samnefnds leikhóps í Norræna húsinu er firnavel unnin, þýdd, hönnuð og leikin. Hér segir Silja A. sitt álit, og hér talar Lyn Gardner um uppfærsluna frá Edinborg sem setti verkið á kortið.

Sýningum er að ljúka - ekki missa af.


III
Rúv sker niður. Búið að segja upp allskyns frammáfólki í Kastljósi og fréttum. Mínar tillögur:

Þulurnar - hvað eru þær að gera?
Íþróttafréttir - íþróttir eru frábært sjónvarpsefni (fyrir utan formúluna, náttúrulega). En hví í dauðanum þarf heila deild til að segja okkur fréttir af úrslitum sem allir sem hafa áhuga á eru búnir að verða sér út um á netinu jafn óðum?

2 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Ekki meiri Spenser og Hawk og Susan :'(

Tek svo undir með íþróttadeildina...

7:48 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þulunum var reyndar öllum sagt upp, sex talsins.

Sævar

2:34 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim