"Nú er heilagt" segir gamla fólkið þegar klukkan verður sex á aðfangadagskvöld. Samt er þetta bara dagur eins og aðrir dagar. Sólin kemur upp samkvæmt eðlisfræðilögmálum og sú staðreynd að dag tekur að lengja á sér skýringar í möndulhalla jarðar eins og einhver vantrúargárungurinn skrifaði þegar biskup leyfði sér að þakka guði fyrir það. Fyndið.
En nú er heilagt. Hvað þýðir það?
Hér er tillaga frá mér:
"Heilagt" þýðir að eitthvað sé bæði
verðmætt og
viðkvæmt. Og kannski verðmætt vegna þess að það er viðkvæmt. Guð er t.d. ekki heilagur. Það er eins og að segja að ljós sé bjart.
Klukkan 18 á aðfangadagskvöld er heilagt, en það þarf ekki nema einn gárung til að benda á að þetta sé nú bara tími eins og var í gær og verður á morgun til að rústa því.
Jólin eru tími til að hugsa um allt það sem er viðkvæmt og verðmætt. Þau hverfast um einmitt svoleiðis sögu. Um barn sem fæðist eins og hvert annað barn, viðkvæmt og veikburða. En um leið óendanlega verðmætt. Heilagt sumsé. Hvort sem þú trúir því eða ekki að barnið sé sonur guðs þá er þess virði að sækja sér umhugsunarefni í söguna. Vissulega má sækja sér jafnmerk umhugsunarefni í aðrar sögur, og jafnvel gott að benda á þá staðreynd. En ekki í dag. Nú er heilagt.
"Heilagt" þýðir: ekki skemma. Sem felur í sér: það er auðvelt að skemma.
Þess vegna er önnur saga svo áhrifarík og merkingarþrungin: Sagan um fjöreggið sem skessurnar kasta á milli sín.
Egg. Hvað er viðkvæmara? Hvað er verðmætara? í því búa allir möguleikar. Og ekkert verndar þessa möguleika annað en þunn skurn. Þetta vita skessurnar, en kasta því samt. Eins gott að grípa.
Hin hliðin á heilagleikanum er svo ástæðan fyrir því að sagan um Nýju fötin keisarans er svo mögnuð. Það þarf ekki nema eitt barn til að hrópa upp að keisarinn er ekki í neinum fötum til að allir sjái það. Ímyndaður skartbúnaður keisarans virtist heilagur en var það ekki. Hann var viðkvæmur en ekki verðmætur. Heimurinn er betri án hans.
Það er eilífðarverkefni að greina þarna á milli. Hvað er fjöregg, hvað er fals. Það þarf að fara varlega í leitinni að fjöregginu. Það er nefnilega svo auðvelt að eyðileggja það sem er heilagt. Svolítið eins og að fara með troll yfir kóralrif. Þú tekur ekki eftir því. En skaðinn er skeður. Tekur hundrað ár að byggja ný. Þess vegna eru kóralrif verðmæt. Viðkvæmnin og verðmætið eru samtvinnuð.
Allt það illa sem trúarbrögð hafa leitt af sér stafar af tilraunum til að fela viðkæmnina. Brynverja eggið með holtaþoku, ofbeldi, ofsóknum og kúgun. En verðmætin rýrna ef viðkvæmnin er falin. Rannsóknarrétturinn, Jihadið, fúndamentalisminn, valdhrokinn og yfirlætið draga úr helgi hins heilaga.
Það er líka svo margt sem er viðkvæmt og verðmætt.
Það er alltaf hægt að snúa út úr og skopast með mikil listaverk. Sumum finnst það til merkis um að þau séu ómerkileg. Sennilega er það einmitt til marks um að listin er heilög.
Það er svo auðvelt að drepa fólk. Kúga það. afneita verðmæti þess. Manngildið er samt verðmætt. Og viðkvæmt. Heilagt.
Sumt þarf að vernda, sumt þarf að brjóta. En hvernig á að greina þar á milli?
Til að taka að sér hlutverk barnsins hans Andersens þarf kjark og vit. Kjark til að þora, vit til að láta það vera sem ekki má skemma, en er svo auðvelt. Það er ekki hægt að búa til ommelettu án þess að brjóta egg, en það skiptir máli að vera viss um ekkert þeirra sé fjöregg.
Kannski er þetta mikilvægasti lærdómur trúarinnar. Að virða það sem er viðkvæmt. Lærdómur sem jafnvel við trúleysingjar getum tileinkað okkur. Þurfum að tileinka okkur.
Langar okkur í alvöru að búa í heimi þar sem ekkert er heilagt?