laugardagur, janúar 31, 2009

Talandi um orð...

Hér er grein um muninn á skráningu krónunnar hjá Seðlabankanum og erlendis. Ekki nýjar fréttir svosem. En lokamálsgreinin er snilld:
Ástæðan fyrir muninum skýrist af mjög litlum viðskiptum með krónur á erlendum gjaldeyrismörkuðum og höftunum hér. Munurinn hverfur væntanlega þegar krónan flýtur á ný, samkvæmt upplýsingum frá gjaldeyrisborði Glitnis.
Fyrir nú utan hvað íslenskunni er freklega nauðgað ("ástæðan skýrist") þá er seinni setningin dásamleg rökleysa.

1. Er Glitnir svo trúverðugur í dag að það sem einhver í "Gjaldeyrisborði" hans segir sé nægjanlegt til svona fullyrðinga?

2. Samhengið milli "væntanlega" og "samkvæmt upplýsingum" í setningunni gæti gert hvern rökfræðing gráhærðan. Sennilega hefur lestur svona vitleysu haft óheppileg áhrif á lubbann á Lárusi Welding.

"Upplýsingar" vísa til þess að staðreyndir hafi verið lagðar fram. En "væntanlega" lýsir skoðun, spádómi. Hvað þætti okkur t.d. um setningu á borð við: Sjálfstæðisflokkurinn mun vinna stórsigur í næstu kosningum samkvæmt upplýsingum frá Gallup.

Semsagt: Gjaldeyrisborð Glitnis spáir því að munurinn á Seðlabankagenginu og erlenda genginu hverfi þegar krónan flýtur. Gaman væri að vita hvort spádómar þessa merka borðs hafi að jafnaði ræst hingaðtil áður en reynt er að telja okkur trú um að þeir séu "upplýsingar".

3. Það sem snertir fólk og fyrirtæki er ekki hvort "munurinn hverfi" heldur hvert gengið verður. Takið eftir því að greinarhöfundur víkur sér ísmeygilega hjá því að spá fyrir um hvort gengið verður líkara hinu íslenska eða því alþjóðlega þegar munurinn hverfur.

föstudagur, janúar 30, 2009

Verum á tánum

Hin nýtilkomna pólitíska athafnasemi almennings er sennilega það dýrmætasta sem kemur út úr hruninu. Bæði pottabarningurinn og bloggið sýnir að nú erum við kominn inn á leikvöllinn. Þá er bara að standa sig.

Eitt af því sem þarf að gæta vel að er sú brella stjórnmálamanna að breyta leikreglunum og færa mörkin. Það er löngu ljóst að fjölmiðlamenn ráða ekki við þessar brellur. Hér eru tvö dæmi:

1. Stjórnarkreppa
Í aðdraganda stjórnarskiptanna og umræðum um kosningar í vor varð það að möntru Geirs H. og sjálfstæðismanna að við mættum ekki við stjórnarkreppu. Það var alveg ljóst að þeir meintu að það að skipta um stjórn væri stjórnarkreppa. Þarna var verið að breyta merkingu orðs, breyta reglunum í pólitískri umræðu. Aldrei heyrði ég neinn viðtalstakara þjarma að þeim fyrir þessa lúalegu brellu.

2. Ábyrgð á hruninu
Það þarf að passa að þegar verið er að tala um uppgjör hrunsins og ábyrgð á því þá er ekki verið að tala um strangan lögfræðilegan skilning á brotum. Í umræðunni dúkka alltaf öðru hverju upp sá skilningur, að sá einn beri ábyrgð sem hafi brotið lög. Það þarf að gæta þess að halda til haga brotum gegn siðferði og réttlæti þó lögin nái kannski ekki yfir það. Sérstaklega þegar ein af helstu orsökum hrunsins var frjálshyggið og veikt regluverk og eftirlit.

Mig grunar reyndar að klár lögbrot séu fá og smá, og að einblína á þau muni aldrei fullnægja réttlætiskennd þjóðarinnar. Þeim mun mikilvægara að halda því til haga að sannleikurinn komi fram og fundnar leiðir til að þeir sem beri ábyrgð axli hana á áþreifanlegan hátt.

Það má t.d. vel vera að það sé ekki gerlegt að "frysta eignir auðmanna" eins og VG vill. En kórinn sem vill slá það út af borðinu fyrirfram ætti að þegja. Ef það er hægt að koma því í kring án þess að brjóta gegn stjórnarskrá og mannréttindum þá er erfitt að skilja hvernig réttsýnt fólk ætti að vera á móti því. Á sama hátt og ef að þetta er lagalegur ógjörningur munu allir - þar á meðal VG - fallast á það.

En umfram allt: Það má ekki leyfa stjórnmálamönnum að skilgreina sekt og sakleysi í hruninu sem lögfræðilegt mál. Þetta snýst um réttlæti.

Og það er forvitnilegt að fylgjast með hvaða pólitíkusum svelgist helst á við að bera sér það orð í munn. Og hverjir forðast það mest.

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Helgi

Það er svo sannarlega ástæða til að mæra Helga Hálfdanarson. Stórbrotnara ævistarf á vettvangi bókmenntanna er fátítt.

Tvö leikrit hef ég sett á svið í þýðingu hans, Draum á jónsmessunótt og Líku líkt. Í síðara tilfellinu má telja nokkuð öruggt að við höfum brotið hina frægu reglu þýðandans um að hans skuli í engu getið ef þýðingunni er breytt. Engu að síður skal honum þakkað. Án hans hefðum við verið orðlaus. Sama má reyndar segja um okkur stútungasöguhöfunda, en við laumuðumst í gnægtarbrunn Helga þegar okkur vantaði formælingar fyrir persónur okkar sem ekki væru nútímalegar (helvítisdjöfulsinsandskotans) en heldur ekki eins og í fornsögunum (sem er beisikklí: helvítis homminn þinn!). Jarlinn af Kent í Lé konungi og Þersítes í Tróílusi og Kressítu leystu þennan vanda.

Sumt í Shakespeareþýðingum hans er rúmlega snilld. Eitt lítið dæmi: Þegar Valentín vill mæra Silvíu í Two Gentlemen of Verona með ljóði spyr fíflið Hvati hann:

Are they not lamely writ?

Og Helgi þýðir:

Eru þær ekki með bragliðagigt?

Toppiði þetta. Og lesiði Shakespeare. Og grísku harmleikina. Og kínversku og japönsku ljóðin. Og allt hitt.

Ég hef líka samið nokkur lög við söngljóð úr Shakespeare-leikritunum. Það er skemmtilegt. Stundum hugsa ég mér að semja lög við öll söngljóðin í safninu. Sjáum til með það. Eitt af þeim sem ég á eftir er hinn undurfagri útfararsálmur sem útlagarnir syngja yfir Imogen í Cymbeline. Reyndar halda þeir að hún sé drengur, og vita heldur ekki að hún er systir þeirra. Og er reyndar ekki dáin, heldur er það allt annar maður sem þeir syngja yfir. Það getur eins átt við núna. Þeir sem vilja leggjast í samanburð þá er frumtextinn t.d. hér.

Aldrei framar óttast þú
eldraun dags né kalda nótt;
kvatt þú hefur heimsins bú,
heimför gert og laun þín sótt.
Æskufjör og feyskið hold
fylgjast að í dökka mold

Aldrei meir þér ógna skal
yglibrún og ráðin há;
skeyt ei framar flík né mal,
fellur eik sem visið strá.
Speki, vald og hreystihold
hafnar allt í kaldri mold.

Aldrei meir þig skelfa skal
skrugga snögg og elding föl
áfjátt níð og eitrað tal;
öll er gengin sæld og kvöl.
ást sem björtust finnst á fold
fylgir þér í svarta mold.

Enginn seiður æri!
Enginn galdur særi!
Illir andar víki!
Alein þögnin ríki!
Hljóttu frið í hinztu gjöf!
Heiður signi þína gröf!

föstudagur, janúar 02, 2009

Heimaverkefni

Jæja, lesendur mínir ljúfu. Nýtt ár kallar á ný verkefni. Hér er eitt:

Tvöföld breiðskífa Bítlanna, sem oftast er kölluð Hvíta albúmið en heitir í raun The Beatles er nokkuð sundurgerðarlegt verk. Á henni er þó ófátt snilldarverkið, eins og við mátti búast. Fyrir því má færa rök að væri hún ein skífa en ekki tvær færi þar mikið meistarastykki.

Verkefnið er því að velja þau fjórtán lög af Hvíta albúminu sem verðskulda að vera á þeirri plötu og raða þeim í vænlega plöturöð.

Hér má finna lagalistann á albúminu, auk margvíslexs fróðleix.

ÖPPDEIT:
Auðvitað er allt svona nú þegar á netinu.

fimmtudagur, janúar 01, 2009

Mótmæli - Skaup - Tónleikar

Sennilega hefðu kryddsíldarmótmælin verið enn áhrifaríkari ef þau hefðu haldið áfram eins og þau byrjuðu - með stigmagnandi hávaða fyrir utan meðan flokksbroddarnir ræddu málin innifyrir eins og ekkert væri öðruvísi en venjulega. Það var verulega magnað að fylgjast með útsendingunni meðan hún varði. Já og af fenginni reynslu af því þegar Geir Haarde talar þá hefði málstað mótmælenda líklega verið betur þjónað með því að hleypa honum í settið. Vælið í stöðvartvömönnum og sjálfvirkum sjálfstæðisbloggurum er síðan frekar sorglegt. Og þrátt fyrir allt: gott dagsverk, afbragðs framleiðsla hjá "skrílnum".

Það sama má fyrir minn hatt segja um skaupið. Það var bara talsvert beitt eins og tilefni er til, en missti samt aldrei sjónar á því að það á f.o.f. að vera fyndið. Páll Óskar, feisbúkksketsinn og ráðhúsfarsinn voru verulega vel lukkuð, og það er mjög langt síðan ég hef misst mig eins í hlátri eins og yfir ísbirninum sem þekkti lausnina á fjármálakreppunni. Stórkostleg hugmynd. Á neikvæðu hliðinni er svosem ekkert, nema afleitir söngtextar. Hlakka til að horfa aftur. Takk fyrir mig.

Á morgun tekur svo grár hversdagurinn við. Ljótu hálfvitarnir spila á Græna Hattinum þá um kveldið, og síðan í því goðsagnakennda félaxheimili Breiðumýri. Hefjast hvorirtveggju kl. 2130 og bílætin kosta 1.500 nýkrónur.