fimmtudagur, janúar 22, 2009

Helgi

Það er svo sannarlega ástæða til að mæra Helga Hálfdanarson. Stórbrotnara ævistarf á vettvangi bókmenntanna er fátítt.

Tvö leikrit hef ég sett á svið í þýðingu hans, Draum á jónsmessunótt og Líku líkt. Í síðara tilfellinu má telja nokkuð öruggt að við höfum brotið hina frægu reglu þýðandans um að hans skuli í engu getið ef þýðingunni er breytt. Engu að síður skal honum þakkað. Án hans hefðum við verið orðlaus. Sama má reyndar segja um okkur stútungasöguhöfunda, en við laumuðumst í gnægtarbrunn Helga þegar okkur vantaði formælingar fyrir persónur okkar sem ekki væru nútímalegar (helvítisdjöfulsinsandskotans) en heldur ekki eins og í fornsögunum (sem er beisikklí: helvítis homminn þinn!). Jarlinn af Kent í Lé konungi og Þersítes í Tróílusi og Kressítu leystu þennan vanda.

Sumt í Shakespeareþýðingum hans er rúmlega snilld. Eitt lítið dæmi: Þegar Valentín vill mæra Silvíu í Two Gentlemen of Verona með ljóði spyr fíflið Hvati hann:

Are they not lamely writ?

Og Helgi þýðir:

Eru þær ekki með bragliðagigt?

Toppiði þetta. Og lesiði Shakespeare. Og grísku harmleikina. Og kínversku og japönsku ljóðin. Og allt hitt.

Ég hef líka samið nokkur lög við söngljóð úr Shakespeare-leikritunum. Það er skemmtilegt. Stundum hugsa ég mér að semja lög við öll söngljóðin í safninu. Sjáum til með það. Eitt af þeim sem ég á eftir er hinn undurfagri útfararsálmur sem útlagarnir syngja yfir Imogen í Cymbeline. Reyndar halda þeir að hún sé drengur, og vita heldur ekki að hún er systir þeirra. Og er reyndar ekki dáin, heldur er það allt annar maður sem þeir syngja yfir. Það getur eins átt við núna. Þeir sem vilja leggjast í samanburð þá er frumtextinn t.d. hér.

Aldrei framar óttast þú
eldraun dags né kalda nótt;
kvatt þú hefur heimsins bú,
heimför gert og laun þín sótt.
Æskufjör og feyskið hold
fylgjast að í dökka mold

Aldrei meir þér ógna skal
yglibrún og ráðin há;
skeyt ei framar flík né mal,
fellur eik sem visið strá.
Speki, vald og hreystihold
hafnar allt í kaldri mold.

Aldrei meir þig skelfa skal
skrugga snögg og elding föl
áfjátt níð og eitrað tal;
öll er gengin sæld og kvöl.
ást sem björtust finnst á fold
fylgir þér í svarta mold.

Enginn seiður æri!
Enginn galdur særi!
Illir andar víki!
Alein þögnin ríki!
Hljóttu frið í hinztu gjöf!
Heiður signi þína gröf!

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim