mánudagur, janúar 22, 2007

QED

Í dag er víst ömurlegasti dagur ársins í Bretlandi, segir einhver sálfræðingur.

Í dag á Arsene Wenger afmæli.

Sálfræðingurinn er klárlega frá Manchester.

Til hamingju Arsene! Með allt. Sjáumst á miðvikudaginn.

föstudagur, janúar 19, 2007

Flagari í framsókn

Þýðingarverðlaun Varríusar fara að þessu sinni til Íslensku óperunnar fyrir snörun á titli Stravinskíjóperunnar The Rake's Progress.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Spurningar, spurningar

Af hverju var Kryddsíldin í boði Alcan?

Af hverju létu Ingibjörg S. og Steingrímur J. leiða sig inn í fábjánalegan og ótímabæran leðjuslag um forsætisráðherrastólinn?

Af hverju héldu höfundar Strákanna okkar að stysta leiðin til Raufarhafnar frá Reykjavík lægi um Hellisheiði?

Af hverju hafa ekki risið upp reiðiöldur meðal knattspyrnumanna yfir að vera sýndir sem fordómafullir steinaldarmenn og tilfinningaheftir og greinarskertir aumingjar í téðri mynd?

Af hverju er betra að áramótaskaupið sé hugmyndalega slöpp viðhafnarútgáfa af Stelpunum en að það sé hugmyndalega slöpp hátíðarútgáfa af Spaugstofunni?

mánudagur, janúar 01, 2007

Áramótaannáll Varríusar

Varríus er ekki og verður ekki einkalífsdagbók, þannig að annáll þessi verður ekki á þeim nótunum frekar en áður. Þetta verður meira svona menningaryfirlit sem lýtur bæði að debet og kredithliðum - neyslu og sköpun.

Byrjum á því fyrrnefnda

Leikhúsið
Það er nú alltaf frekar skrítið að gera upp leikhúsupplifanir um áramót, þar sem þar líkur lotunni á vorin. En best samt að telja upp þær sem koma strax upp í hugann:

Pétur Gautur í Þjóðleikhúsinu
Ég sagði í dóminum að þetta væri besta uppfærsla klassísks verks sem ég hefði séð. Stend við það.

Íslenski fjölskyldusirkusinn hjá Menntaskólanum við Hamrahlíð
Mikill leikhúsgaldur hér á ferðinni. Vel unnið handrit út úr spunum, frábær leikur í burðarrullum, magísk umgjörð.

Glæpur gegn diskóinu í Borgarleikhúsinu
Glæsilega unnin vefur úr eintölum sem hnýtast að lokum saman í einn örlagarembihnút. Og Guðmundur Ingi vann leiksigur ársins, eða deilir í versta falli toppsætinu með Ólafíu Hrönn.

Nights at the Circus hjá Kneehigh
Það er til marks um aðdáun mína á þessum kornbreska leikhóp að þessi sýning sé hér á meðal, en hún er til nokkurra muna síst af því sem ég hef séð til þeirra. Engu að síður frábær. Og við auk þess heldur betur stolt af Gísla Erni.

The Producers í London
Ekkert um þetta að segja. Nema bara að maður hló eins og skoffín í þrjá tíma.

Herra Kolbert Hjá Leikfélagi Akureyrar
Frábær vinna sem skilar sér í nánast lýtalausri sýningu.

Einsmanns látbragð Ireneusz Krosny að gestaleikja í Þjóðleikhúsinu
Tvímælalaust best lukkaða gestasýning ársins. Göldróttur pólskur látbragðsleikari.

Bíóið
Varríus er nú ekki mikill bíókall, og það líða alveg þau árin þar sem þessi dagskrárliður væri barasta tómur. En sem betur fer er það nú ekki svo slæmt í ár.

Börn hefur elst vel í minninu frá því ég sá hana. Ég skrifaði þá að ég væri ekki frá því að þetta væri besta íslenska mynd sem ég hefði séð. Nú er að ég held óhætt að afnema alla fyrirvara þar á.

Að öðru leyti man ég ekkert sem var nógu merkilegt til að rifja það upp. Nema að á jóladag settumst við Hulda og Silja niður og horfðum enn og aftur á Fanny och Alexander. Alger snilld, ein besta mynd ever.

Bækurnar
Látum fjórar duga:

31 songs eftir Nick Hornby
Höfundur Fever Pitch og High Fidelity gerir grein fyrir viðhorfum sínum til tónlistar með því að skrifa ritgerðir um 31 lag sem skipta hann máli af ýmsum ástæðum. Útkoman er besta bók sem ég hef lesið um popptónlist. Sennilega er það til marks um hvað skiptir mig máli að þetta þótti mér snöggtum skemmtilegri bók en Fever Pitch, og er hún þó um Arsenal. Greinin um Heartbraker með Led Zeppelin er það albesta sem ég hef lesið um þungarokk og af hverju það höfðar til ungra drengja, og hættir því svo (oft).

Nights at the Circus eftir Angelu Carter
Fyrrgreind leiksýning leiddi mig á vit þessa höfundar og urðu það fagnaðarfundir. Bókin var betri.

Under the skin eftir Michel Faber
Vissi ekkert um höfundinn eða bókina sem Hulda keypti sér í haust og ég greip umsvifalaust og las. Þeim mun meiri hamingja. Frumleg og vel skrifuð sci-fi hrollvekja,

The Dark Tower eftir Stephen King
Lokahnykkurinn á þessum magnum opus kallsins fannst mér algerlega brilljant.

Helsta bókin sem ég las ekki á árinu er svo náttúrulega Biblían, en ég lofa bót og betrun og áframhaldandi biblíubloggi á næsta ári.

Tónlistin
Ég nenni nú eiginlega ekki að rifja upp hvað ég heyrði í fyrsta skipti á árinu og hvað ekki. Læt duga að mæra tvær frábærar plötur frá vinum og vandamönnum.

Lof um frumraun Lay Low rennur náttúrulega bara beint í bakkafullan læk, enda uppgangur stúlkunnar ævintýralegur. Og verðskuldaður því Please don't hate me er frábær plata. Lög og textar eru flott, söngurinn hittir beint í mark og útsetningar og pródúsering öll brilljant.

Og Árni Hjartar þrykkti flest sín bestu lög á harðan disk og gaf út sitt Villifé. það er líka aldeilis skemmtilegt og aftur er öll vinna í hæsta gæðaflokki. Bræður hans og mágkonur syngja afburðavel og hljóðfæraleikur er af smekklegasta vísnasöngstagi.

Og þá að sköpuninni!

Í upphafi árs hófst ég handa við spennandi og krefjandi verkefni, að sviðsetja slungið raunsæisverk með þungri undiröldu og kómískum yfirtónum. Systur eftir dr. Tótu er fantagott leikrit og leikhópurinn sem í það valdist var í magnaðri kantinum. Enda varð þetta bæði skemmtilegt að vinna og uppskeran góð. Ég er mjög stoltur af þessari sýningu og glaður með tréhausana sem röðuðust að henni.

Meðfram henni setti ég eins og einn lítinn einþáttung eftir Sigguláru og ömmu hennar. Sem var líka gaman.

Við sama tækifæri frumflutti kammarkórinn Hjárómur líka Hávamálsvítuna mína, röð af örlögum fyrir kór við texta úr Hávamálum. Það var alveg sérstakt kikk að heyra verkið flutt - og að það virkar.

Já svo lék ég örhlutverk í fínum einþáttungi eftir Júlíu Hannam.

Í maí var Hugleikur síðan með tónlistarprógramm eitt mikið í Þjóðleikhúskjallaranum og rifjaði upp perlur úr söngbók sinni. Varríus spilaði þar og söng í mörgum atriðum.

Þá má ekki gleyma því að við Hulda héldum norður í Mývatnssveit og sungum sálumessu Mozarts með gríðarstórum kór og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og G. Óla. það var magnað og verður vafalaust fastur liður á sumarprógrammi okkar að vera með í þessu.

Í maí var svo haldið í Rússlandsferð eina ógurlega með Undir hamrinum. Hún var löng og nokkuð ströng, enda fórum við á tvær hátíðir. Ferðalögin voru erfið, aðbúnaðurinn misgóður, sem og matur, og tæknibúnaður leikhúsanna var með frumstæðasta móti. Þá voru leiksýningarnar sem við sáum ansi hreint misgóðar, og ekki laust við að leikeitrun hafi verið farin að gera vart við sig undir lokin. En samt var þetta magnað ævintýri. Rússland er bara eitthvað svo rosalegt, og dularfull undiraldan sem heillar mann og lætur mann sætta sig við harðan kost og allskyns vesen. Það stendur víst alltaf til að skrifa ferðasögu á Hugleiksvefinn.

Svo hætti ég að vera formaður félagsins í vor. Það var nú alveg tímabært, og reyndist reyndar vera bísna gáfuleg tímasetning fyrir alla aðila, því nú helltust aldeilis yfir mig krefjandi utanfélagsverkefni.

Nefnilega Stundin okkar. Það ævintýri byrjaði hjá Rauða Krossinum. Ég var beðinn að skrifa fyrir þau litla sketsa um litla fígúru, Hjálpfús að nafni, sem er víst vel kynntur í leikskólum landsins. þetta átti síðan að sýna í Stundinni okkar. Ég sló til, og greip með mér Snæbjörn nokkurn Ragnarsson, sem hafði hafði staðist inntökupróf í stétt leiktextahöfunda með glans í Jólaævintýrinu skömmu áður.

Fljótlega eftir að við fórum að funda með Rauðakrossfólki og pródúsent Stundarinnar, Eggert Gunnarssyni, bauð hann okkur að skrifa handritið að aðalefni þáttarins, sem er náttúrulega ekki eitthvað sem hægt er að segja annað en já við. Svo við sögðum já, bættum Ármanni og Sævari í hópinn og hófumst handa við að búa til ramma og karaktera. Fljótlega eftir að þau Stígur, Snæfríður og Ingimundur höfðu orðið til var síðan ráðist í að skrifa þessi ríflega þrjátíu handrit sem þurfti, og semja lögin fimmtán sem prýða þættina.

Þetta er búið að vera alveg ævintýralega skemmtilegt. Það er gaman að skrifa efnið með þessum ágætu mönnum, frábært að kynnast öllu því magnaða liði sem vinnur við að blása lífi í það í stúdíóinu, leikarar, hönnuðir og tæknifólk.

Að ekki sé minnst á hljómsveitina Börn síns tíma, sem við settum saman til að útsetja og spila tónlistina. Baldur, Gunnar Ben, Jón Geir, Loftur. Þarf að segja meira?

Viðtökurnar eru góðar það við heyrum.

Síðustu stórtíðindi úr sköpunarsögu Varríusar á árinu var svo sameining hljómsveitanna Ljótu hálfvitanna og Ripp, Rapp og Garfunkel undir nafni hinna fyrrnefndu. Þetta er átta manna vitleysingjahæli þar sem er gott að vera. Við erum búnir að spila helling og mikill hugur í mannskapnum. Og er gaman? Aggi, Ármann, Baldur, Bibbi, Gummi, Oddur, Sævar. Þarf að segja meira?

Semsagt: Viðburðaríkt ár með föstum liðum og róttækum breytingum í bland.

Varríus óskar lesendum sínum gleðilegs nýs árs og þakkar fyrir samfylgdina 2006.