miðvikudagur, september 27, 2006

Hrópandinn, spámaðurinn, eldklerkurinn og samúræjinn

Gangan niður Laugaveginn og fundurinn á Austurvelli í gær var talsvert mögnuð stund. Fjöldinn sennilega áhrifaríkasta elementið, og ekki skildi vanmeta áhrifamátt veðurblíðunnar. En augu og eyru og orka allra nærstaddra beindist eðlilega að þeim sem töluðu.

Þegar Guðmundur Páll Ólafsson talar um náttúruna þá er hlustað. Og rifjað upp þegar hann þótti bísna sérvitur kall. Hrópandinn sem talaði máli eyðimerkurinnar fyrir næsta daufum eyrum lengi vel. En núna er hlustað.

Það var Andri Snær Magnason sem opnaði eyru okkar. Okkar sem kusum of lengi að treysta, vildum trúa að á málinu væru tvær jafngildar hliðar. Mögnuð mælska hans, myndríkt málið sem litar staðreyndaflauminn í Draumalandinu, líkingarnar sem gera flókið mál einfalt. Andri Snær er spámaðurinn sem beðið var eftir.

Ég veit ekki hvort Hildur Eir Bolladóttir megnar að stöðva stífluflauminn með predikun sinni eins og Jón kollegi hennar hraunið um árið. En eldræða er það og slær tón sem undarlega lítið hefur heyrst í gagnrýni á aðfarirnar: græðgi. Getur verið að græðgisvæðing samfélagsins sé orðin slík að við séum öll orðin samdauna? Þá á Hildur sem því nemur meiri heiður skilinn.

En þetta var samt auðvitað stund Ómars. Hann var segullinn, sáttahugmyndir hans ljós í myrkrinu. Af hverju? Vegna þess að þær virkja þau okkar sem hafa veigrað sér við að berjast gegn einhverju en erum fús að leggja baráttunni fyrir einhverju lið. Auðvitað er þetta orðhengilsháttur, en samt. Áætlun Ómars er ekki varnarbarátta heldur sóknarstrategía. Og eins og sannur Samúræji hefst Ómar ekki handa fyrr en stund stríðsins er runnin upp.

Ég veit ekki hvað gerist næst. Kannski ekki neitt. Í gær virtust allar leiðir færar. Í dag eru allir í vinnunni. Við treystum á bardagamanninn. Og munum hlýða kalli hans ef og þegar það kemur.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim