fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Orðstír

Það að forkólfar Sjálfstæðisflokksins laumist til að veita Árna Johnsen uppreist æru í hlutverki handhafa forsetavalds, þremur árum áður en slíkt er hægt samkvæmt lögum þarf ekki að koma neinum á óvart. Kannski dapurlegt og aumkunarvert, en algerlega fyrirsjáanlegt.

Lýðhylli Árna í Vestmannaeyjum er síðan annar og loðnari handleggur.

Verð samt að játa að ég skil ekki löggjöfina. Af hverju skyldi útiloka fólk sem setið hefur í fangelsi frá því að bjóða sig fram til Alþingis? Má ekki halda því fram að tugthúslimir hafi með athæfi sínu og afleiðingum þess öðlast lífsreynslu sem er óvenjuleg og þar með dýrmæt í mótun samfélagsins?

Hvaða slúbbert sem er getur sótt um hvaða vinnu sem er, en ef þeir sem sjá um ráðninguna eru ekki þeim mun meiri hálfvitar þá bera þeir vonandi gæfu til að sigta burt helstu vitleysingana áður en þeir velja svo hæfasta ... karlmanninn.

Á sama hátt: Er það ekki hlutverk okkar kjósenda að hafna þeim frambjóðendum sem okkur býður við, hvort sem það er vegna mannorðsleysis eða af öðrum ástæðum?

Og þess fjarskylt: Er mannorð lögfræðihugtak? Er það ekki bara íslenska?

Í Marðarbók segir:
Mannorð HK 1 það orðspor sem fer af e-m, orðstír [...] 2 orðrómur.
í 34. grein stjórnarskrárinnar stendur:
Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá ríkisborgari sem kosningarrétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð.
Kannski er ég bara svona illa innrættur, en mér er til efs að mikið gangi laust af fólki með óflekkað mannorð í skilningi íslenskrar orðabókar. Og satt að segja held ég að hlutfallið sé jafnvel enn lægra í þingsölum en á landinu í heild.

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Tíðindalaust

Síðasta vika var upptökuvika á Stundinni. það var gaman. Helginni eyddum við höfundarnir í sumarbústað við að skrifa næsta skammt. það var gaman. Núna erum við í óða önn að útsetja næstu lög með hljómsveitinni. Það er gaman. Svo förum við í stúdíó og tökum þau upp. Verður örugglega gaman. Og næsta vika er upptökuvika á Stundinni okkar. Og svo ætla Systur að fara að hittast ...

You get the picture.

Hvað er hægt að segja um Kárahnjúkamálið? Ekki mikið, ef mann langar að vera viss um staðreyndir málsins áður en kjaftur er þaninn. Veit einhver í alvöru hvort framkvæmdin er örugg, arðbær eða hvort ávinningurinn sé í réttu hlutfalli við fórnirnar? Getur einhver talað um annað en óljósar "líkur" sem menn meta svo miklar eða litlar eftir því hvaða hagsmuni þeir verja eða hvaða málstað menn veita lið af ástæðum sem eru eins margar og fólkið.

Við vitum samt þetta: Allt bendir til að stjórnmálamenn, fulltrúar þeirra í stjórnarstöðum í kerfinu og hjá Landsvirkjun auk allskyns fiska í tengslaneti valdsins hafi falið, logið, hótað, njósnað, refsað, ruglað, snúið út úr, blekkt, þaggað og á allan hátt reynt að trufla það að ákvarðanir í málinu byggist á staðreyndum.

Það er óþolandi. Og bendir auðvitað eindregið til þess að málstaður þeirra sé óverjandi með aðferðum upplýsingar, rökvísi og sannleika.

Það sem heitir á mannamáli vondur málstaður.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Get your high heels off my chest

Varríus kynnir með stolti nýjan félaga á bloggaralistanum. Þangað hefur verið munstrað hæfileikabúntið og skáfrænka mín hún Lovísa. Hún er tónlistarmeistari mikill og mun diskur væntanlegur með alteregóinu Lay Low vera væntanlegur. Á blogginu er linkur yfir á Myspace-síðu trúbbans þar sem finna má tvö tóndæmi. Mér finnst hún algerlega brilljant trúbador. Og ég veit hvað ég syng.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Játning

Jæja, Fréttablaðið er búið að skrifa um þetta, svo ég sendi þessi skilaboð til þess sniðmengis mannkyns sem les Varríus en ekki Fréttablaðið.

Ég og fjórir* félagar mínir erum sumsé í óðaönn að skrifa handrit að Stundinni okkar. Auk Varríusar eru þar á ferð Ármann Guðmundsson og Sævar Sigurgeirsson, að viðbættum Snæbirni Ragnarssyni sem Fréttablaðinu þótti ekki ómaksins vert að nefna, en er þó tvímælalaust jafnvígur okkur hinum í fíflagangi, og öllu fremri þegar kemur að lagasmíðum eins og allir smekkmenn á tónlist vita.

En allavega, við erum á kafi í Stundinni okkar. Búnir að skrifa tíu þætti og gott betur, og í dag voru fyrstu tökur. Svo við gerum langa sögu stutta þá er þetta búin að vera óumræðilega skemmtilegt. Að skrifa og semja, að útsetja og taka upp tónlistina með súpergrúppunni sem samanstendur af Baldri, Gunnari Ben, Jóni Geir og Lofti. Að vinna með öllum ofurmennunum á RÚV. Og svo dagurinn í dag þar sem Ísgerður, Ívar og Þráinn breiddu úr vængjum sínum. Við erum vissulega pönkarar, en það var stutt í tárin.

Nú er sko gaman.

Samkvæmt endurtalningu Sævars munu þeir vera þrír, félagarnir

laugardagur, ágúst 19, 2006

The Future's so bright

Greiningardeild Varríusar óskar Framsóknarflokknum til hamingju með að hafa valið þessa heiðursmenn til forystu, nýsköpunar og til að leiða flokkinn og þjóðina alla inn í tuttugustu og fyrstu öldina.

Guð blessi okkur öll.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Óheppinn

Halldór Ásgrímsson kveður. Hann talar um flokka sem megna ekki að tala til nútímans og enda sem "fylgislaus náttröll" í samfélaginu. Hann segir Framsóknarflokkinn vera "Eina stærstu fjöldahreyfingu í landinu".

Svo gerist hann væminn og segir:

"Framsóknarflokkurinn hefur gefið mér miklu meira en ég hef getað gefið honum."

En það vissum við nú öll, er það ekki?

Áfram Jón!

föstudagur, ágúst 11, 2006

Þessi sterka þögla

Það fer heldur lítið fyrir skrifum hér þessa dagana. Eins og venjulega eru það annir sem ráða þar mestu. Það er líka eitthvað svo dapurlegt að fylgjast með þjóðmálaumræðunni, allir í skotgröfunum með og á móti eftir flokkslínum. Líbanon, Lögregluofbeldi, Kárahnjúkar, Ofurtekjur. Hundleiðinlegt.

Ólíkt Máfnum hjá Leikfélaginu Sýnum í Elliðaárdal í skítaveðrinu í gær. Það var þó nokkuð skemmtilegt. Flippnálgunin nýttist einhliða aukapersónunum best, en þvældist á móti fyrir margflata ástar/haturskvartettinum í hjarta verksins; rithöfundunum og leikkonunum.

Vel heppnuð stytting (saknaði einskis). Góður slatti af prýðilegum leik. Tónlistin flott (þó ég skilji ekki alveg afhverju blokkflautukvartett). Mikið af hugmyndum, sumum góðum og öðrum síður.

Verst að finnast stundum eins og leikstjóranum þætti verkið ekki alveg verðskulda einlæga leit að því hvað er að gerast bak við orðin. Það er nefnilega þar sem skýringuna á því af hverju Tsékof kallar verkið "gamanleik" er að finna.

Það sást stundum - og þá var gaman.

Og þegar Gummi spilaði á hornið.

Og þegar þjónninn datt á bananahýðinu.

Og þegar Annabegga tók í vörina.

Og þegar Aldís talaði um að taka "lestina til Yelets með bændadurgunum"

Og þegar maður komst heim og gat hlýjað sér.

Af þessu tilefni er myndband helgarinnar dæmi um 111. meðferð á meistarastykki.



Eigið þið góða eina.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Helgin framundan

Varríus verður heima að skrifa og semja.

Ekkert af því verður samt jafngott og þessi dásemd:



Sumir hefðu vafalaust gaman af því að horfa á þetta aftur með textann sér við hlið.

Góðar stundir.