Orðstír
Lýðhylli Árna í Vestmannaeyjum er síðan annar og loðnari handleggur.
Verð samt að játa að ég skil ekki löggjöfina. Af hverju skyldi útiloka fólk sem setið hefur í fangelsi frá því að bjóða sig fram til Alþingis? Má ekki halda því fram að tugthúslimir hafi með athæfi sínu og afleiðingum þess öðlast lífsreynslu sem er óvenjuleg og þar með dýrmæt í mótun samfélagsins?
Hvaða slúbbert sem er getur sótt um hvaða vinnu sem er, en ef þeir sem sjá um ráðninguna eru ekki þeim mun meiri hálfvitar þá bera þeir vonandi gæfu til að sigta burt helstu vitleysingana áður en þeir velja svo hæfasta ... karlmanninn.
Á sama hátt: Er það ekki hlutverk okkar kjósenda að hafna þeim frambjóðendum sem okkur býður við, hvort sem það er vegna mannorðsleysis eða af öðrum ástæðum?
Og þess fjarskylt: Er mannorð lögfræðihugtak? Er það ekki bara íslenska?
Í Marðarbók segir:
Mannorð HK 1 það orðspor sem fer af e-m, orðstír [...] 2 orðrómur.í 34. grein stjórnarskrárinnar stendur:
Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá ríkisborgari sem kosningarrétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð.Kannski er ég bara svona illa innrættur, en mér er til efs að mikið gangi laust af fólki með óflekkað mannorð í skilningi íslenskrar orðabókar. Og satt að segja held ég að hlutfallið sé jafnvel enn lægra í þingsölum en á landinu í heild.