föstudagur, júní 30, 2006

Góð ráð

Björn Bjarnason er fyndinn kall. Núna telur hann augljóst og einsýnt að við þurfum 30 manna leynilöggu til að njósna um okkur af því að tveir sérfræðingar frá Evrópusambandinu segja það.

Gott að vita að hann hefur lært að taka mark á ráðleggingum.

Kannski hann geri slíkt hið sama næst þegar hann skipar hæstaréttardómara.

miðvikudagur, júní 28, 2006

Fótboltarýni

Þá liggja 16 liða úrsitin fyrir. Búinn að segja það sem segja þarf um fyrstu tvo leikina, annað en að Argentína-þýskaland í næstu umferð er hinn raunverulegi úrslitaleikur keppninnar miðað við spilamennskuna hingað til.

England-Ekvador hefði nú alveg mátt fara á hinnveginn mín vegna, en Ekvadorarr klunnar að skora ekki. Og svo er auðvitað ekkert hægt að deila við aukaspyrnusnilli pissudúkkunnar frá Leytonstone.

Mikið hefur verið þusað yfir dómaranum í Portúgal-Holland, en minna yfir ruddaskapnum í leiknum. Er ekki viss um að ef hvert og eitt spjald er skoðað að þetta hafi verið einber dómaraskandall. En sigurinn var sanngjarn og vonandi tekst Portúgölum að naga sig í gegnum rauðu spjöldin og senda tjallana heim í næstu umferð. Ekki er ég samt bjartsýnn.

Dómaraskandall er hinsvegar yfirskrift næsta leiks. Þvílík vonbrigði að Ítalakvikindunum tókst að krafsa sig í gegnum þennan leik og það á lokasekúndunni með fráleitri vítaspyrnu. Fuss og svei.

Úkraína-Sviss stóð undir öllum væntingum og fór svo framúr þeim í vítakeppninni þar sem Svissurunum tókst ekki að skora. Alger leiðindi. Held samt með Úkraínunum á móti Ítölum. Ekki er ég samt bjartsýnn.

Hvort voru Brasilíumennirnir svona kaldir á móti Ghana eða svona slappir? Afríkumennirnir óðu í færum og það virtist ekki stuða Brassana hið minnsta, enda fóru þau öll til spillis. Og svo skorðu þeir þrjú, eitt reyndar ólöglegt. Þetta Brasilíulið er ráðgáta, það eina sem er víst að það hefur ekki verið nándar nærri eins frábært og allir héldu.

Spánverjar og Frakkar völdu rétta leikinn til að sýna sitt rétta andlit. Spánverjarnir hættu að geta rassgat og Frakkar skoruðu þrjú mörk. Ljótt af Henry að fiska aukaspyrnu með leikaraskap, og skammarlegt að gamalreyndir Arsenalmenn kunni ekki betri skil á rangstöðugildrum. Vona að Tony Adams hafi ekki verið að horfa. Skemmtilegur leikur. Hef líka trú á að viðureign Frakka og Brassa verði stuð, og vonlaust að spá.

Skrepp á Ísafjörð á morgun til að sjá einleik með manni með Bacontöluna 2. Hvursu kúlt er það?

Svar: Talsvert kúl, þangað til maður sér að kremfressið David Beckham er með sömu Beikontölu

laugardagur, júní 24, 2006

Háemm

Annir á öllum víxtöðvum hafa gert það að verkum að ég hef sárafáa HM-leiki séð í heild sinni, en glefsur úr flestum. Sama ástæða skýrir vitaskuld slælega bloggun undanfarið.

En nú er riðlakeppnin að baki og útsláttargeðveikin alltumlykjandi. Förum yfir stöðuna:

Svíþjóð - Þýskaland
Fór 2-0 fyrir heimamönnum sem eru í banastuði. Svíar alveg svakalega óyndislegt lið með tvo ósympatískustu framherja í heimi. Gott á þá. Þjóðverjar helvíti kraftmiklir (fyrirsjáanlegt) og skemmtilegir (eitthvað nýtt), en munu tæplega klára næsta leik, sem verður við Argentínu

Argentína - Mexíkó
Ég hóf að fylgjast með HM árið 1978 og hélt með Hollendingum og hata þarafleiðandi Argentínumenn öðrum meira. En það dugar ekki sem bólusetning gegn stórkostlegri spilamennsku þeirra. Þó svo þeir hafi lent í nettum vandræðum með Mexíkóa þá eru þeir illvígir mjög og hreint ekki ósennilegir sigurvegarar í keppninni.

England - Ekvador
Fólk sem heldur með englendingum þykir mér pirrandi fólk. Þetta er skítalið, fullt af hrokafullum og nautheimskum súperstjörnum og geta ekki rassgat. Vona að þeir tapi, óttast að þeir slefi í sigur og haldi áfram að gera fólki sem elskar fótbolta lífið leitt.

Portúgal - Holland
Mitt gamla uppáhaldslið er ekki svipur hjá sjón og heldur ólíklegir til að vinna spræka Portúgali. En Christiano Ronaldo er einhver hvimleiðasti sparkari í heiminum og og þvi spái ég að "við" vinnum, þó huxanlega verði það ekki fyrr en í vítaspyrnukeppni þar sem téður Ronaldo klúðrar sínu en minn maður Van Persie brillerar.

Ítalía - Ástralía
Go Aussies! Að elska fótbolta er að hata Ítali. Því miður munu þeir vinna 2-1,

Sviss - Úkraína
Hetja Svisslendinga og Arsenal, Philippe Senderos, er ekki með eftir að hafa tæklað öxlina á sér úr lið í síðasta leik. Þannig að þeir detta úr hér og Úkraínumenn komast óverðskuldað í áttaliðaúrslitin.

Brasilía - Ghana
Úrslitaleikur Varríusar! Liðin tvö sem ég held með mætast óvænt. Ghana vinnur óvænt.

Spánn - Frakkland
Frakkar hafa spilað eins og hálfvitar hingaðtil. Hálfvitar sem gefa alltaf á Zidane, líka þegar það er út í hött. Sá ekki leikinn við Tógó en geri fastlega ráð fyrir að þeir hafi sent nokkra bolta upp í stúku þar sem Zizou sat af sér gulu spjöldin. Spænirnir eru hinsvegar hressir og vinna.

miðvikudagur, júní 21, 2006

Meistarastykki

Úr Mogganum í dag:

"Stephen Hawking sagði í fyrirlestri í Kína í dag að hann hefði miklar áhyggjur af hlýnun andrúmslofts jarðar og kvaðst óttast að með tímanum yrði jörðin eins og Venus, þar sem hiti er um 250 gráður og rignir brennisteinssýru. Hawking sagði líka að sér þættu kínverskar konur afar fallegar."

laugardagur, júní 17, 2006

"Fólkið er frjótt - og landið ekki ljótt"

Þannig lauk Ósk Vilhjálmsdóttir ræðu sinni á þjóðhátíðarfundi Framtíðarlandsins, félags um framtíð Íslands í Austurbæ núna í hádeginu. Þetta var góður fundur, stappað af fólki og mikil stemming.

Fyrir utan alla viskuna sem drýpur af hverju snjallyrði í Draumalandi Andra Snæs þá er hans stærsta gjöf til þjóðmálaumræðunnar sú tóntegund jákvæðni, bjartsýni og kjarks sem hann hefur módúlerað raddir andstöðu við stóriðjustefnuna í. Þessi andi sveif svo sannarlega yfir vötnum á fundinum, þó föstum gagnrýniskotum væri vissulega skotið líka.

Öllum mæltist vel. Fundarstjórarnir María Ellingsen og Margrét Vilhjálmsdóttir voru skörulegar, Ósk var flott, Þóra Ellen Þórhallsdóttir grasafræðingur talaði af myndugleik vísindamannsins og hafði fyrir vikið hálfu sterkari tilfinningaleg áhrif með mynd sinni af áhrifum stórvirkjana. Reynir Harðarson talaði vitaskuld eins og sá sem valdið og vitið hefur eftir sigurför hugvitsins hjá CCP hefur gefið dæmi um hvernig má skapa verðmæti án þess að kreista þau út úr náttúrunni. "Við eigum að framleiða gæði en ekki magn" sagði hann og rifjaðist þá upp fyrir mér að eina fyrirtækið á Íslandi sem fullvinnur ál, Alpan í Þorlákshöfn, hefur nú flutt starfsemi sína til Austur-Evrópu.

Slagverkmennirnir slógu flottan tón í upphafi og Guðný og Gunnar spiluðu unaðslega.

Ég á enn eftir að yfirstíga tregðu mína til að ganga til liðs við pólitísk samtök, þó þverpólitísk séu (hvað sem það þýðir). En hvet alla sem ekki eru jafnmiklar pólitískar pempíur til að skrá sig.

Mótsagnarkenndur? Sú mí.

föstudagur, júní 16, 2006

Tveir HM-Molar

Allt um brasílískar fótboltamannanafnahefðir hér

Og hversvegna Úrúgvæjar eru hinir sönnu heimsmeistarar hér.

Góða helgi. Áfram Ísland.

Góð hugmynd

Það sem sumum ameríkönum dettur í hug!

fimmtudagur, júní 15, 2006

Gríman

Jæja, Gríman verður veitt á morgun í Borgarleikhúsinu. Það er nú alltaf gaman. Fór að gamni í gegnum tilnefningarnar og spáði í spilin, hverja ég teldi myndu vinna, hverra ég sakna úr tilnefningalistunum og hverjir eru þar ómaklega að mínu mati. Sá auðvitað ekki allt, og er sérvitur mjög, svo það verður að taka þessu þannig. Svo hef ég líka mismikið vit á tæknigreinunum, og eftir því misskýrar skoðanir. Svo gildir auðvitað hin klassíska ædóltugga að þetta er mitt álit og þarf á engan hátt að endurspegla val akademíunnar, sem aftur er væntanlega víðsfjarri áliti þjóðarinnar.

Hafandi hvorki vit né áhuga á dansi þá leyfi ég mér að tjá mig ekkert um þá liðu.

En allavega:


Útvarpsverk ársins

Einhver í dyrunum eftir Sigurð Pálsson í leikstjórn Bjarna Jónssonar

Hér er kominn maður eftir Jónínu Leósdóttur í leikstjórn Ásdísar Thoroddsen

Ómerktur ópus í c-moll eftir Karl Ágúst Úlfsson í leikstjórn Ingólfs N. Árnasonar

Papar eftir Brian FitzGibbon í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur

Skáld leitar harms eftir Guðmund Inga Þorvaldsson í leikstjórn Sigrúnar Eddu Björnsdóttur


Hlusta aldrei á útvarpsleikrit ótilneyddur. Er því vanhæfur með afbrigðum og hef enga skoðun. Giska á Sigga Páls, hann er alltaf svo verðlaunalegur eitthvað. Held með Karli Ágústi af því hann er svo fínn kall. Hin eru það líka auðvitað, það best ég veit.

Kannnski ekki heilt yfir kallar, en fín.


Barnasýning ársins

Hafið bláa eftir Kristlaugu M. Sigurðardóttur í leikstjórn Agnars Jóns Egilssonar hjá Ísmediu

Leitin að jólunum eftir Þorvald Þorsteinsson í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar hjá Þjóðleikhúsinu

Ronja Ræningjadóttir eftir Astrid Lindgren í leikstjórn Sigrúnar Eddu Björnsdóttur hjá Leikfélagi Reykjavíkur


Hér er reyndar flokkur þar sem úrtakið er dálítið rýrt. Man í svipinn bara eftir tveimur barnasýningum atvinnumanna sem voru frumflutt á árinu en eru ekki hér.

Sá bara Ronju af þessum þremur, og finnst hún ekki verðskulda verðlaun þó skammlaus væri. Giska á Hafið bláa, en Þorvaldur er engu að síður minn maður.


Söngvari ársins

Andrea Gylfadóttir fyrir hlutverk sitt í Litlu Hryllingsbúðinni hjá Leikfélagi Akureyrar

Bergþór Pálsson fyrir hlutverk sitt í Öskubusku hjá Íslensku Óperunni

Garðar Thór Cortes fyrir hlutverk sitt í Öskubusku

Halla Vilhjálmsdóttir fyrir hlutverk sitt í Túskildingsóperunni hjá Þjóðleikhúsinu

Þórunn Lárusdóttir fyrir hlutverk sitt í Kabarett hjá Á senunni


Hér sá/heyrði ég alla nema Andreu. Þetta er held ég nýr flokkur, og ekki illa tilfundinn. Athyglisvert samt að leikhúsakademíunni hafi fundist Bergþór Pálsson syngja betur en t.d. Sesselja Kristjánsdóttir í Öskubusku, gæti verið að tilþrifa- og fyrirferðarmikill leikmáti söngvarans hafi spilað þar inn í?

Einnig grunar mann að fleira en einber söngur standi að baki tilnefningu Höllu Vilhjálmsdóttur. En hún var óstjórnlega flott og ég spái henni sigri.


Tónlist og hljóðmynd ársins

Ester Ásgeirsdóttir og Sigurður Bjóla fyrir Pétur Gaut í Þjóðleikhússinu

Davíð Þór Jónsson fyrir Forðist okkur hjá CommonNonsense og Nemendaleihúsið

Hallur Ingólfsson fyrir Glæp gegn diskóinu hjá Steypibaðsfélaginu Stút og Vesturporti

Nick Cave, Ólafur Örn Thoroddsen, Pétur Benediktsson og Warren Ellis fyrir Woyzeck hjá LR og Vesturporti
                                        
Jakob Tryggvason, Matthías Hemstock, Ómar Guðjónsson og Óskar Guðjónsson fyrir Sölku Völku hjá LR


Sá allt hér nema Sölku. Ef gamla tuggan um að hljóðmynd sé góð ef maður tekur ekki eftir henni þá stendur keppnin milli Gautsins og Forðist okkur. Held hinsvegar að þetta sé bull. Hér verður ekki svo auðveldlega gengið fram hjá Nick Cave, enda engin sérstök ástæða til. Hlakka bara til að sjá hann taka við styttunni.

Hér hefði ég viljað sjá tilnefningu handa Virkjuninni, snjöll meðferð og notkun á sönglögum, flottar útsetningar, fínn söngur og frábærir textar.


Lýsing ársins

Björn Bergsteinn Guðmundsson Fyrir Ég er mín eigin kona hjá Skámána, Fagnað í Þjóðleikhúsinu og Maríubjölluna hjá LA.

Egill Ingibergsson fyrir Forðist okkur

Jóhann Bjarni Pálmason fyrir Kabarett

Lárus Björnsson fyrir Woyzeck

Páll Ragnarsson fyrir Pétur Gaut


Æji lýsingin... Aðhyllist Peter Brook-skólann: Very bright. Finnst alltaf skrítið þegar menn fá eina tilnefningu fyrir fleira en eitt verk.

Egill tekur þetta.


Búningar ársins

Filippía I. Elísdóttir fyrir Woyzeck, og Virkjunina í Þjóðleikhúsinu

Helga I. Stefánsdóttir fyrir Pétur Gaut

Katrín Þorvaldsdóttir Eldhús eftir máli í Þjóðleikhúsinu

María Ólafsdóttir Hafið bláa
            
Þórunn Elísabet Sveinsdóttir Halldór í Hollywood í Þjóðleikhússinu


Þetta sá ég allt nema Hafið Bláa. Og get ómögulega lagt eitthvað gáfulegt mat á þetta, nema mér fundust búningarnir í Woyzeck tómir stælar. Var einhver merkileg búningavinna í Pétri Gaut? Ekki minnist ég þess.

Best að halda með Tótu.


Leikmynd ársins

Börkur Jónsson fyrir Fagnað og Woyzeck

Gretar Reynisson fyrir Pétur Gaut

Halla Gunnarsdóttir fyrir Maríubjölluna
            
Ilmur Stefánsdóttir fyrir Forðist okkur

Stígur Steinþórsson fyrir Eldhús eftir máli


Sá þetta allt nema Fagnað. Enn leiðast mér tilnefningar fyrir fleira en eitt. Var Woyzeck flott leikmynd? Var hún ekki bara dýr, fyrirsjáanleg og dálítið ljót? Var leikmyndin í Eldhúsinu eitthvað merkileg? Maríubjallan var flott, en fær refsistig fyrir klósettsetuna - svoleiðis er ekki að finna í rússneskum fátækrahjöllum. Mín vegna hefði mátt tilnefna Frosta Friðriksson fyrir Halldór í Hollywood

Spái Grétari sigri, leikmyndin í Pétri Gaut var þénug mjög og náði líka að segja mikið án þess að þrengja að merkingu verksins. Breyttist áreynslulaust úr líkhúsi í frystihús, úr mafískum pyntingarklefa í sánu á lúxushóteli. Frábært.


Leikkona í aukahlutverki

Brynhildur Guðjónsdóttir fyrir Pétur Gaut

Edda Arnljótsdóttir fyrir Pétur Gaut

Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir fyrir Himnaríki í Hafnarfjarðarleikhússinu

Margrét Kaaber fyrir Fagnað
            
Maríanna Clara Lúthersdóttir fyrir Fullkomið Brúðkaup


Var Gulla í aukahlutverki í Himnaríki? Hvaða hlutverk voru þá aðalhlutverkin? Er hlutverk Sólveigar í Pétri Gaut aukahlutverk, en Ásu aðal? Gáfu örhlutverk Eddu henni færi á að sýna eitthvað verðlaunavert?

Sá ekki Fagnað eða Fullkomið brúðkaup en í ljósi orðspors tel ég að Maríanna Clara fari heim með Grímuna.


Leikkarl í aukahlutverki

Björn Hlynur Haraldsson fyrir Woyzeck

Ingvar E. Sigurðsson fyrir Pétur Gaut

Ólafur Egill Egilsson fyrir Fagnað

Ólafur Darri Ólafsson fyrir Pétur Gaut
                                        
Þráinn Karlsson fyrir Maríubjölluna


Þráinn, ekki spurning fyrir minn smekk. Get ekki sagt að hinir hafi hrifið mig neitt ógurlega í þessum rullum, að frátöldum Ólafi Agli sem ég sá ekki í Fagnaði, en hefði mín vegna mátt fá tilnefningu fyrir frammistöðuna í Gautnum.

Hvernig var samt hægt að tilnefna ekki Kristján Ingimarsson fyrir að halda heilum 8 konum? á floti? Og ef Gulla var í aukarullu í Himnaríki þá hefði ég vel getað huxað mér að hafa Jóhann G hér á meðal fyrir sitt hlutverk í því stykki.


Leikkona í aðalhlutverki

Arnbjörg Hlíf Valsdóttir fyrir Frelsi í Þjóðleikhúsinu

Helga Braga Jónsdóttir fyrir Hungur hjá Fimbulvetri

Ilmur Kristjánsdóttir fyrir Sölku Völku

Margrét Vilhjálmsdóttir fyrir Eldhús eftir máli

Ólafía Hrönn Jónsdóttir fyrir Pétur Gaut


Hér missti ég af Frelsi og Sölku. Helga Braga var frábær í Hungri. Ætla samt að fullyrða að enginn skáki meistaralegri meðferð Ólafíu Hrannar á Ásu í Pétri Gaut. Engar koma upp í hugann sem ómaklega hafa verið settar hjá.


Leikkarl í aðalhlutverki

Atli Rafn Sigurðarson fyrir Halldór í Hollywood

Björn Hlynur Haraldsson fyrir Pétur Gaut

Hilmir Snær Guðnason Fyrir Ég er mín eigin kona

Ingvar E. Sigurðsson fyrir Woyzeck

Þór Tulinius fyrir Manntafl hjá Þíbylju


Ahhh. Dauðariðillinn. Hér finnst mér nú vanta einn og annan. Hvar er Guðmundur Ingi, sem hefði mín vegna mátt vinna út á snilldartök sín í Glæp gegn diskóinu? Og hvar er Halldór Gylfason sem náði næstum því að bjarga Lífsins tréi með Jens sínum Dúffrín? Hefði í sjálfu sér ekki saknað Björns Hlyns, þó góður væri, og alls ekki Ingvars sem gerði ekkert merkilegt við Woyzeck. Sá því miður ekki Þór Túl.

En þetta er nú nokkuð gefið er það ekki? Hilmir Snær vinnur fyrir öryggi sitt í þrautabrautinni ógurlegu.


Leikstjóri ársins

Ágústa Skúladóttir fyrir Eldhús eftir máli

Baltasar Kormákur fyrir Pétur Gaut

Gísli Örn Garðarsson fyrir Woyzeck

Jón Páll Eyjólfsson fyrir Maríubjölluna

Stefán Jónsson og Ólöf Ingólfsdóttir fyrir Forðist okkur


Hef trú á því að Baltasar sigri sína öflugu mótherja, enda Gauturinn óvenju heilsteypt og áhrifarík túlkun á harðsnúnu klassísku verki. Ágústa kemur jafnframt sterk inn, svo og Stefán og Ólöf. Hef engar sérstakar athugasemdir við tilnefningar í þessum flokki.


Leikskáld ársins

Hugleikur Dagsson fyrir Forðist okkur

Hrund Ólafsdóttir fyrir Frelsi

Jón Atli Jónasson fyrir 100 ára hús hjá Frú Emilíu
            
Vala Þórsdóttir fyrir Eldhús eftir máli

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann fyrir Hungur


Fullt af (tiltölulegum) nýgræðingum, sem er flott. Sá ekki Frelsi og ekki 100 ára hús. Held með Hrund en veðja á Hugleik. Eldhúsið var frábær sýning, en held að það þurfi mikið að vera að í frumsömdum leikritum til að leikgerð verði tekin fram fyrir þau.

Og hér er náttúrulega enn við líði sú fráleita ósvinna að leikrit skrifuð fyrir áhugaleikfélög eru ekki með í keppninni. Fullyrði að ella væru Systur Þórunnar Guðmundsdóttur þarna á meðal, og hreint ekki minnst sigurstranglegar.


Sýning ársins

Eldhús eftir máli

Forðist okkur   

Maríubjallan

Pétur Gautur
            
Woyzeck


Stóra bomban. Hér vantar klárlega eina sterkustu sýningu leikársins, Glæp gegn diskóinu. Annarra sakna ég svo sem ekki. Hér eru miklar prýðis-sýningar nefndar til sögunnar, en mig grunar að dómararnir verði sammála mér og krýni lygalaupinn Pétur konung leikársins.

Já, áhorfendaverðlaunin. Ég kaus Pétur Gaut. Fullkomið brúðkaup eða Ég er mín eigin kona vinna.

Og svo er bara að setjast í sóffann annaðkvöld með bjór og flögur og horfa á herlegheitin og flissa yfir hvað Varríus er víðsfjarri því að vera spámannlega vaxinn.

miðvikudagur, júní 14, 2006

Kyrjað með leiðsögn...

... sem ku vera hin rétta þýðing upphafsorða latneskrar messu: Kyrie Eleison, ef marka má hinn kunna svarfdælska málvísindamann Hjörleif Hjartarson. Og fer vel á því að hefja kórverk á þessari áminningu um að hlýða stjórnandanum.

Það var gaman í Mývatnssveit. Sálumessa Mozarts er magnað stöff sem gaman er að kyrja í 250 manna sönghóp, sérstaklega með töffara eins og Guðmund Óla við stjórnvölinn, mann sem skilur svo sannarlega hvað átt er við með Forte og Allegro.

Þar fyrir utan mátti njóta samvista við skemmtilegt fólk, sem og veðurblíðunnar og óvæntrar hlédrægni flugunnar, baða sig í heilnæmu brennisteinsvatni og hlusta á góða kóra.

Skemmtanaglaður finnskur kór vakti nokkra athygli fyrir að beila á síðustu stundu á Sálumessunni og sameiginlegri vinnu með íslensk lög, að þvi er virtist aðallega af því að verkefnin stönguðust á við næturlífið. En síðan mætti finnski kórinn með sitt prógramm á sunnudagstónleikana og var svona líka suddalega góður. Sex and Drugs and Rokk'n Kór!

Og svo náttúrulega Hamrahlíðarkórinn. Hann er mótaður í mynd stjórnanda síns: vissulega ekki allra, og dálítið keyrðu þau nú út í skurð í tilgerðinni, en samt: magnaður galdrakór mikillar galdrakonu.

Kórastefna Margrétar Bóasdóttur í Mývatnssveit er frábært fyrirbæri, stenst alveg samanburð við góða leiklistarhátíð eða jafnvel Skólann. Stefni þangað aftur að ári.

Og talandi um söng: Varríus hefur ekki enn orðið svo frægur að sjá umtalaða dans- og söngauglýsingu Orkuveitunnar, en finnst Páli Ásgeiri mælast vel um hana. Og vill af gefnu tilefni taka fram að hann kom hvergi nálægt gerð hennar.

þriðjudagur, júní 06, 2006

Go Ghana Go!

Ágæt hvítasunnuhelgi að baki. Skemmti mér reyndar ekki nema hæfilega á Þuríði og Kambsráninu í Þjóðleikhúsinu á föstudagskvöld. Afar áferðarfalleg sýning, leikmynd, búningar og lýsing fagmannleg og fyrsta flokks, en dálítið misgóður leikur og full flatneskjulegt handrit þó einstakar senur hafi verið vel skrifaðar. Vantaði svar við spurningunni: hver er aðalpersónan? Eða réttara sagt, það vantaði að svarið við þeirri spurningu væri: Sigurður Gotti, og þá hefðu verið forsendur til að skrifa mun áhugaverðara leikrit og klárt mál að Sigurgeiri hefði ekki orðið skotaskuld úr því.

Heilt yfir: snoturt, skammlaust, en athyglisvert? Ég veit það ekki...

Á laugardaginn bar svo hæst prýðileg grillveisla Hugleikara til heiðurs Magnúsi Grímssyni, Huldu og Guðrúnu frá Lundi. Og Varríus leystur út með gjöf fyrir nýlokna formannstíð.

Sunnudagurinn fór í tiltekt og mók, en mánudagurinn í skriftir og mók. Já og svo tók við stjórnmálaskrípóið. Gott að fá Finn Ingólfs í fjármálaráðuneytið, kemur hann ekki örugglega með peningana sína með sér?

Annars fellur sá farsi alveg í skuggann af helsta viðfangsefni vikunnar: Með hverjum á ég að halda á HM?

Hef hingað til alltaf haldið með Hollandi, en sé ekki ástæðu til þess núna. Langar ekki að fagna Ruud og Robben, en mun svosum brosa út í annað ef van Persie skorar.

Það eru Arsenalmenn á annarri hverri þúfu að þessu sinni. Og þó ótrúlegt megi virðast þá eru þeir ekki flestir í franska landsliðinu (Henry einn, og telst reyndar þónókkuð) heldur í því enska (Campbell, Cole, Walcott). En eigi er Varríus svo mikill bolur að halda með því skítaliði.

Svo eru tveir nallar hjá Svisslendingum, Spánverjum og Fílabeinsstrandarmönnum. Ekkert æsandi við þessi lið, nema kannski fílana og ekki fer maður að halda með erkihlandfötunni Didier Drogba.

Arsenalhlutfall verður sumsé ekki notað við val á uppáhaldsliði.

Þess í stað verður farin fóstbræðraleiðin svokallaða, haldið með liðum þeirra þjóða þar sem Varríus á bræður.

þannig að fyrsta kastið verður haldið með Ghana, til heiðurs Kenneth sem var skiptinemi á æskuheimili mínu fyrir margt löngu.

Og svo þegar þegar þeir hafa verið sendir heim verður tekið til við þa vanþakkláta verkefni að styðja Brasilíu, en þar í landi býr annar bróðir Varríusar, Renato að nafni, og tilheyrir þeim minnihluta þjóðarinnar sem hefur engan áhuga á knattspyrnu. Þannig að ég tek það skítverk að mér í þetta sinn. That's what brothers are for.

Að öðru leyti óskar Varríus lesendum sínum gleðilex Slayerdax.