mánudagur, janúar 24, 2011

Parísarmenning

París er óðum að verða sú heimsborg sem ég þekki mig best í. Ég rata þar að mestu án korts. Við hjónin vorum þar í síðustu viku til að láta lappa upp á hendurnar á mér, en helsti sérfræðingur í að gera við það sem stundum er kallað Víkingahendi er þar í borg. Hann vann verk sitt fljótt og vel og ég er ánægður með árangurinn.

En að sjálfsögðu var menning og listir á efnisskránni líka. Förum yfir það helsta.

Louvre
Það var fljótgert og auðvelt að komast inn, þvert á það sem maður óttaðist. Og eins og oft gerist á svona megasöfnum þá er erfitt að halda ferskri sýn. Gaman samt að sjá frk. Lísu í sinni eiginlegu dýrð (og ég hef aldrei haldið að hún væri stærri en hún er). Annars var Medúsufleki Géricaults kannski hápunkturinn, sem og hraðferð í gegnum fornleifahlutann (verður skoðaður nákvæmar næst). Já og Goya. Vermeer og Rembrandt voru utan þjónustusvæðis að þessu sinni. Rubens er drasl.

Patti Smith og Phillip Glass
Óvæntir bólfélagar, kaótíska pönkdrottningin og klassíski naumhyggjupáfinn. En áttu samleið hér í frábærri kvöldstund þar sem Patti flutti ljóð Allen Ginsberg og sín eigin við undirleik hr. Glass. Og þegar Lenny Kaye, hirðgítarleikari pönknornarinnar, mætti ásamt fleirum tókst samkoman á loft. Ég efast um að Pissing in a river hafi verið betur flutt en hér. Patti er í svakalegu formi raddlega. Lokalagið var hinn mergjaði sálmur People have the Power og það gladdi mig mjög að sjá Phillip Glass klappa með (reyndar ekki á offbítinu eins og Á að gera) og taka undir í kórusnum. Þangað til Atli Heimir mætir á Fræbbblatónleika og tekur undir í Í nótt verður hann ávallt sem því nemur minna svalur.

Frábært kvöld. Enginn stendur Patti Smith á sporði við að miðla ást sinni á skáldskap, og að blanda saman bítnikkl-ljóðalestri, minimalískri píanótónlist og pönki þannig að úr verði heildstæð snilld getur engin nema hún. Ef Patti Smith væri neðanjarðarjárnbrautarlestarstöð þá væri hún sú þar sem lestarnar úr ólíkustu hverfunum mætast.

Shakespeare & Co
Besta bókabúð í heimi er í París. Hún selur bara bækur á ensku og stendur á vinstribakkanum nokkurnvegin til móts við Notre Dame. Gamalt hús, troðfullt upp í rjáfur af bókum, nánast klisjulega líkt því hvernig bókabúðir eiga að líta út. Á efri hæðinni er lesstofa og bækurnar þar eru ekki til sölu. Þrátt fyrir kraðakið er bísna auðvelt að leita og gaman að gramsa, nýjar og notaðar bækur i bland. Minnsta kosti jafnmikilvægt að heimsækja Sjeikspír og félaga og Eiffelturninn og Sacre Coeur.

Comedy of Errors
Peter Brook hyggst setjast í helgan stein og kveðjusýning hans, Töfraflautan, ferðast nú um heiminn. Hún var t.d. ekki á heimavellinum, Bouffes Du Nord leikhúsinu í París, meðan við vorum þar. En við keyptum okkur miða á það sem í boði var í trausti þess að engu drasli væri hleypt þar inn fyrir dyr. Og urðum ekki fyrir vonbrigðum. Uppfærsla Dan Jemmett með fimm afbragðs leikurum í ca 12 hlutverkum þessa æskuverks Shakespeares var alveg drulluskemmtileg. Leikgleðin og krafturinn spiluðu fullkomlega með tækninni sem hópurinn bjó yfir í stórum skömmtum og skilaði þessum fráleita farsa betur en ég hef áður séð. Já, og svo svolgruðu þau bjór linnulaust allan tímann. Alveg yndislegt bara.

Requiem
Sálumessa Mozarts í hinni stórfenglegu kirkju Maríu Magdalenu. Vondur hljómburður, máttlaus kór, slappir sólistar og flatneskjuleg stjórn gerðu þetta að hálfgerðri raun, sem kuldinn í kirkjunni gerði ekkert til að bæta úr.

The Lost Symbol
Eitthvað verður maður að lesa í svona ferðum. Flugferðir og svona. Ekki samt lesa þessa skelfilegu bók Dans Brown. Hún er svo hlægilega léleg og leiðinleg að það er nánast snilld. Ég henti eintakinu mínu í ruslatunnuna í morgun. Hef betri verkefni fyrir bókahillurnar mínar og ekki vil ég neinum svo illt að gefa honum eintakið.

Room
Á heimleiðinni las ég svo þessa rómuðu og umtöluðu sögu Emmu Donaghue um konu í Josef Frizl-legri prísund, en þó einkum um fimm ára son hennar sem fæðist og elst upp í fangaklefanum og segir söguna. Engin stórfengleg snilld, en skrambi góð samt. Ekki síst sem rannsókn á tungumálinu og tengslum þess við heiminn. Ekki lesa hana í von um að læra um hvernig er að vera kynlífsþræll, en ef þig langar að vita hvernig heimurinn horfir við greindu barni sem vissi ekki að hann væri til fyrr en því er slengt út í hann á sjötta ári þá er þetta klárlega ágætis byrjun.

mánudagur, janúar 03, 2011

Meiri Spíri

Eitt má Ofviðrið eiga - það er búið að setja mig í Shakespearegírinn.

I
Við vorum að tala um sýningu Koršunovasar á Rómeó og Júlíu hér heima áðan og þá slógu mig líkindin á henni og Ofviðrinu. Fjarlægur og háðskur leikstíllinn, sem reyndar var talsvert betur útfærður hjá Litháunum, enda búnir að æfa og sýna árum saman. Samt eins og þetta væri alltsaman hálfgert grín og persónurnar vissu það vel. Og sérdeilis pirrandi þegar afstaðan er svoleiðis, en leikritið nánast óstytt. Þrír og hálfur tími er of langur tími til að láta segja sér að Shakespeare sé kjánalegur, þó menn séu flinkir að hnoða deig (þetta gerðist alltsvo í bakaríi).

Leikmyndin var svakalega flott í R&J líka, en þegar maður skoðar hana í huganum, sama formið og í Ofviðrinu.

Íburðarmikill bakveggur með ótal smáatriðum og fjölmörgum smágerðum leiðum inn og út. Göngubrú uppi á veggum. Allt miðjusett og symmetrískt. Og fyrir miðju stór brunnur/pottur sem persónurnar áttu leið ofaní og í kringum allan tímann.

Merkilegt.

II
Jón Viðar skrifaði um í DV í dag. Dettur væntanlega inn á netið þeirra á morgun. Hann er lítt hrifinn svona heilt yfir, en tekur reyndar fram að hann sé efins um leikritið og telur það þjást af byggingagöllum. Ég er ósammála, og þó svo væri bætir skáldlegur krafturinn og ferðalagið sem aðalpersónurnar fara í algerlega fyrir þá. Þegar ég byrjaði að grúska í Shakespeare þá þótti mér Lér vera besta verkið. Mér finnst það svosem ekki lengur, en stórbrotið engu að síður.

Og Jón er fremstur í flokki íslenskra leikhúsumfjallara nú um stundir. Fær nóg pláss í DV og skrifar frábærar greiningar sem engu skiptir hvort maður er sammála eða ekki - þekkingin og innsæið sér um það. Og aldrei efast maður (eins og stundum gerðist þegar hann var í sjónvarpinu um árið) um ást hans á leikhúsinu og trú á að það geti verið betra en það er.

III
Ein af bókunum sem ég fjallaði um á Rás 2 í desember var Ripley's Believe it or not! í henni var meðal annars sagt frá píanóleikara einum sem ánafnaði vísindunum jarðneskum leifum sinum, að frátaldri höfuðkúpunni. Hún átti að hreinsast og pússast og afhendast The Royal Shakespeare Companytil að brúkast sem leikmunur í grafarasenunni í Hamlet. Þetta var gert, en einhver ár liðu áður en nokkur danaprins treysti sér í að nota skelina. Það var ekki fyrr en David Tennant brá sér í hlutverkið sem píanistinn komst á svið. Um daginn komst ég svo að því að BBC gerði seinna sjónvarpsútgáfu af uppfærslunni sem var rómuð mjög, og er aðgengileg á Youtube.

Fyrsti hlutinn hér.

Og væntanlega þykir einhverjum fengur í að vita að Tennant þessi er ekki síst þekktur fyrir að hafa um tíma leikið titilhlutverkið í Sci-Fi-kult-sjónvarpsseríunni Doctor Who. Og Kládíus er leikinn af Patrick nokkrum Stewart sem er einnig frægur í Sæfæheiminum fyrir að hafa verið Captain Picard í Star Trek.

laugardagur, janúar 01, 2011

Ofviðrið í Borgó

Af hverju eru menn alltaf að leika Ofviðrið?

Ofviðrið er það leikrit Shakespeares sem mér finnst minnst til koma í hlutfalli við status þess. Það er talað um það í sömu andrá og Hamlet og Jónsmessunæturdraumur og Hinrik IV. Hvað er það?

Sem leikrit er það talsvert afleitt, er það ekki? Klunnalegt plott, ferkantaðir karakterar sem ekkert breytast eða þróast. Magnaður skáldskapur á köflum, en er svoleiðis nóg fyrir leikhús nútímans? Er rómantíska hugmyndin um að hér séum við að horfa á kveðjuorð stórskáldsins til leikhússins kannski að villa okkur sýn? Ég fékk svolítið þá tilfinningu af stórkostlega vel útfærðri leikmyndinni í Borgarleikhúsinu og vísvitandi klunnalegum leikstílnum í sýningunni.

Hvar er dramað í Ofviðrinu? Prosperó heldur öllu í hendi sér. Gott hjá honum. Hann ákveður að refsa, ákveður svo að fyrirgefa. Eru áform hans einhverntíman í hættu? Er hægt að efast um göfgi hans?

Hverskonar hlutverk eru þetta? Svona í samanburði við önnur í þríleiknum sem gjarnan er horft á saman, lokaverk Shakespeares, Ofviðrið, Cymbeline og Vetrarævintýri. Myndi ekki Leontes freista meira en Prosperó, Imogen þykja safaríkari en Miranda? Pálína er augljóslega meira djúsí sem rödd skynsemi og siðferðis en Gonsaló. Og er Autolycus ekki svalari en Kalíban?

Vetrarævintýri er með mínum augum séð augljóslega betra leikrit og safaríkara verkefni en hið rómaða Ofviðri. Ofviðrið virkar vitsmunalegra, skematískara - bókstaflega séð verra leikrit.

En Kalíban er samt áhugaverðari en Autolycus. Af hverju?

Af því að á túlkun hans hangir túlkun leikritsins. Kalíban - Prosperó - Aríel. Þarna er kjarninn.

Hvað er okkur sagt um Kalíban? Að hann sé skrímsli, að hann sé á valdi Prosperós, að hann hafi ráðið eyjunni áður en Prosperó kom, að hann hafi ekki kunnað mál Prosperós, að hann hafi reynt að nauðga Míröndu, að hann hafi verið hnepptur í þrældóm, að hann líti út eins og fiskur í augum fullra fávita.

Er einhver sérstök ástæða til að taka þetta lið á orðinu? Er ekki allavega ljóst að ef leikstjóri tekur þau á orðinu þá er það ÁKVÖRÐUN, en ekki jafn sjálfsagður hlutur og að Hamlet sé yngri en Geirþrúður móðir hans.

Hvað er okkur sagt um Ariel? Einu persónuna sem ögrar Prosperó en hann hefur engu að síður á valdi sínu. Hvernig? Hvert er vald Aríels og hvað takmarkar það og hvernig?

Með því að leiða þessar spurningar hjá sér verður sýning Borgarleikhússins að innantómri (en oft áhrifaríkri) skrautsýningu. Og hún leiðir hana hjá sér með klisjutúlkun sinni á Kalíban og Aríel - sem virka eins og enginn hafi hugleitt stöðu þeirra í heimi leikritsins.

En áhrifarík skrautsýning er hún. Ramminn er glæsilegur, leikhúsið er alveg sniðug metafóra fyrir verkið, Prosperó er þrátt fyrir allt sá sem stýrir því sem gerist (svona að mestu leyti) En útfærslan er klunnaleg og leikstíllinn (sem ég vona að stafi af hugmyndinni en sé ekki það besta sem fólk getur gert) er eintóna brandari.

Hvað á það að þýða hjá Ingvari að láta eins og kenjóttur krakki allan tímann? Hversvegna eru ítölsku hirðmennirnir látnir vera svona kjánalegir? Trúa elskendurnir ungu ekki á ást sína? Finnst þeim kannski bara fyndið að láta svona?

Af hverju ekki að taka leikritið og aðstæður persónanna alvarlega?

Og ef það er of leiðinlegt, af hverju ekki þá að leika eitthvað annað leikrit? Eða þá allavega að sannfæra mig áhorfandann um að það sem verið sé að gera sé gert "af heilum hug og góðum" eins og einn leiklistargagnrýnandi orðaði það í öðru shakespeareleikriti (look it up).

það tókst ekki.

Ég sá sýningu þar sem haugur af hæfileikaríku fólki sagði mér að þeir hefðu ekki minnsta áhuga á að miðla því sem höfundurinn hafði að segja. Og það með leikriti sem hefur það eitt sér til ágætis að vera þrungið merkingu á kostnað dramatískrar framvindu. Til hamingju með það.

Ekki það, trúðarnir voru svolítið fyndnir og í lokin var alveg skýrt að leikarinn Ingvar hætti að leika og fór með lokaorðin í eigin persónu (nema hann sé bara svona góður leikari) og það var áhrifaríkasta móment sýningarinnar.

Restin var hinsvegar því miður óskýr, tilgerðarleg og bar þess engin merki að höfundar sýningarinnar hefðu hinn minnsta áhuga á að fanga merkingu leikritsins, miðla henni til okkar og sannfæra okkur um að skilningur þeirra væri réttur.

Sem er verkefnið sem fyrir þá er sett.

Og eftir sit ég - hafandi aldrei séð sýningu á Ofviðrinu sem sannfærir mig um að það sé spennandi, áhugavert, leikrit. En gúrúarnir fullyrða að þetta sé eitt af höfuðverkum manns sem ég veit að er einn af meisturum mannsandans,

Come on!

Þetta helst á árinu

Við Hulda settum upp Rokk hjá Hugleik. Völdumst áhugaleiksýning ársins hjá Þjóðleikhúsinu.

Hálfvitarnir gerðu sína þriðju plötu og fylgdu eftir með spileríi sem aldrei fyrr.

Leikgerði Svartfugl með Ágústa fyrir Halaleikhópinn.

Fór í leik- og tónleikaferð til Færeyja.

Gagnrýndi leiksýningar á NEATA-leiklistarhátíðinni á Akureyri.

Bauð mig fram til stjórnlagaþings.

Prófaði að vera bókmenntagagnrýnandi í útvarpi.

Tók þátt í jólakabarett í nýja Gaflaraleikhúsinu.

Varð afi.

Hreint ekki viðburðasnauðasta ár í mínu lífi.


Platan: Apple Venus með XTC
Bókin: Blóðhófnir eftir Gerði Kristnýju
Myndin: Låt den rätte komma in
Tónleikarnir: Lokatónleikar Hálfvitanna á Rósenberg, Skálmöld á Andkristnihátíð

Viðbót: Var að muna eftir F***ing awesome tónleikum rússneska Basilkórsins í Langholtskirkju.

Leiksýningin: Rokk hjá Hugleik, Havgird á NEATAhátíðinni, Munaðarlaus í Norræna húsinu.