þriðjudagur, júlí 20, 2010

Þjóðargersemi

– gnýstuðluð lofgjörð


Stiklur
Smitandi áhuginn á öllu sem fyrir augu ber, næmnin til að lokka fram það sem ekki blasir við og fagmennskan við að miðla því til okkar hinna. Næstur Jónasi Hallgrímssyni kemur Ómar Ragnarsson í því að opna augu okkar fyrir fegurð og leyndardómum landsins. Það munar auðvitað um flugvélina og sjónvarpið, og Ómar er með próf á bæði.

Þessvegna er Ómar Ragnarsson þjóðargersemi


Stuð
Holdgerfingur stuðsins. Hamfarir Ómars sem skemmtikrafts eru augljósasta birtingarmyndin, en það er augljóst stuð í öllu sem hann gerir. Eða kannski: Ómar blæs stuði í allt sem hann fæst við. Og stundum, undanfarið: Ómar stuðar. Vinnusemin virðist brjálæðisleg og á auðvitað ekki minnstan þátt í hvað við elskum hann heitt – hann er hæsta og fegursta stig hins sívinnandi íslendings.

Þessvegna er Ómar Ragnarsson þjóðargersemi


Stökur
Ómar er ekki okkar mesta skáld – en afköstin og gæðin í söngtextagerðinni vekja undrun og aðdáun allra sem fá innsýn í þessa að mestu ósýnilegu hlið mannsins. Hann er ekki einu sinni okkar besti hagyrðingur – en enginn hefur gert eins mikið og hann undanfarna áratugi til að vekja athygli á þeirri nautn sem felst í vel gerðri vísu. Hagyrðingamótin, sjónvarpsþættirnir, bakföllin; Ómar gerir þennan einangraða heim aðgengilegan öllum. Ef íslensk tunga á sér framhaldslíf þá er það vegna gleðinnar sem skapandi notkun hennar kveikir. Ein smitandi hlátursroka yfir hnyttinni stöku jafnast á við hundrað önugar málfarsumvandanir.

Þessvegna er Ómar Ragnarsson þjóðargersemi


Staðfesta
Við erum ekki að tala um ídeólógískan andstæðing virkjana. Við erum að tala um tækni- og vélafríkið með opnu augun sem sá hvað stóð til og stóð upp til að láta vita. Barátta Ómars hefur einkennst af þessu, sannfæringarkrafturinn í málflutningi hans er öryggi þess sem skilur andstæðing sinn en hefur komist að annarri niðurstöðu. Staðfestan byggir á vissu þess sem hefur skoðað málið frá öllum hliðum. Mótmælafundurinn á Austurvelli 2006 náði kannski ekki tilgangi sínum en gerði almenningi á Íslandi ljóst að það væri hægt að sameinast um málstað og skylda að láta rödd sína heyrast. Lærdómar sem stuttu síðar komu í góðar þarfir.

Þessvegna er Ómar Ragnarsson þjóðargersemi

miðvikudagur, júlí 07, 2010

Þýs-Spánn

Vona að spánverjar vinni - til að við tryggjum að nýtt lið verði heimsmeistari.

Þjóðverjar eru samt svo svalir núna að það verða engin vonbrigði þó þeir vinni.

Og þeir eiga flottasta þjóðsönginn. Svakalega flott lag hjá gamla Jósef. Á eftir þeim koma í þessari röð: Rússland - Bandaríkin - Ísland - Suður-afríka (alltsvo N'kosi sikelele-parturinn)