þriðjudagur, júlí 20, 2010

Þjóðargersemi

– gnýstuðluð lofgjörð


Stiklur
Smitandi áhuginn á öllu sem fyrir augu ber, næmnin til að lokka fram það sem ekki blasir við og fagmennskan við að miðla því til okkar hinna. Næstur Jónasi Hallgrímssyni kemur Ómar Ragnarsson í því að opna augu okkar fyrir fegurð og leyndardómum landsins. Það munar auðvitað um flugvélina og sjónvarpið, og Ómar er með próf á bæði.

Þessvegna er Ómar Ragnarsson þjóðargersemi


Stuð
Holdgerfingur stuðsins. Hamfarir Ómars sem skemmtikrafts eru augljósasta birtingarmyndin, en það er augljóst stuð í öllu sem hann gerir. Eða kannski: Ómar blæs stuði í allt sem hann fæst við. Og stundum, undanfarið: Ómar stuðar. Vinnusemin virðist brjálæðisleg og á auðvitað ekki minnstan þátt í hvað við elskum hann heitt – hann er hæsta og fegursta stig hins sívinnandi íslendings.

Þessvegna er Ómar Ragnarsson þjóðargersemi


Stökur
Ómar er ekki okkar mesta skáld – en afköstin og gæðin í söngtextagerðinni vekja undrun og aðdáun allra sem fá innsýn í þessa að mestu ósýnilegu hlið mannsins. Hann er ekki einu sinni okkar besti hagyrðingur – en enginn hefur gert eins mikið og hann undanfarna áratugi til að vekja athygli á þeirri nautn sem felst í vel gerðri vísu. Hagyrðingamótin, sjónvarpsþættirnir, bakföllin; Ómar gerir þennan einangraða heim aðgengilegan öllum. Ef íslensk tunga á sér framhaldslíf þá er það vegna gleðinnar sem skapandi notkun hennar kveikir. Ein smitandi hlátursroka yfir hnyttinni stöku jafnast á við hundrað önugar málfarsumvandanir.

Þessvegna er Ómar Ragnarsson þjóðargersemi


Staðfesta
Við erum ekki að tala um ídeólógískan andstæðing virkjana. Við erum að tala um tækni- og vélafríkið með opnu augun sem sá hvað stóð til og stóð upp til að láta vita. Barátta Ómars hefur einkennst af þessu, sannfæringarkrafturinn í málflutningi hans er öryggi þess sem skilur andstæðing sinn en hefur komist að annarri niðurstöðu. Staðfestan byggir á vissu þess sem hefur skoðað málið frá öllum hliðum. Mótmælafundurinn á Austurvelli 2006 náði kannski ekki tilgangi sínum en gerði almenningi á Íslandi ljóst að það væri hægt að sameinast um málstað og skylda að láta rödd sína heyrast. Lærdómar sem stuttu síðar komu í góðar þarfir.

Þessvegna er Ómar Ragnarsson þjóðargersemi

3 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Amen. Eins og fyrr tekst þér að meitla í orð því sem við hin náum bara að hugsa í einhverri bendu. Frábær pistill.

4:09 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

kv.
Sævar

4:09 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Vel mælt Toggi
kv
das

9:09 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim