sunnudagur, mars 28, 2010

Sjálfhverfa.is

Kominn heim úr aldeilis velheppnaðri vinnuferð Ljótu hálfvitanna þar sem við lögðum grunninn að næstu plötu sem verður klárlega mín uppáhaldsplata með þessari hljómsveit.

Þriðja plata hljómsveitar er áhugaverð stúdía. Dressed to kill er t.d vanmetin Kissplata, A hard day's night er afar solid og klár framför hjá Bítlunum, Let there be rock hjá AC/DC er ekkert minna en stórbrotin og hvað er svosem hægt að segja um The number of the beast?

Af þessu mega menn svo sem draga þær ályktanir sem þeir vilja og byggja væntingar í samræmi við það. Áhugaverðar þriðjuplötur óskast í kommentin.

Og svo kemur maður heim og á netið, og fyrir puttaglöp fer maður fyrst á Pressuna og sér þessa ótrúlegu fyrirsögn: Breskur veðbanki býður upp á veðmál um hvaða eldfjall gýs næst: Katla er ekki á listanum.

Mórallinn: Naflinn á okkur er ekki eins áhugaverður og við héldum.

þriðjudagur, mars 23, 2010

Gott fólk

Eitt það besta við hrunið er tækifærið til að endurhugsa afstöðu sína til allskonar hluta. Við erum reyndar ekkert sérstaklega góð í þessu. Ótrúlega fáir sem hafa gripið þetta tækifæri.

Hér eru samt fimm pólítíkusar/álitsgjafar sem verðskulda virðingu okkar fyrir að stilla ekki vopnin sín efir flokkshagsmunum eða fyrri skrifum/gerðum.

Skólabróðir minn, sjálfstæðisdrengurinn Ágúst Borgþór Sverrisson sækir í sannindi siðfræðinnar til að greina glóruleysi hrunsins.

Ármann Jakobsson er byrjaður að blogga aftur og skrifar að mínu viti frábærar greinar um stöðu mála.

Guðmundur Steingrímsson er vissulega genginn í framsóknarflokkinn, en talar af skynsemi og virðist hafa einlægan vilja til að sætta skoðanir - eða í það minnsta færa alvöru rök fyrir sínum.

Bjarni Harðarson er samkvæmur sjálfum sér. Eftir að hafa skrifað af krafti gegn popúlískri afstöðu flokksformanns síns í Icesavemálinu gengur hann til liðs við nýjan flokk.

Og svo má ekki gleyma Þráni - sem er klárlega á eigin báti og augljóslega ekki dauður úr öllum æðum, hvað sem hinir skrítnu fyrrum flokksfélagar hans halda fram.

mánudagur, mars 22, 2010

Lyst

Allir skynsamlegir topp-tíu listar yfir íslenska bókmenntir hljóta að innihalda Matarást, hina stórbrotnu alfræðiorðabók fæðunnar sem Nanna Rögnvalds hefur gefið okkur. Ég forðast þessa bók þegar ég elda, því hún fangar mann með öllum sínum dásamlega fróðleik og maður eins og ég er vís með að brenna laukinn á pönnunni meðan hann sökkvir sér í fróðleik um Okra, Sur-ströming, eða hina eina réttu aðferð við að steikja laufabrauð.

Þetta er stórbrotin bók. Lesið t.d. færsluna um Spínat. Og fyrir hina óklýgjugjörnu: flettið upp Lúðusúpu.

Og þið sem eigið hana ekki: WTF!?

Og Þið sem eruð að spá í hverjar hinar níu ómissandi bækur eru: Comment is free.

laugardagur, mars 20, 2010

Thanks for keeping the rabbits while I'm away

Það var eins og við mannin mælt. Um leið og Pressupenninn Bubbi Morthens sneri sér að einhverju sem hann hefur alvöru ástríðu fyrir þá skrifaði hann þennan líka fína pistil um eitt af sínum helstu hugðarefnum. Sakleysi Bónusfeðga kveikti ekkert í alvöru í Bubba, en íslenskir popptextar standa hjarta hans nær sem fyrr.

Ég er svolítið á Bubba bandi í þessu (í bandinu hans Bubba?). Eða öllu heldur: mér finnst að íslensk hljómsveit eigi að íhuga vandlega og taka ígrundaða ákvörðun áður en hún ákveður að syngja á ensku. Íslenskan ætti að vera, fyrirgefið orðbragðið, Default.

Í raun er það ekkert svo skrítið með hljómsveitinar sem komu fram á Íslensku tónlistarverðlaununum sem er kveikja greinarinnar. Hjaltalín grunar mig hafa alltaf haft útrásarmetnað. Mögulega gildir það um Diktu líka, ég veit það ekki.

Af átta tilnefndum poppplötum er aðeins ein sungin á íslensku. Aðeins þrjár hljómsveitanna heita íslensku nafni. Eðlilega endurspegla svona verðlaun það sem skarar framúr og því ekki óeðlilegt að þar séu hljómsveitir með alþjóðametnað í meirihluta. En samt. Það er asnalegt hvað stór hluti af poppinu er á ensku þessa dagana. Og það sem verra er: mig grunar að stór partur af þeim stóra parti sé umhugsunarlaust sungin á ensku. Það finnst mér ekki gott.

Það er samt slatti á íslensku. Við Bubbi, Megas, Hjálmar, Múgsefjun, Baggalútur, Morðingjarnir, Páll Óskar, Dr. Gunni, Ingó, Á móti sól, Sálin og allt ballpoppið. Sumir bara býsna metnaðarfullir. Ég veit að vér Hálfvitar erum það.

En mikið væri nú gaman að heyra stóru kanónurnar grípa til íslenskunnar meira. Þó ekki væri nema til að ögra þeim minni spámönnum sem syngja á ensku "afþvíbara".

miðvikudagur, mars 17, 2010

The 3000

Fréttir af rannsóknarskýrslunni margboðuðu gerast æ skrítnari. Nú er hún í prentun undir hervernd í skjóli myrkurs. Öll níu bindin. Allar tvöþúsund blaðsíðurnar. Öll þrjúþúsund eintökin.

Þrjúþúsund!?

Af hverju þrjú þúsund? Hvernig verður þeim dreift? Verða einhverjum send eintök? Hverjum þá? Hvað fara mörg eintök í "almenna" dreifingu? Verða þau til sölu? Eða gefin? Hvar? Verður prentað meira ef/þegar þetta upplag klárast?

Hvers vegna eru PDF-skrárnar ekki bara settar til niðurhals á Netið strax og hún er klár til prentunar?

Og hvers vegna er ekki búið að gera svörin við þessum spurningum opinber? Það hefði í það minnsta átt að gera í nóvember. (Geri ráð fyrir að svörin hljóti að hafa legið fyrir þá).

Ég er ekkert sérlega trúaður á samsæriskenningar um þessa skýrslu og útgáfu hennar. Finnst samskipti nefndarmanna eiga meira skylt við klaufaskap en skúrkshátt. Og þau hafa gefið allskyns spunarokkum tækifæri til að stunda væntingastjórnun í eigin þágu og síns fólks.

Sjálfur hef ég engar væntingar til þessarar skýrslu. Nema þá sjálfsögðu kröfu að hún verði fullkomin. Staðfesti það sem ég held, sé það rétt og sannfæri mig um hið gagnstæða ef ég hef haft rangt fyrir mér.

sunnudagur, mars 14, 2010

Góðir hlutir

Á föstudagskvöldið spiluðum við á Þjóðlagahátíðinni á Rósenberg. Óli Þórðar og félagar í South river band eiga alla mína virðingu fyrir þetta framtak og hina óeigingjörnu og stórbrotnu leið sem þeir fóru að markmiði sínu. Ef hægt væri að klóna þessa menn, eða kannski bara fela þeim stjórn landsins þá værum við betur sett. En það væri vissulega leiðinlegra hjá þeim.

Til hamingju kæru Suðurárbræður!

Í gærkvöldi voru svo tónlistarverðlaunin afhent snoturlega og án óhappa í Íslensku óperunni. Það var skemmtilegt. Að öðrum ólöstuðum þá á stóra heiðurinn af því trommuleikari einn. Hugmyndaríkur dugnaðarforkur, meistarakokkur og bara almennur snillingur.

Til hamingju Pétur!

Og svona í lokin: Ég er ekki hættur að biblíublogga - bara svolítið að týna mér í allskyns verkefnum. Þangað til greinargerð mín af seinni bók Samúels (sem er í smíðum, honestly) verður birt, þá eru hér tveir stórbrotnir guðleysingjar að gera stykkin sín:

Hér afbyggir heimsins mælskasta fyllibytta, Christopher Hitchens, boðorðin tíu. Og hér fer Stephen Fry yfir syndir kaþólsku kirkjunnar á sinn einstaka hátt.

laugardagur, mars 06, 2010

Enginn veit til angurs fyrr en reynir

Það var gaman að vera í Aratungu í gærkveldi. þar sýndi Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna Undir Hamrinum eftir Hugleikarann Hildi Þórðardóttur fyrir pakkfullu húsi af fólki sem kunni svo sannarlega að meta það sem fyrir þá var boðið.

Enda engin ástæða til annars. Þessu Póst-módern melódrama Hildar leið vel í klassísku vaðmáls-baðstofu-umgjörðinni sem Gunnar Björn leikstjóri og samverkamenn hans höfðu búið því. Leikendur höfðu stílinn fullkomlega á valdi sínu og grótesk sveitalífsmyndin varð ljóslifandi. Hæfilega agaður kraftur einkenndi framgang hópsins, og svo var hlaupið útundan sér á strategískum augnablikum sem enn jók á gleðina.

Afbragðs sýning - takk fyrir mig.

Hamarinn er eitt víðsýndasta íslenska leikrit síðari ára. Reykjavík - Viljandi - Mónakó - Lipetsk - Schelyekhovo - Aratunga. Hvarvetna tekið með kostum og kynjum. Enda framúrskarandi dæmi um frjóa og frumlega (og svolítið klikkaða) úrvinnslu á íslenskum menningararfi.

Hér má sjá tóndæmi úr sýningu Hugleiks, tekið upp í leikhúsi Grace Prinsessu í Furstadæminu Mónakó.

föstudagur, mars 05, 2010

Við sem heima sitjum

Ég ætla ekki að kjósa á morgun. Til þess er merking niðurstöðunnar of óljós, of mikið af spunarokkum tilbúinn að lesa sér hentuga merkingu í tölurnar. Ég neita að taka þátt í því. Ég veit reyndar að einhver mun reyna að túlka fjölda þeirra sem heima sátu sem skilaboð sínum málstað til framdráttar, en ég get ekkert gert að því. Það er enginn fullkominn felustaður í lýðræðinu.

Umræðan um Icesave er það dapurlegasta sem sést hefur. Hún heldur áfram og áfram, en enn hefur ekki tekist að afgreiða út af borðinu nokkurt einasta ágreiningsmál sem að þeim snúa. Það er enn verið að rífast um það sama og deilt var um í upphafi.

Og ennþá nota allir sem taka þátt í umræðunni - pólitíkusar, álitsgjafar, bloggarar og athugasemdasmiðir - orð eins og "auðvitað" um hvaðeina sem deilt er um. Ennþá leyfa allir sér að segja "við" og meina Íslendinga, eins og við séum á einu máli - sammála síðasta ræðumanni.

En við erum ekki sammála um neitt. Við erum ekki sammála um forsendur, ekki sammála um strategíu, ekki sammála um markmið. Ekki sammála um staðreyndir málsins.

Og að sjálfsögðu erum við ekki sammála um merkingu atkvæðagreiðslunnar. En ótrúlega margir vita hvað ÞEIR meina með atkvæði sínu - og lifa í barnslegu trausti þess að sú merking komist til skila.

Ekki ég - ég ætla að eyða deginum í Hálfvitagang - og ykkur er velkomið að leggja hvaða merkingu sem er í það.