Það var eins og við mannin mælt. Um leið og Pressupenninn Bubbi Morthens sneri sér að einhverju sem hann hefur alvöru ástríðu fyrir þá skrifaði hann
þennan líka fína pistil um eitt af sínum helstu hugðarefnum. Sakleysi Bónusfeðga kveikti ekkert í alvöru í Bubba, en íslenskir popptextar standa hjarta hans nær sem fyrr.
Ég er svolítið á Bubba bandi í þessu (í bandinu hans Bubba?). Eða öllu heldur: mér finnst að íslensk hljómsveit eigi að íhuga vandlega og taka ígrundaða ákvörðun áður en hún ákveður að syngja á ensku. Íslenskan ætti að vera, fyrirgefið orðbragðið, Default.
Í raun er það ekkert svo skrítið með hljómsveitinar sem komu fram á Íslensku tónlistarverðlaununum sem er kveikja greinarinnar. Hjaltalín grunar mig hafa alltaf haft útrásarmetnað. Mögulega gildir það um Diktu líka, ég veit það ekki.
Af átta tilnefndum poppplötum er aðeins ein sungin á íslensku. Aðeins þrjár hljómsveitanna heita íslensku nafni. Eðlilega endurspegla svona verðlaun það sem skarar framúr og því ekki óeðlilegt að þar séu hljómsveitir með alþjóðametnað í meirihluta. En samt. Það er asnalegt hvað stór hluti af poppinu er á ensku þessa dagana. Og það sem verra er: mig grunar að stór partur af þeim stóra parti sé
umhugsunarlaust sungin á ensku. Það finnst mér ekki gott.
Það er samt slatti á íslensku. Við Bubbi, Megas, Hjálmar, Múgsefjun, Baggalútur, Morðingjarnir, Páll Óskar, Dr. Gunni, Ingó, Á móti sól, Sálin og allt ballpoppið. Sumir bara býsna metnaðarfullir. Ég veit að vér Hálfvitar erum það.
En mikið væri nú gaman að heyra stóru kanónurnar grípa til íslenskunnar meira. Þó ekki væri nema til að ögra þeim minni spámönnum sem syngja á ensku "afþvíbara".