sunnudagur, nóvember 29, 2009

Hálfvit

Jæjah, ansi hreint massív helgi á Rósenberg lokið. Fullt af fólki og gríðarlega gaman að spila. Og svo er bara að undirbúa næstu verkefni. Það er annarsvegar þátttaka í plöggi fyrir Dag rauða nefsins þann 4. desember (föstud.) og svo að spila lagið góða í fjáröflunarútsendingu þá um kvöldið.

Og svo fjölskyldutónleikar í Salnum í Kópavogi á sunnudaginn kl. 15. Okkur hefur lengi langað að halda tónleika þar sem barnungir áhangandur geta mætt (þeir eru víst fjölmargir). Svo nú er tækifærið. Miðasala hér.

Annars var okkar hálfvita getið með einu orði í Fréttablaðinu um helgina. þar var "visually trained" fólk að fara yfir plötuumslög árins og segja kost og löst. Plötunnar okkar var þar getið með einu orði: Viðbjóður.

Við erum líklega sammála þessu, nema okkur þykir viðbjóður skemmtilegur. Allavega sumur.

laugardagur, nóvember 21, 2009

Hættessu væli

Ljótu hálfvitarnir blanda sér í þjóðmálaumræðuna með nýju lagi sem samið er að beiðni UNICEF á Íslandi. Þar verður Dagur rauða nefsins haldinn hátíðlegur 4. des nk. með tilheyrandi söfnunarátaki í þágu okkar minnstu bræðra.

Lagið heitir Hættessu væli og fjallar um mann sem glímir við íslenskar hvunndagsraunir og staðgóð hálfvitaráð við þeim.

Forsöngvarar eru Oddur Bjarni Þorkelsson og spútnikfrontmaðurinn Eggert Hilmarsson sem kemur sterkur inn sem hinn þjakaði meðalmaður.

Sækið lagið hingað og njótið. Já og takið vel undir ákall UNICEF 4. des.

Svo verðum við á Rósenberg um næstu helgi og í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 6. des kl. 15. Tónleikar fyrir yngri aðdáendur og fjölskyldur þeirra.

fimmtudagur, nóvember 12, 2009

Smælki úr hvunndagnum og smá um réttlæti

Það gerist margt þegar maður bloggar ekki. (Það er eitthvað bogið við hugsunina í þessari setningu, en hva.)

Hálfvitar spiluðu tvenna tónleika í slagtogi með Hvanndalsbræðrum um síðustu helgi. Á NASA á föstudagskvöld og svo ógurlegan konsert í Miðgarði í Skagafirði á lau. Skála og syngja Skagfirðingar? Ójá.

Á föstudagskvöldinu spiluðum við svo hinn epíska drykkjuslagara Stjána hjá Loga í beinni.

Á þriðjudaginn hlýddi ég svo á Ármann minn og hana Söru Blandon spila fullt af óvæntum lögum - og það aldeilis prýðilega - á Rósenberg undir nafninu A band on stage.

Núna æfum við nýtt lag í erg og gríð og tökum það upp eftir helgi. Þetta er tækifærissöngur, en engu verður ljóstrað upp um tækifærið fyrr en við ... eh, rétta tækifærið.

Og á morgun verður svo brunað norður á haustþing Bandalags leikfélaga.

Fyrir þá sem fljúga innanlands á næstunni og lesa SKÝ í leiðindum sínum: Í viðtali við Hálfvitana í því ágæta blaði stendur að ég sé kallaður Goggi. Það er ekki rétt. Margt annað í viðtalinu er hins vegar sannleikanum samkvæmt. Ekki allt, en góður slatti.

Hæstaréttarlögmenn tveir skrifa þykkjuþung blogg yfir því að pupullinn sé ósáttur við dóm Hæstaréttar um Bjarna-ármannssonarhygli stjórnar Glitnis. Hér og hér, ef einhver nennir.

Það má vel vera að dómurinn sé "réttur". Kannski svolítið arrogant að segja að það sé ekki hægt að hugsa sér að hann væri á hinn veginn, þar sem héraðsdómur var einmitt á hinn veginn. Og það getur vel verið að einhverjir leikmenn hafi tekið full stórt upp í sig um heimsku og óheiðarleika hæstaréttar. Annað eins hefur nú verið sagt undanfarið.

En um óréttlætið leikur enginn vafi. Og flestir sem hafa tjáð sig um dóminn af skynsamlegu viti hafa tekið fram að ef hann sé "réttur" þá sé það óréttlæti lögfest, og það sé áhyggjuefni.

Því miður grunar mig að á þessu skeri steyti mikið af málatilbúnaði sem verður til næstu misserin yfir hrunvöldum stórum og smáum. Og það munu gráta allir góðir menn. Og þeir Brynjar og Jón munu væntanlega sussa á okkur og segja okkur að við munum skilja þetta þegar við verðum stór.

mánudagur, nóvember 02, 2009

Útgangspunktur

Það var í minni löngu bloggpásu sem ég skilgreindi minn eigin útgangspunkt um réttlátt uppgjör hrunsins.

Uppgjörið er því aðeins réttlátt ef helstu gerendur standa ekki uppi sem stóreignamenn að því loknu. Þetta á við um viðskiptalega hlið þess. Hinir pólitísku sökudólkagar þurfa öðruvísi meðferð.

Þar sem ég er enn þessarar skoðunar þá þarf að halda athyglinni á máli Haga. Ekki sofna bara af því að 40/60 skiptingin milli Kaupþings og Bónusfólksins er ekki orðinn hlutur og 50 milljarða afskriftir óafgreiddar. Og alls ekki láta flokkspólitískar línur stýra afstöðunni til þessa.

Það þarf að halda áfram hávaðanum til að tryggja að þetta fari ekki svona. Jón Ásgeir, Björgólfarnir, Bakkabræður og slatti af minni spámönnum verður að tapa veldum sínum.

Annað er óréttlátt.

Einleikir

Heldur myndi ég mæla með að fólk kíkti á einleikjasýningu Hugleiks að Eyjarslóð 9 annað kvöld (mánudag) kl. 20. þar verða nokkrar af kanónuleikkonum félagsins í essinu sínu, ef marka má frumsýninguna í kvöld. Svo verður kaffi og meððí á boðstólum.