fimmtudagur, nóvember 12, 2009

Smælki úr hvunndagnum og smá um réttlæti

Það gerist margt þegar maður bloggar ekki. (Það er eitthvað bogið við hugsunina í þessari setningu, en hva.)

Hálfvitar spiluðu tvenna tónleika í slagtogi með Hvanndalsbræðrum um síðustu helgi. Á NASA á föstudagskvöld og svo ógurlegan konsert í Miðgarði í Skagafirði á lau. Skála og syngja Skagfirðingar? Ójá.

Á föstudagskvöldinu spiluðum við svo hinn epíska drykkjuslagara Stjána hjá Loga í beinni.

Á þriðjudaginn hlýddi ég svo á Ármann minn og hana Söru Blandon spila fullt af óvæntum lögum - og það aldeilis prýðilega - á Rósenberg undir nafninu A band on stage.

Núna æfum við nýtt lag í erg og gríð og tökum það upp eftir helgi. Þetta er tækifærissöngur, en engu verður ljóstrað upp um tækifærið fyrr en við ... eh, rétta tækifærið.

Og á morgun verður svo brunað norður á haustþing Bandalags leikfélaga.

Fyrir þá sem fljúga innanlands á næstunni og lesa SKÝ í leiðindum sínum: Í viðtali við Hálfvitana í því ágæta blaði stendur að ég sé kallaður Goggi. Það er ekki rétt. Margt annað í viðtalinu er hins vegar sannleikanum samkvæmt. Ekki allt, en góður slatti.

Hæstaréttarlögmenn tveir skrifa þykkjuþung blogg yfir því að pupullinn sé ósáttur við dóm Hæstaréttar um Bjarna-ármannssonarhygli stjórnar Glitnis. Hér og hér, ef einhver nennir.

Það má vel vera að dómurinn sé "réttur". Kannski svolítið arrogant að segja að það sé ekki hægt að hugsa sér að hann væri á hinn veginn, þar sem héraðsdómur var einmitt á hinn veginn. Og það getur vel verið að einhverjir leikmenn hafi tekið full stórt upp í sig um heimsku og óheiðarleika hæstaréttar. Annað eins hefur nú verið sagt undanfarið.

En um óréttlætið leikur enginn vafi. Og flestir sem hafa tjáð sig um dóminn af skynsamlegu viti hafa tekið fram að ef hann sé "réttur" þá sé það óréttlæti lögfest, og það sé áhyggjuefni.

Því miður grunar mig að á þessu skeri steyti mikið af málatilbúnaði sem verður til næstu misserin yfir hrunvöldum stórum og smáum. Og það munu gráta allir góðir menn. Og þeir Brynjar og Jón munu væntanlega sussa á okkur og segja okkur að við munum skilja þetta þegar við verðum stór.

1 Ummæli:

Anonymous Kristín í París sagði...

Kannski er ég allt of lítil til að geta verið svekkt út í sitjandi vinstri stjórn fyrir að hafa ekki sett "höftin" sem frjálslyndir strikuðu út, í lög. En ég er það samt, drullufúl barasta.

6:36 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim