fimmtudagur, október 30, 2008

Snilldarblogg

Fyrir þá sem hafa áhuga á amríku þá er þetta blogg óvitlaus áfangastaður.

Munið bara að byrja að lesa innganginn til að átta ykkur á hvað þetta er mikil snilld.

fimmtudagur, október 23, 2008

Meira helvíti

Egill Helgason veltir fyrir sér dauða krúttsins og endurkomu pönksins. Varríus skaut inn einu kommenti. Held að bæði sé hin viðtekna íslenska söguskýring á tilurð pönksins alltof breskmiðuð og svo séu tónlistarlegar aðstæður þannig núna að reiðin muni fá einhverja allt aðra útrás. Fyrir utan það að það má vel halda því fram að íslenskt pönk standi bara í ágætis blóma akkúrat þessi árin.

Ljótu hálfvitarnir ætla að spila á Rósenberg á laugardagskvöldið. Síðasti séns áður en Ármann verður rúmlega fertugur. Þar ætlum við m.a. að kyrja þetta kvæði sem ég orti fyrir nokkrum mánuðum:
Fallegt lík

Á flestöllum sviðum er fjandinn að losna,
fjöturinn slakur og laus.
Fávitar allir sem fengu sig kosna
og fífl, þetta lið sem þá kaus.
Og hvenær var það aftur síðast sem hún Katla gaus?

Starfsmannaleigurnar stela af þrælunum,
stíflað hvert einasta fljót.
Börnin að kafna í álbræðslubrælunum
bogin og andstutt og ljót
Og hvenær vinna strákarnir okkar mót?

Munum bara að brosa.
Því breiðara því betra, í það minnsta hálfan metra.
Munum bara að brosa, verum hamingjurík.
Það gagnast ekki neitt, en þannig verðum við fallegri lík.

Ísinn á pólunum bráðnar og bangsi
mun baula sinn ísbjarnarblús.
Heimsendir nennir ekki neinu hangsi
við förumst með manni og mús.
Við dauðann og djöfulinn verðum dús

Munum bara að brosa.
Alveg út að öxlum, í það minnsta endajöxlum.
Munum bara að brosið er það besta sem gefst.
Skiptir engu, en þú verður þannig fallegri þegar þú drepst.

Munum bara að brosa.
Fetta sig og bretta og úr spékoppunum skvetta.
Munum bara að brosa, og ég syng og ég hlæ.
Og þó það breyti engu þá verðum við snotrari hræ.
Mætið öll kl. 21 eða fyrr. 1.000 kr. inn.

Já og talandi um mótmælasöngva, biðjið rás 2 að spila Nauðþurftir heimilanna af fyrri plötu Túpílakanna. Það er sko lag fyrir daginn í dag.

laugardagur, október 18, 2008

Díll?

Það má vel vera að núna sé ekki tími nornaveiða og blóraböggla, heldur neyðarviðbragða og reddinga.

En einhverjir bera samt ábyrgð. Þeir eru ekki allir í sama liði þannig að gömlu víglínurnar og jarðsprengjusvæðin í kringum þær eru bara til trafala, hafi þau einhverntíman verið til gagns.

Hér er uppástunga:

Ég er til í að fresta því að kveikja undir tjörupottinum og hætta að reyta hænurnar ef þeir sem bera ábyrgð eru til í að stíga fram og segja: Ég klúðraði. Ég stóð mig ekki. Ég var of gráðugur:

Þeir sem hönnuðu kerfið sem leyfði þessa fráleitu atburðarás
Þeir sem augljóslega hafa grætt óheyrilega á óförunum
Þeir sem veittu almenningi vísvitandi rangar upplýsingar fram á síðustu stundu
þeir sem áttu að standa vaktina en sváfu
Þeir lásu varnaðarskýrslur með lesblinda auganu og hæddust að úrtölumönnum
Þeir sem skömmtuðu sér ofurlaun en klikkuðu samt
Þeir sem tóku rangar ákvarðanir í upphafi ógæfunnar

Ef helstu syndaselir eru til í að koma úr felum og viðurkenna mistök sín er ég til í að fresta því að refsa þeim.

Ef ekki, þá neyðist ég víst til að halda áfram að leita að þeim.

Og hita og reyta.

Annars er Varríus fertugur í dag. Hárin á eyrunum hafa aldrei farið mér eins vel.

föstudagur, október 17, 2008

Skrauthvörf

Mér leiðist þegar stjórnmálamenn og síðan fjölmiðlamenn í kjölfarið innleiða ný ástæðulaus orð, að því er virðist til að grugga vatn og fela sannleikann. Orð eru nefnilega til þess að lýsa heiminum, ekki fela hann. Þessvegna er orðið "Skrauthvörf" gott - það er nefnilega lýsandi.

Núna eru tvö svona óyrði komin í umferð:

Til þrautavara - sem virðist mega losna við með því að nota forskeytið "Neyðar-"

Að draga á lánalínur - sem í samhenginu sem stjórnmála- fjármála- og fjölmiðlamenn nota það virðist ekki þýða mikið meira en "að taka lán".

Ekki bulla. Lífið er of stutt.