föstudagur, apríl 27, 2007

Mæta!

Allir á Rósenbergstyrktartónleikana á lau. og sun. Loftkastalinn kl. 20.00.

Og allir að skrifa undir áskorunina.

Annað var það ekki í bili.

Jú, auðvitað er rétt að minnast fallins meistara:

miðvikudagur, apríl 25, 2007

Snýkjublogg

það er (of) oft freistandi að blogga um hneykslunarhellurnar sem fjölmiðlar raða í snyrtilega fleti á síðum sínum og skjám. Stundum er hinsvegar sniðugra og telja upp að tíu og þá er einhver búinn að því, oftar en ekki mun betur en maður hefði sjálfur ráðið við.

(Gleymið ekki að lesa kommentin, þar ber viðfangsefnið hönd fyrir höfuð sér á kostulegan hátt).

Og hitt er ekki síðra, þegar flinkir bloggarar skrifa frábærar greinar um eitthvað sem manni hefði aldrei dottið í hug sjálfum.

Springtime, and the bloggin' is easy...

mánudagur, apríl 23, 2007

Reisum Rosenberg!

Eyvindur Karlsson og fleiri velunnarar Rósen hafa ekki setið með hendur í skautum síðan ógæfan reið yfir. Nú er blásið til styrktartónleika til að styðja uppbyggingu og enduropnun.

Loftkastalinn laugardag og sunnudag kl. 20. Hálfvitarnir, Hraun og allskonar meistarar aðrir.

Og í ljósi áforma borgaryfirvalda, sem hljóma satt að segja ekki nema í meðallagi vinveitt þessari tilteknu starfsemi, þá er líka búið að starta undirskriftasöfnun til að auka likurnar á framhaldslífi staðarins.

Stóri dagurinn

Shakespeare á ammæli í dag.

Hann er enn langflottastur. Varríus óskar honum til hamingju með daginn og er ekkert sár.

föstudagur, apríl 20, 2007

Og plögga:

Ljótasta og hálfvitalegasta spútnikhljómsveit landsins verður með söngskemmtun í Þjóðleikhúskjallaranum annaðkvöld (lau). opnum kl. 22, byrjum 22.30.

Eða kannski byrjum við ekki þá, heldur systurhljómsveit vor Túpílakar. Þau eru sjóðheit með nýtt efni í bland við klassíkina, en þetta er fyrsta suðurheimsókn lakkanna í langan tíma.

Ekkitilaðmissaaf. 1.500 kall fyrir almenna borgara, fúsundkall fyrir fátæka námsmenn.

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Heimavöllurinn

í fyrrakvöld kíkti ég inn á Rósenberg með Bibba. Hljómsveit var að koma sér fyrir í horninu, gítarbassitrommurhljómborð. Fjórir kornungir spilarar í tiebuxum og með dredda. Þeir byrjuðu á einhverjum óskapnaði sem sagði manni svosem ekkert annað en að þeir væru flinkir.

Svo töldu þeir í verkefni kvöldsins - að spila Pétur og Úlfinn. Og það var magnað hjá þeim. Frábær spilamennska og firnaþétt. Hef ekki hugmynd um hverjir þetta voru, en þeir vissu svo sannarlega hvað þeir voru að gera.

Svo fórum við heim.

Rósenberg var magnaður staður. Virkaði eins og félagsmiðstöð fyrir brottflutta húsvíkinga af yngri kynslóðinni og ákveðna kreðsu af tónlistarmönnum. Lifandi staður með fastagesti, látlausa stemmingu og (að mér skilst) glettilega góðan mat. Ljótu hálfvitarnir litu á Rósenberg sem heimili sitt og varnarþing. Sama gerðu Hraun. Ábyggilega fleiri bönd.

Þess vegna er ég niðurdreginn yfir þessu og sit í huganum hjá Dodda á stéttarkantinum.

Og þessvegna finnst mér hrokafullur yfirlætistónnin í þessum pistli óþolandi. Það getur vel verið að Agli Helgasyni þyki "ekki eftisjá í neinu" sem þarna fór fram. Enda var hann fjarri góðu gamni í fyrrakvöld þegar fjórir kornungir virtúósar fóru skapandi og fimum fingrum um perlu Prókoffievs, sjálfum sér og fullum sal af glöðu fólki til uppliftingar.

Verst fyrir hann.

mánudagur, apríl 16, 2007

Popp og pólitík

Hálfvitar gerðu góða reisu norður. Ærðum troðfullan sjalla af kúabændum og skemmtum svo enn troðfylltari grænum hatti af allskyns fólki, i góðu félagi við Hund í óskilum og Túpílaka. Í hvorugu bandinu hef ég heyrt lengi og urðu það fagnaðarfundir fyrir eyrun og kátínukirtlana.

Spilum næst í Þjóðleikhúskjallaranum á laugardaxkvöld og 'lakarnir líka.

Mikið er ég feginn að vita hvað ég ætla að kjósa. Veit ekki hvort það er mér eða umræðunni að kenna en ég get ekki huxað mér að hlusta/horfa á stjórnmálaumræður núna. Óbærilega leiðinlegt og að ég held alveg óvenjulítið upplýsandi. Hin þráhyggjulega árátta spyrla að ræða helst niðurstöður skoðanakannana og möguleg ríkisstjórnarmynstur er illþolandi.

Kosningar á ekki að spá í eins og bikarúrslitaleiki. Það er innihaldið sem skiptir máli. Hvernig væri að einbeita sér að því?

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Komnir á Jútjúb

Sjómannaslagarinn Sonur hafsins er kominn á YouTube.

Og ítarefni líka, því hér er viðtal við höfund/söguhetju lagsins og sjávarútvegsráðherra hálfvitanna. Skimið sérstaklega eftir hljóðnemanum á ráðherranum.

þriðjudagur, apríl 10, 2007

Og svo áfram...





Tónleikaferðir

Þetta var náttúrulega alveg rosaleg páskahelgi fyrir oss hálfvita.

Við smekkfylltum Skjólbrekku, tvífylltum gamla bauk - settum á aukatónleika um miðnættið þegar ljóst var rétt fyrir þá fyrri að biðröðin var jafnfjölmenn og þéttsetinn salurinn, og skemmtum að ég held okkur og þessum tæplega sexhundruð manns dáindis vel.

Rosaleg sigling á hálfvitunum, það verður bara að segjast eins og er.

Og svo var það Björk í gær. Það var ansi magnað, mikið drama með alla þessa lúðra. Gömlu lögin fá nýtt yfirbragð, þau nýju eru áheyrileg og uppklappslagið var stórfenglegt pönk af naívustu gerð.

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Norður

Varríus brunar norður á morgun. Tónleikar í Skjólbrekku annaðkvöld og á Húsavík á laugardagskvöld. Heimavöllurinn er alltaf heitur hjá Hálfvitunum þannig að við hlökkum þvílíkt til. Allir sem eiga færi á – mæta!

mánudagur, apríl 02, 2007

Helstu úrslit

Góð hálfvitahelgi. Að fimmtudaxkvöldinu meðtöldu þá spiluðum við þrjú gigg og vorum auk þess í sjónvarpinu. Allir virtust skemmta sér hið besta, og þeim merka áfanga var náð að um okkur var stofnaður þráður á Agoratorgi íslenskrar netumræðu, sjálfu barnalandi.

Að auki söng Varríus við agnostíska nafngjafaathöfn sem slapp líka alveg.

Miklar sviptingar hafa verið í heimi óopinberu heimsmeistarkeppninnar. Georgíumenn misstu titilinn til Skotlands, og nokkrum dögum síðar hrifsuðu Ítalir hann til sín og eru nú óumdeildir heimsmeistarar með báða titlana í húsi. En ekki er víst að Adam verði lengi í Róm, því stórlið Færeyja á næsta tækifæri til að ná þessum eftirsótta áfanga.

Bestu ummælin um úrslit kosninganna í Hafnarfirði komu frá Ármanni: "Ég vona að almannatengill álversins hafi verið á árangurstengdum greiðslum".

Bestu ummælin um hörmungina á Anfield átti Ingvi Leifs: "Í fyrsta sinn á æfinni var ég feginn að vera í fermingarveislu".