þriðjudagur, apríl 05, 2011

Sigmundur Fiskaður

The term fisking is blogosphere slang describing a point-by-point criticism that highlights perceived errors, or disputes the analysis in a statement, article, or essay. Meira hér.


Förum aðeins yfir grein Sigmundar Davíðs úr Mogganum í dag:

Íslenzkur aðall


Þegar forseti íslands ákvað að almenningur fengi að eiga síðasta orðið í Icesave-málinu ...
Ó, var það það sem hann gerði? Verður „Já“ síðasta orðið? Varla. En „Nei“? Alveg örugglega ekki.
... var rétt niðurstaða fengin hvort sem þjóðin svo samþykkir eða synjar. Færa má rök fyrir bæði já-i og nei-i. Ríkisstjórnin hefur helgað sig því að tala máli hinna erlendu ríkja heima í stað þess að tala máli Íslands útávið.
Ríkisstjórnin stendur (eðlilega) á bak við þann samning sem búið er að gera í hennar nafni. Og reyndar stjórnarandstöðunnar líka.
Einhverjir kunna því að telja nauðsynlegt að fallast á kröfurnar enda séu þeir sem eiga að vera í forsvari fyrir þjóðina ekki líklegir til að verja afstöðu íslendinga verði málið fellt.
Engan hef ég heyrt halda fram þessum rökum fyrir Jái. En mögulega hefur Sigmundur heyrt einhver halda fram svona sófistískum og veikum röksemdum fyrir samþykkt. Hver veit?
Aðrir gætu óttast að erlend ríki muni beita okkur þvingunum fyrir það eitt að vilja fylgja lögum.
Það er sumsé enginn ágreiningur um lögmætið? Allt klárt og kvitt?
Þeir sem hallast að því að þannig gerist kaupin á eyrinni í samskiptum ríkja vilja þá líklega forðast að egna óstöðugan. Víst er að ef Íslendingar synja lögunum staðfestingar mun það ergja margan embættismanninn sem er að verða uppiskroppa með teppi til að sópa brotum alþjóðlegu banka- og skuldakrísunnar undir.
Já örugglega. Og það eru auðvitað göfug markmið að taka afstöðu í svona máli vegna gleðinnar sem ALLIR eru sammála um að felst í að ergja blýantsnagara.
Það má því finna rök fyrir ólíkri afstöðu.
En greinilega bara vond og ómerkileg fyrir „Já-i“. Mælskubragð til að gefa máli sínu yfirbragð hlutleysis.
Verst er að mikið vantar upp á að umræðan sé til þess fallin að gefa fólki kost á að taka ákvörðun á réttum forsendum.
Segðu.

Að láta raunveruleikann ekki trufla sig

Það er eitthvað sérlega óviðfeldið við það að spekingar ...
„spekingar“. Er átt við fagmenntaða sérfræðinga í lögum, hagfræði og stjórnmálum, eða kannski bara alla sem tjá skoðanir digurbarkalega? Heppilegt að láta þess ógetið.

... sem höfðu alveg einstaklega rangt fyrir sér í aðdraganda efnahagshrunsins og voru svo staðnir að því að hafa farið ítrekað með fullkomlega rangt mál í fráleitum hræðsluáróðri vegna Icesave I og II skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera hófsamari í málflutningi í þriðju umferð. Þeir hinir sömu eru nú mættir sem helstu talsmenn Icesave III og hafa engu gleymt og ekkert lært.
Það er nú í sjálfu sér ekkert útilokað að þeir hafi eitthvað lært, er það. En já, smá auðmýkt væri kannski allt í lagi (og reyndar sýndu ansi margir hana eftir Icesave II).

Nú má vera að þessu fólki hafi tekist að sannfæra sjálft sig það rækilega að engu breyti hversu oft raunveruleikinn andæfir því.
Því raunveruleikinn breytist auðvitað aldrei.

Ófáar sálfræðibækur hafa verið skrifaðar um slík einkenni. Dómgreindarbresturinn kemst hins vegar á nýtt og alvarlegra stig þegar sama fólk telur sig enn og aftur best til þess fallið að segja öllum öðrum hvað þeir eigi að gera og nota til þess sömu skýringar og reyndust alrangar.
Það að hafa skoðun og láta hana í ljós er hér lagt að jöfnu við að „segja öllum hvað þeir eigi að gera“. Algengt mælskubragð í íslenskri umræðu.

Þeir sem vita betur
Það er merkilegt að sjá hverjir eru helstu talsmenn kröfugerðar Breta og Hollendinga. Þeir koma flestir úr þeim hópi fólks sem er stundum skilgreindur sem “elítan” í þjóðfélagsumræðu á Vesturlöndum.
Skilgreindur af hverjum? Og í hvaða tilgangi? Og hvaða gildishleðsla felst í orðinu sem tengist ekki þeim hópi sem Sigmundur á við? Og úr hvaða jarðvegi eru „helstu talsmenn“ Nei-sins?

Embættis- og stjórnmálamenn, háskólamenn (fastráðnir hjá ríkinu), fjölmiðlamenn með köllun, bankastjórar, forstjórar og forsprakkar “aðila vinnumarkaðarins”.
Semsagt fólkið sem er næst ákvarðanatökunni (og upplýsingunum sem hún byggir á), sérfræðingar í fjármálum, fólk sem vinnur við að afla sér upplýsinga og talsmenn hagsmuna atvinnulífs og vinnandi fólks. Og gott að vita að lög- hag- og aðrir fræðingar sem ekki styðja Jáið tilheyra ekki þessum elítuhópi. Takið sérstaklega eftir snilldarlegri notkun gæsalappa hér, og veltið fyrir ykkur hvaða tilgangi þær þjóna.

Einkum þó þeir úr þessum hópi sem eru meira með hugann við útlönd en Ísland (hópurinn á sér sögulega skírskotun þótt hann skrifi ekki lengur í kansellístíl).
Gott að vita að sögubækur og -skýringar Jónasar frá Hriflu eru enn handgengnar formanni Framsóknarflokksins.

Svo er það ráðgátan með Baug og Icesave en hún verður ekki leyst hér.
Gamla smjörklíputrikkinu hefur sjaldan verið jafn klunnalega beitt.

Áfram Icesave
Fyrir nokkrum dögum var svo settur saman hinn svo kallaði Áfram Icesave hópur og hann kynntur sem grasrótarhópur.
Fyrsta lögmál Varríusar um mælskubrögð: Um leið og einhver kallar eitthvað „svo kallað“ án konkret ástæðu ber að efast um heilindi hans. Já og svo kallar hópurinn sig ekki „Áfram Icesave“.

Nú hefur “grasrótarhópurinn” sem virðist hafa ótakmörkuð fjárráð sett af stað mestu auglýsingaherferð sem sést hefur á íslandi frá því að bankarnir voru upp á sitt besta.
Gaman væri nú að sjá það mælt. Og gott að Sigmundur miðar við bankana en ekki t.d. olíufélögin, svo dæmi sé nefnt af handahófi. „Virðist hafa ótakmörkuð fjárráð“ er síðan snilldarbragð. Ósannanleg fullyrðing sem vekur samstundis tortryggni.

Þrátt fyrir stóran hersjóð og aðstoð auglýsingastofa ...
Vúhú, auglýsingastofur. Skamm skamm. Aldrei nota Framsóknarmenn svoleiðis, né pukrast með peningaöflun sína.

... virðist Áfram Icesave mönnum oft verða fótaskortur á svellinu. Raunar eru þeir farnir að minna á breskan hóp sem bar sama nafn og gerði ófáar kvikmyndir um fólk sem lærði aldrei af reynslunni þ.a. vitleysan vatt stöðugt upp á sig. Nýjasta myndin gæti heitað [svo] Carry on Icesave.
Þetta er reyndar snjallt. Hvort að viðhafnargrein eftir formann stjórnmálaflokks sé réttur vettvangur fyrir hótfyndni er reyndar jafn óvíst þó fyndnin sé vel heppnuð.

Byrjað var á að kynna til sögunnar hina ýmsu talsmenn semtakanna sem komust fyrst að því að þeir hefðu tekið að sér að auglýsa Icesave þegar þeir sáu myndir af sjálfum sér í blöðunum. Fáni Íslands var notaður sem merki samtakanna í trássi við lög (og málstaðinn) ...
Því auðvitað er þetta ekki bara fólk með rangar skoðanir heldur lögbrjótar og landráðamenn.

... en svo var merkinu breytt og í staðinn “fengið lánað” listaverk þekkts bresks myndlistarmanns.
Bresks, athugiði. Landráðamenn!

Engu er líkara en að hópurinn telji að ekki megi líta á lög og reglur sem  prinsipp sem þurfi að fylgja ef aðrar lausnir eru í boði.

Áfram auglýsingar
Auglýsingar íslenska Carry on hópsins virðast annars vegar byggjast á endurnýttum gömlum hræðsluáróðri (og óviðjafnanlegri nýrri myndgerð þess áróðurs) og því að fá hvers konar “fyrirmenni” ...
Gott hjá Sigmundi að vekja athygli á vafasamri notkun sinni á þessu orði með því að setja það sjálfur í gæsalappir.

... til að segja fólki hvers vegna það ætlar að samþykkja Icesave (fyrir hönd annarra).
Ólíkt þeim sem ætla að hafna honum fyrir annarra hönd, væntanlega.

Fyrst voru tíndir til nokkrir forstjórar (eða millistjórnendur)
Plebbar.

en því næst var upplýst að tuttugu ráðherrar frá liðnum árum, og öld, ...
Síðustu öld sko. Alveg fyrir 11 árum.

... vildu að fólk segði já við Icesave. Þarf þá væntanlega ekki frekari vitnanna við. Það hlýtur enda að takmarka nokkuð næstu skref í auglýsingastefnu Áfram Icesave hópsins að ekki skuli vera til aðalsmenn á Íslandi. ”Barón Thorvald af Reykwick: Ég segi já við Icesave svo að Íslendingar geti borið höfuðið hátt (í sendiráðsboðum)”.
Skoðanir 20 ráðherra eru ómarktækar og ekki svaraverðar nema með skætingi. Segir stjórnmálamaðurinn.


Litla gula hænan borgar

Verst er þó að þeir sem vilja enn og aftur fá fólk til að taka á sig ólögvarðar kröfur ...
Sem engin deilir auðvitað um að séu ólögvarðar, er það?

... eru fólk sem virðist ekki líklegt til þátttöku þegar kemur að því að bera kostnaðinn. Það eru einhverjir aðrir sem eiga að gera það.
Nei, enginn þessara sem skrifa og vitnað er í borgar skatta, er það nokkuð?

Deildarforsetinn í háskóla á landsbyggðinni sem útskýrði að Íslendingum væri hollt að taka á sig Icesave II taldi örugglega ekki að það ætti að leggja niður sína stöðu til að skrapa saman fyrir afborgunum (enda þarf augljóslega að hafa mann á launum til að færa fram slíka visku þegar mikið liggur við). Fjármálastjóri annars háskóla, sem er mjög áfram um að samþykkja kröfurnar, er áreiðanlega ekki á því að ríkið eigi að draga úr framlögum til skólans, þvert á móti.
Með sömu rökum: Háskólamenn sem leggjast gegn niðurskurði í heilbrigðiskerfinu eru vafalaust ekki að meina það, því þarna gætu farið peningar annað en í þeirra eigin elítísku vasa.

Bankastjórarnir sem boða til áróðursfunda um Icesave eru síður spenntir fyrir umræðu um að færa niður lán til að gera almenningi betur kleift að standa undir hinum nýju kröfum.
Já, allir sem voga sér að tala um Icesave eru áreiðanlega bara að því til að þurfa ekki að tala um eitthvað óþægilegt.

Forstjórarnir vilja líklega ekki hækka skatta á fyrirtæki sín eða 13 milljóna mánaðarlaun til að borga Icesave. Hvað með forsprakka launþega og lífeyrissjóða, á að sækja fé sjóði þeirra? Nei, gleymdu því. Ætli megi lækka eftirlaun 20 fyrrverandi ráðherra? Líklega ekki.
“Við skulum samþykkja kröfurnar en það eiga einhverjir aðrir að borga”.
Semsagt: Ef Icesave verður samþykkt er útilokað að lækka laun bankastjóra og annara fitukatta. Er það ekki augljóst?

En ef við græðum á skuldsetningunni?
Nú kunna að vera einhverjir sem telja að með því að fallast á Icesave-kröfurnar og ótakmarkaða ríkisábyrgð verði þeim mun auðveldara fyrir hið skuldsetta ríki að taka enn meiri lán og auka með því veltu þannig að á endanum þurfi minni niðurskurð. Það dugi jafnvel til að fá hið “óskeikula” Moody’s til að halda uppi lánshæfismati um sinn (í pólitísku mati sínu á  Íslandi er fyrirtækið reyndar lent í vandræðalegri mótsögn við raunverulegan mælikvarða lánstrausts, skuldatryggingaálagið). Fylgismönnum þessarar kenningar er bent á að rifja upp íslenska banka- og efnahagshrunið 2007 og 2008.
Nei, við skulum endilega ekki taka nein meiri lán. Hver var aftur skoðun Sigmundar og flokks hans á stóriðjuuppbyggingu og hvenær ætti að ráðast í hana?

Lýðræði

Almenningsálitinu getur vissulega skjátlast en þrátt fyrir alla sína augljósu kosti og galla hefur lýðræðisfyrirkomulagið merkilegan kost sem erfitt er að rannsaka en sannast þó aftur og aftur: Almenningur hefur oftar rétt fyrir sér en elítan.
Sagði formaður flokksins sem almenningur hefur gert að smáflokki.Mér finnst þessi grein skammarleg. Að sumu leyti finnst mér hún enn ámælisverðari en barnaþrælkunarklám Egils Ólafssonar og Hákarladrama Áfram-hópsins. Ég vona að mér þætti hún skammarleg þó ég væri hjartanlega sammála Sigmundi í þessu máli.