fimmtudagur, júní 28, 2007

Meira hálfvitaplögg

Borgarleikhúsið bíður. Allir þangað á laugardaginn. Miðar hér. Reyndar sómum við okkur líka vel úti í guðsgrænni náttúrunni.

Annars er ég alls ekki viss um að hálfvitarnir séu nógu stórt band fyrir mig. Meira síðar...

föstudagur, júní 22, 2007

Platan - tónleikar

Frumburður Ljótu hálfvitanna kemur i búðir eftir helgi. Fyrstu eintökin eru víst komin til landsins, en óvíst hvort við komum höndum yfir þau fyrir helgi. Spenna í loftinu.

Útgáfutónleikar hinir fyrri verða svo í Borgarleikhúsinu á laugardaginn kemur. Það verður rosalegt! 1.800 kr. inn, miðasala t.d. hér. Farið neðst á síðuna og klikkið á 30. júní.

Af þessu má enginn missa, nema þeir sem ætla frekar að sjá okkur viku síðar á Ýdölum.

Nú fer í hönd plöggvika mikil. Oddur Bjarni verður í Helgarútgáfunni á Rás 2 á morgun og ég í Laufskálanum hjá Lísu Páls á þriðjudag.

Gríðarlega spennandi.

PS: og í þessum töluðum orðum berast þau tíðindi að fyrstu eintökin séu komin í hálfvitahendur. Jibbíkóla!

þriðjudagur, júní 19, 2007

Hrifla

Búinn að hlusta oft og grannt á frumburðinn hans Hrauns, I can't believe it's not happiness undanfarna daga. Miklu meira en ég reiknaði með, satt að segja. Umfjöllun um diskinn í prentmiðlum var því miður með afbrigðum grunnhyggin og gekk ýmist út á að mússíkin væri bara fyrir fullorðna (Grapevine), eða ekki sveitaballastuð (Mogginn). Best að ég segi hvað mér finnst.

Reyndar er ég eiginlega sammála báðum blaðaskríbentunum. Þetta fullorðinsleg og stælalaus poppmússík með textum um þroskaða úrvinnslu á erfiðri lífsreynslu. Ekki viss um að hún hefði gert mikið fyrir mig á þeim árum þegar Kiss og AC/DC voru efst í bunkanum.

Og hið tvískipta eðli Hrauns getur vissulega verið problematískt. Man eftir nokkrum skiptum þar sem ég var mættur á Rósen til að skemmta mér, hlæja, klappa og syngja með, en þurfti áður en stuðið byrjaði að sitja af mér nokkur lög úr þeim sarpi sem er síðan einráður á ICBINH.

Þannig að já, þetta er ljúfsár fullorðinsplata. Nákvæmlega hversvegna það er galli á jafn einlægri plötu að vera nákvæmlega það sem hún þykist vera veit ég ekki. Spurningin er: hversu góð er hún sem það sem hún er?

Ég myndi segja framúrskarandi.

Fólki verður nokkuð tíðrætt um að platan sé þunglyndisleg, bæði umfjöllurum og Hraunurum sjálfum. Ég veit það ekki. Lögin eru flest hæg og átakalítil, textarnir vissulega uppfullir af söknuði og sárum. En það er gleði í tónlistinni. Sköpunar- spila- og tjáningargleði á hverri rás. Held að eitt öppbítlag hefði gert hana enn áheyrilegri, en það er ekkert stórmál. Platan gerir mig ekki dapran, þvert á móti. Ef það var ætlunin þá hefur það mislukkast sem betur fer.

Bestu lögin eru frábær og setjast að í hausnum á manni - Your Love was Death to me, Clementine, Goodbye my Lovely og Ástarsaga úr fjöllunum. Hljóðfæraleikur er eins góður og ég kæri mig um að hafa hann og Svavar er magnaður söngvari. Tjáningarríkur en stælalaus.

Auðvitað má segja sem svo að ég sé "vanhæfur" til að hafa "hlutlausa" skoðun á afurð þessara vina minna. Og það er hárrétt. En ég væri ekki sífellt að hlusta á hana í einrúmi, í bílnum, í vinnunni, heima í sófa, til þess eins að þóknast þeim. Reyndar hefði ég alveg örugglega aldrei eignast eintak ef ég þekkti þá ekki sem leikfélaga og samstarfsmenn í allskyns samhengi.

Þetta heitir líklega að vera heppinn með vini.

Það er kominn 19. júní

Varríus óskar konum og öðru fólki til hamingju með daginn. En innan um alla bleikjuna er nauðsynlegt að halda karlmennskunni á lofti líka. Þó þannig að mýktin sé í hávegum höfð.

mánudagur, júní 11, 2007

Rómverjar já

Klikk, og stoltir af því.

miðvikudagur, júní 06, 2007

Já Gríman

Það er til marks um hvað hljómsveitin hefur yfirtekið líf mann þessa dagana að ég er varla búinn að kíkja á tilnefningarnar. Og hef verið það latur við að fara í leikhús án skyldurækni í vetur að ég get varla haft miklar skoðanir. Er t.d. ekki búinn að sjá Leg.

Best að kasta upp nokkrum álitum samt.

Besta sýnining
Hef séð þrjár þeirra. Skil ekki af hverju Ófagra veröld er þarna. Sakna besta nýja íslenska leikrits vetrarins, Eilífrar hamingju. Og Ástar. Og hr. Kolberts.

Þori ekki að spá. Dagur, Leg eða Skallagrímsson.

Barnasýning
Er ekki ofrausn að tilnefna fimm sýningar, ha?

Sá þrjár þeirra. Af þeim var Abbababb best. Held með Bernd af því hann er meistari.

Tónlist/hljóðmynd
Það hlýtur að vera svekkelsi fyrir Borgó að Grettir fái ekki tilnefningu hér, en það sem ég hef heyrt af útfærslunni á snilldartónlist Egils og þursanna þá er það skiljanlegt.

Áfram Megas!

Lýsing ársins

Áfram Kári!

Búningar ársins
Sá þrjár þessara. Held með Killer Joe og finnst að grikkinn eigi að fá refsistig fyrir satýrana.

Leikmynd ársins
Sennilega einu verðlaunin sem ég væri sáttur við að Ófagra veröld fengi.

Aukakvenhlutverk
Sá þrjár þessara.

Maríanna Clara á þau skilið, þó ekki væri nema fyrir kjúklingaátið.

Aukakarlhlutverk
Sá fjögur þessara.

Þröstur hlýtur að fara að vinna þessa styttu til eignar. Teddi reyndar framúrskarandi líka.

Aðalkvenhlutverk
Sá þrjár þeirra.

Veðja á Sigrúnu Eddu, þó ég hafi ekki verið nema hálfvegis heillaður af túlkun hennar.

Aðalkarlhlutverk
Hér sá ég fjóra.

Ekki reyndar Skallagrímsson, en veðja á hann. Jóhannes var auðvitað flottur líka.

Leikstjóri
Sá allt af þessu nema Leg.

Finnst Jón Páll eiga þetta.

Leikskáld
Rak í rogastans við að sjá Birgi Sigurðsson þarna. Ef einhver setti upp Hart í bak, væri þá Jökull leikskáld ársins? Þetta er vitleysa.

Bísna sterkur flokkur þó magnið sé lítið. Sá bara Birgi og Þorleif/Andra. Veðja á þá fóstbræður.

Munið gaukinn annaðkvöld

þriðjudagur, júní 05, 2007

Galað á gauknum

Hálfvitarnir verða á Gauk á Stöng á fimmtudagskvöldið. Hundur í óskilum líka. Ég heyrði í þeim í fyrsta sinn í langan tíma um daginn og þeir eru í miklu formi með fullt af nýju stöffi. Hápunkturinn er að sjálfsögðu þýðing og staðfærsla á Hotel Callifornia.

Ekki til að missa af.

Nema hvað Varríus missir af. Hann verður fjarri góðu gamni og nærri öðru, nefnilega í Kúlunni að horfa á áhugaleiksýningu ársins, kúkaleikritið hennar Sigguláru. Það er uppselt. Ekki á Gaukinn. Málið dautt.

föstudagur, júní 01, 2007

Showmannslíf, showmannslíf

Rúlluðum upp þessari sjómannalagakeppni! Flytjum Son hafsins í Hafnarhúsinu á morgun kl. 15 (verður í beinni á rás2) og brunum síðan með leiguflugvél til Húsavíkur til að skemmta á sjómannahófinu.

Frekar svalt.

Platan í mixun, flusið í hönnun og allir í stuði.

Og svo mæta náttúrulega allir tón- og leikelskir menn í Þjóðleikhúskjallarann í kvöld kl. 22.30. Þá verður tónlistardagskrá Hugleiks endurtekin. Magnað.