þriðjudagur, mars 02, 2021

SÓLÓPLÖTUR 

BUBBA MORTHENS

Núna í byrjun árs hlustaði ég mig í gegnum sólókatalóg Bubba Morthens og skrifaði nokkrar vangaveltur um hverja þeirra. 

Fyrst smá inngangur, forsendur, varnaglar og afsakanir.

44 plötur koma upp undir listamannsnafninu „Bubbi Morthens“ á Spotify. Ég sleppti safnplötum sem innihalda ekkert nýtt, en tók með tökulaga- og tónleikaplötur, þar með talið samstarfið við Dimmu. Utangarðsmenn, Egó og GCD falla á hinn bóginn utan konsepts. 


Þetta eru ekki djúpgreiningar. Ég hlustaði að jafnaði ca. þrisvar á hverja plötu, punktaði hjá mér það sem mér datt í hug á meðan og formaði svo í samfellt mál áður en næsta var tekin til kostanna. Ég er örugglega stundum mótsagnakenndur og missi yfirsýn. Og svo held ég að ég þykist hafa meira vit á pródúksjón en raunin er. Það verður að hafa það.

Ég enda hverja umsögn á að nefna tvö lög sem ég í allri minni hógværð kalla „bestu lög“, en eru auðvitað bara þau sem ég hef í mestu uppáhaldi á því augnabliki sem skrifað er.

Í þessum fyrsta skammti tölum við um fimm plöturnar. Það gerist nú eitt og annað á þessum sex árum, sem hefði dugað Bubba til sætis meðal okkar merkustu tónlistarmanna. Samt rétt að byrja.


ÍSBJARNARBLÚS (1980)

Eins og það telst varla kurteisi að segja Bítlana vera uppáhaldshljómsveitina þá hikar maður við að setja Ísbjarnarblús númer eitt í Bubbasólókatalógnum, nema þá í tímalínunni. Engu að síður: djöfull er þetta frábært! 

Hún hefur náttúrulega hefðbundna fyrstuplötuforgjöf; skartar (væntanlega) bestu lögunum úr sarpi sem Bubbi hefur verið að safna í um árabil. En það hefur líka tekist að búa þeim öllum (já, hverju einasta) óaðfinnanlegan búning. Og skipuleggja hana þannig að sundurgerðin verður styrkur en ekki veikleiki. Ísbjarnarblús er – ótrúlegt en satt – best pródúseraða plata Bubba Morthens. Tökum ofan fyrir Sigurði Árnasyni.

Goðsögnin í kringum frumraunina talar um mikinn gestagang og allskyns ákvarðanir teknar „á gólfinu“, en hún hljómar ekki þannig. Engin ofhleðsla, ekki skratti úr einum einasta sauðalegg. Allt rétt, eða í það allra minnsta sannfærandi, lag fyrir lag. Spilamennskan líka undantekningarlaust algerlega frábær.

Það er pínu erfitt núna að ná sambandi við hvað var svona byltingarkennt. Og þetta segi ég sem einn af þeim sem hún bylti, alveg prívat og persónulega. Hún virkar ekki beinlínis „nýjabrumsleg“, hvorki rokkogrólhliðin, né popp/kántrí/djass/trúbadorsvítan á B-hliðinni. Eiginlega frekar retró. Kannski best að hugsa þetta meira eins og að Ísbjarnarblús hafi fyllt í (gamalt) skarð í íslenskri tónlist sem enginn hafði tekið eftir að var þarna, en blasti því skýrar við þegar þessi bautasteinn var kominn á sinn stað.

Bestu lög: Hrognin eru að koma, Agnes og Friðrik.





PLÁGAN (1981)

Hraðinn, maður! Ég man ekki betur en það hafi verið beðið óþreyjufullt og „lengi“ eftir þessari sólóplötu tvö. Sé svo núna að sú bið hefur staðið alveg í rúmt ár, og í millitíðinni komu þrjár Utangarðsmannaplötur (misstórar vissulega, en samt). 

Ég þekki fólk sem finnst Plágan vera besta sólóplata Bubba, og ansi mörgum finnst hún vera „alvöru“ á hátt sem Ísbjarnarblús er ekki. Hún er óneitanlega heilsteyptari í hljóðheimi og útsetningum, en fyrir minn smekk eru nánast allar áberandi ákvarðanir um tilraunamennsku og frumleika í pródúksjón (sem eru ófáar) til vansa og lýta. Skýrasta dæmið er titillagið, sem gæti svo auðveldlega verið skotheldur rokkari, en virkar sérviskulega höktandi. Það hljómar eins og symbalarnir hafi verið klipptir út, allavega er trommið kjánalegt. „Þú hefur valið“ er líka undarlega ósamhangandi. 

Svo finnst mér bara lagasmíðarnar ekki vera á pari. Kannski hefur rjóminn verið fleyttur úr fyrrnefndum sarpi. „Bólívar“ er reyndar úr honum, alveg solid og jafnast á við góða stöffið á Blúsnum, en „Segulstöðvarblús“ varla. Þessi ótrúlega afkastamikli laga- og textasmiður er ekki kominn í þann magnaða gír sem hann átti eftir að detta í. Já, og svo er auðvitað þetta með plöturnar í millitíðinni og maníska spilamennsku Utangarðsmanna.

Þau tíðindi gerðust svo að ég eignaðist nýtt uppáhaldslag af Plágunni við þessa yfirferð. Ég var of mikill krakki til að tengja við „Blús fyrir Ingu“ þegar hún kom út, og síðan hafa farið áratugir í að flissa yfir einhverjum klaufalegustu textahendingum sem frá Bubba hafa komið (Mér líður eins og blóm sem finnur sól snerta sig / Eða lamb, nýborið). En nú lukust eyrun upp: Djöfull er þetta frábært lag!

Bestu lög: Bólivar, Blús fyrir Ingu.


FINGRAFÖR (1983)

Það undirstrikar kannski hvað Plágan er „mislukkuð“ (alltof sterkt orð, en finn ekkert skárra) að það sjást engin ummerki um hugmyndirnar sem einkenna hana á næstu sólóplötu. Reyndar er látleysi ríkjandi blær á Fingraförum: ekkert látið þvælast milli laganna og hlustandans. 

Fingraför er búin að vera uppáhaldsbubbaplatan mín frá því að hún kom út. Fljótlega upp úr þessu fóru leiðir að skilja með okkur og fyrir vikið er hún búin að vera í fyrsta sætinu allar götur síðan, eins og boxmeistari sem enginn skorar á. Hún á það líka alveg skilið. Fékk smá efasemdir við fyrsta endurrennsli fyrir nokkrum mánuðum (í tengslum við söngleikinn), en ég held að ég sé búinn að jafna mig. Fingraför er frábær.


Tvö lög toga hana aðeins niður: „Lennon“ og „Sorgarlag“. Sérstaklega það fyrra, sem er raunvont. Sorgarlag er meira svona meh. Ég held að það hafi hreinlega komið mér á óvart að það væru minna en frábær lög á henni og ég hafi misst sjónar á því hvað restin er snilldarleg. Djöfull byrjar hún til dæmis vel: „Lög og regla“ og „Afgan“. Hólíkrapp!

Segja má að sagan endurtaki sig á akústísku B-hliðinni. Tveir veikir punktar, en þar eru þeir ekki frá Bubba komnir. Megasarlögin eru nú ekki beinlínis úr efstu skúffu meistarans. Hinsvegar verða þau manni tilefni til að bera Fingraför saman við aðra stórkostlega plötu sem kom út þetta sama ár. Lögin hans Megasar á The Boys From Chicago eru eiginlega eins frábær og „Fatlafól“ og „Heilræðavísur eru slöpp“. Og heiður eiga þær bræður báðir skilið fyrir þessa endurræsingu. 

En já, Fingraför. Kassagítarhliðin er stórkostleg. Ekki veikur blettur á Bubbalögunum á henni. Pælum bara í spilamennskunni og berum virtúóísískt plokkið saman við strömmið á Ísbjarnarblús. Menn hafa verið að æfa sig. Og semja lög. Frá Plágu að Fingraförum eru líka tvær Egóplötur, og allar þær fæðingahríðir sem fylgdu því bandi. Engin augljós samlegðaráhrif. Þetta er allt önnur ella en þar er á ferðinni. Nema reyndar í textagerðinni. Persónuleg ljóðræn óræðnin í Afgan og Paranoiu á sér augljósa hliðstæðu í Mescalín og Í spegli Helgu.

Ég er ekki viss um að ég treysti mér í að velja uppáhaldslög. Eigum við ekki bara að segja Lög og regla og Bústaðir? Gæti eins verið Afgan og Sumarblús. Eða Grænland og Paranoia. Mikið er þetta góð plata.


NÝ SPOR (1984)

Tvö orð koma upp í hugann þegar ég hlusta á Ný spor aftur eftir áratugahlé: Meinstrím og uppgjör. 

Hún hljómar eins og hvaða eitíspopprokk sem vera skal. Frumleikafálmið á Plágunni víkur fyrir oblíkatorískum kóruseffekt og almennum fag- og smekklegheitum. Strákarnir á Borginni skera sig frá, hefðu getað verið á Fingraförum. Á sérútgáfunni er „upprunalega“ kassagítarútgáfa lagsins, og ég sakna alltaf línunnar „svo lengi sem þeir reyna ekki við mig“ á eftir yfirlýsingunni um að það sé í lagi með strákana. Man eftir þessu mómenti á trúbbatónleikum á Húsavík. Og gæsahúðinni. En tangóversjónin er frábær fyrir sinn hatt, verðuskuldaður hittari þessarar plötu.


Svo eru hér þrjú lög sem mætti kalla „reikningsskilasvítuna“. Það er reyndar ansi djúpt á merkingunni í texta „Utangarðsmanna“, en auðvitað grefur maður eftir einhverju sem snertir viðskilnað Bubba við samnefnda hljómsveit. Það er engin reiði í textanum, meira áminning um að erindið sé enn brýnt, það þurfi að „moka út þessum skít“. Það er ekki nóg að „vera töff, hafa gaman“, en eitt af því sem sprengdi Utangarðsmenn ku hafa verið mótstaða við pólitíska texta frontmannsins.

„Pönksvíta nr. 7“ er mun beinskeyttara og reiðara lag, innlegg í núning milli Bubba og samferðamanna í tónlistarbyltingunni upp úr ‘80 og flókna afstöðu til pönksins. Kannski framhald af „Það er auðvelt“ af 45rpm. Flott lag og enn flottara og „Utangarðsmannalegra“ í alternate-útgáfunni í aukaefninu. Og svo er það blessað diskóið. Bubba geta verið mislagðar hendur í húmor, en „Ég hata þetta bít“ smellhittir öll skotmörkin. Kannski vegna þess að það helsta er hann sjálfur. 

Talandi um Utangarðsmenn: Djöfull líður „Þeir ákveða hvað er klám“ illa í þessari poppspennitreyju. Hugsið ykkur það á Geislavirkir, eða við hlið systurlagsins „13–16“ á Rækjureggae. Tók hann það nokkuð með Dimmu? Hefði verið dauðafæri. Annað lag sem er í röngum galla er „Jakob Timmerman“, sem lifnar við í Vísnavinaútgáfunni. Dylan á The Times They Are a’Changin’.

Bestu lög: Strákarnir á Borginni og Vilmundur, sem líður fyrir svolítið sloppy söng, útsetningin auðveldar ekki beinlínis klukkuhreina intónasjón. 


KONA (1985)

Eitt af lögunum sem voru tekin upp fyrir Konu en endaði utan vinyls var „Dylan 2“, ljómandi lag sem ber nafn með rentu. En hefði ruglað heildarmyndina: hér svífur nefnilega andi helsta keppinautarins yfir vötnum. Bæði titil- og lokalagið minna mig sterklega á Leonard Cohen, og þá ekki bara línan um Betlehem og Babylon. Aðallega er Kona samt bara hún sjálf.

Ég hafði aldrei hlustað á hana frá upphafi til enda, en auðvitað heyrt megnið af lögunum. Hvað eru mörg lög hér sem enga spilun hafa fengið? „Seinasta augnablikið“, „Eina nótt í viðbót“, „Sandurinn í glasinu“ og „Spegillinn í bréfinu“. Ok, fjögur af tíu, en hin sex þekkja allir og elska flest. Að auki eru a.m.k hin tvö síðarnefndu afbragð og Spegillinn hreinlega geggjað. Merkasta uppgötvun þessarar yfirferðar það sem komið er. Á það sameiginlegt með öðru lokalagi, Stál og hnífi að virka ekki alveg tilbúið, en maður minn hvað það á skilið meiri ást.

Annað lag sem kom mér gleðilega á óvart er „Söngurinn hennar Siggu“, sem mér hefur alltaf fundið svolítið gimmicky. Það er rugl, þetta er frábært. Pikkið ómótstæðilegt og textinn svo lúmskt vel gerður, þó hann virðist við fyrst sýn ekki neitt neitt. T.d. að skipta „fínar“ út fyrir „skrítnar“ í lokaerindinu. Og þegar hann fer næstum að hlæja. Óborganlegt.

Þetta er alveg frábært lagasafn og öll í réttum búningi hjá Tómasi M. Svona í grundvallaratriðum. Það er samt eitthvað við spilamennskuna og mixið á overdöbb-hljóðfærunum sem virkar svolítið hikandi. Dauft. Eins og upplitað skraut. Trommunotkunin er t.d. mjög skrítin. En þetta truflar ekki að ráði þessa geggjuðu svítu. Lögin og textarnir njóta sín og það eru þau sem skipta máli.

Uppáhaldslög: Talað við gluggann og Spegillinn í bréfinu.


FRELSI TIL SÖLU (1986)

Hér verða tímamót. Loksins tekst að gera vel heppnaða, gjörpródúseraða, og síðast en ekki síst hreinræktaða, poppplötu með Bubba Morthens. Tvær fyrri tilraunir til þessa: Plágan og Ný spor, komust ekki alla leið og mig grunar að þar hafi skipt mestu að efnið var í grunninn of „trúbadúrískt“ til að passa í eitísgallann. Fyrir vikið eru það Fingraför og Kona sem blíva. 

Útsetningar- og pródúseringarhugmyndir sem gengu ekki upp hafa svo ekki hjálpað til með þær fyrrnefndu, en nú smellur þetta. Alveg solid, kröftugt og sannfærandi. Bara eitt lag sem maður skynjar trúbadúrversjónina sem að baki býr: „Maðurinn í speglinum“, sem er held ég talsvert betra lag en Frelsi til sölu er til vitnis um. Og geggjaður texti. Í Konu-búningi væri það með betri lögum þeirrar plötu, svei mér þá.

Þetta er síðasta Bubbaplatan sem ég hef einhverjar minningar um að hafa hlustað á „sem plötu“ þegar hún kom út. Og það er ekki nema rétt svo. Þegar þarna var komið sögu var bara einn í vinahópnum að kaupa plöturnar og hlusta á hann af einhverri alvöru. Ég heyrði henni rennt hjá honum, varla nema 1–2 sinnum og hlustaði eftir það bara á það sem rataði í fjölmiðla þangað til núna. Og þótti lengst af lítið til koma, verður að segjast. 

Þau fjögur lög: „Serbinn“, „Er nauðsynlegt að skjóta þá“, „Augun mín“ og „Gaukur í klukku“, bera af, svo nokkru munar. Vandi Frelsisins er hvað hin sex eru mikið síðri lagasmíðar. En svo kemur hitt: Þessi fjögur, og sérstaklega þau fyrstu tvö, eru einfaldlega frábær. Með allrabestu lögum Bubba. 

Og þá ekki síður – sem var kannski uppgötvun þessarar yfirferðar – textum. Ég var allsekki með viðtökutæki fyrir þessa lýrík þegar ég var átján. En vá, hvað Er nauðsynlegt… er glæsilega máluð mynd, og jafnvægið milli boðskapar og vakningar hárrétt. Lína sem Bubbi fetar ekki alltaf, og kærir sig líklega ekki alltaf um. Og Serbinn: besta heppnaða tilraunin til þessa til að leyfa ljóðmyndunum að fara sínu fram. Enn meira abstrakt en Mescalín og Í spegli Helgu, og enn betra.

Bestu lög: Augljóslega Serbinn og Er nauðsynlegt… Tvö aukalög af sérútgáfunni gera hávært tilkall til að vera nefnd líka: „Skapar fegurðin hamingjuna?“ og þó fyrst og fremst „Skyttan“, sem er í úrvalsdeild lagasafnsins, og keppir um meistaradeildarsæti.




BLÚS FYRIR RIKKA (1986)

Ef ég man rétt (sem er pínu ósennilegt) þá hef ég séð Bubba sex sinnum á sviði. Þrisvar með Egó og þrisvar einan með gítarinn. Allt læt ég nú vera að Blús fyrir Rikka fangi þá stemmingu sem myndaðist á þeim samkomum. Hefði mjög gjarnan viljað að hún væri byggð upp, eins og alsiða er með tónleikaplötur, eins og vitnisburður um tónleika, en ekki bara upptökur sem svo vill til að eru teknar upp að viðstöddum gestum. Með einhverskonar upphafskynningu (og fagnaðarlátum), klappi milli laga, uppklappi í lokin, og þökkum. Kynningu og mæringu á heiðursgestinum. Já og Bubbatónleikar án (langra) kynninga milli laga – er það „thing“?

Sem heimild um trúbadorinn Bubba í aksjón er Blús fyrir Rikka því talsvert gölluð. Það sem hún kemur hinsvegar vel til skila er túlkandinn, söngvarinn og kannski öllu helst gítarleikarinn. það er nú allnokkuð. Titillagið, maður minn!


Það sem fangaði samt athygli mína umfram flest annað eru önnur lög við texta sem áður höfðu fengið rokk- eða í það minnsta hljómsveitarbúning. „Í spegli Helgu“ og „Syndandi í hafi móðurlífsins“ eru framúrskarandi lög. Ególagið við spegilinn er reyndar eitt af mínum eftirlætislögum þeirrar uppáhaldshljómsveitar, en þetta gefur því ekki mikið eftir og hefur aðra kosti. „Systir minna auðmýktu bræðra“ er líka prýðilegt, Mescalín-lagið talsvert síðra. En Ególagið er reyndar svo frábært að það gerir ekkert til.

Geggjað að fá Megas í heimsókn. Sérlega gaman að hans innkomu í Ísbjarnarblús, og svo fer Bubbi mjög vel með Skutulinn. 

Bestu lög: Í spegli Helgu og Haustið á liti.


DÖGUN (1987)

Stóru tíðindin sem hér verða eru bragfræðileg. Þetta er platan þar sem Bubbi fer að fylgja venjum um stuðla og höfuðstafi að verulegu marki. Og merkilega áreynslulaust. Ég man ekki hvort það var í kringum Dögun sem hann (og þeir sem um hann fjölluðu) fóru að gera mál úr því að hann væri að beygja sig undir reglurnar, en allavega eru hér heilu textarnir „rétt“ kveðnir. 

Þeir eru ekkert endilega betri en hinir lausbeisluðu. „Manstu“ er t.d. eitt albesta lagið/textinn og þar er sú litla stuðlasetning sem er, út og suður. Á síðustu plötu voru líka tveir af betri ljóðrænu textum Bubba til þessa, allsendis frjálsir (Serbinn og Er nauðsynlegt …?)  Ég hef líka á tilfinningunni að heimsósóminn í „Menningu“ væri ekki alveg svona 18-aldarlegur á bragðið ef bragstífnin væri ekki svona einörð. En auðvitað bæta ljóðstafir almennt bæði sjarma og skerpu við bundið mál. 

Stundum finnst manni stuðlarnir ráði för um hvaða stefnu textinn tekur. „Silfraður bogi“ er dæmi, og það kemur ekkert að sök, efnið bíður upp á það. Og stuðlarnir verða Bubba ekkert að fótakefli við að segja sögu á borð við „Aldrei fór ég suður“. Síður en svo. 

Fyrri hliðin á Dögun er alveg mögnuð. Ekki feilpúst, allt klassíkerar. Eftir upphafslag b-hliðarinnar (Silfraður bogi) lækkar flugið umtalsvert eins og oft vill vera. Samt bara þrjú lög undir pari. Það er fjári gott. 

Tommi Tomm pródúserar og það er margt mjög vel gert í að flytja kassagítarsamin (held ég örugglega) lögin yfir á tungumál poppsins. Eins á fyrri Tommaplötum er slagverk ekki síður notað til áhrifsauka en að berja takt. Mér finnst það takast miklu betur hér en áður. Eins að leyfa perk-eðli kassagítarsins að sjá um drifið í lögunum þegar við á, kannski stutt af bassatrommunni einni – „Frelsarans slóð“ er frábært dæmi. Trommusett-að-detta-niður-stiga breikin í Manstu eru samt lýti á því geggjaða lagi, en fallbyssu-tríólubreikin bæta fyrir þau.

Aukalagapakkinn á sérútgáfunni er ágætur. Feitasti bitinn finnst mér vera „Móna Lísa“, frumútgáfa titillagsins, sem jafnframt slær „Chile“ úr efsta sæti yfir lengstu lög Bubba. Og rígheldur allar átta mínúturnar.

Það kemur ansi margt heim og saman á Dögun. Það hefur auðvitað gerst áður og leitandi tónlistarmaður mun alltaf finna nýjar afvegaleiðir. En þetta er Bubbi eins og hann verður Bubbalegastur í þjóðlagapoppgírnum og það er frábært.

Bestu lög: Manstu, Silfraður bogi og (en ekki hvað) Aldrei fór ég suður


56 (1988)

Ég býst við að þessi tólftomma hafi fyrst og fremst verið hugsuð sem leið til að gefa út titillag bíómyndarinnar Foxtrott. Sem er fyllsta ástæða til – helvíti fínt lag. Hér er aftur tekið til við að popprokka með hefðbundnu rytmaparsspileríi, og ekkert að því. Ég held ég hafi aldrei áður heyrt hin fjögur lögin á þröngskífunni, þau eru prýðileg en ekki endilega meira en það. 

Best þeirra, og klárlega athyglisverðast, er „Klóakkrossfarar“. Ég man ekki hvað gekk á í opinberu lífi okkar manns um þetta leyti, en þarna er honum það mikið niðri fyrir í garð blaðamanna að eitthvað hlýtur það að hafa verið. Bubbi hefur reist slatta af svona níðstöngum og þessi er með þeim betri, bæði lag og texti.

Það er rausnarlegur aukalagapakki á sérútgáfunni, eðlilega, til að fylla upp á geisladisk. Ýmis grös; demó/kassagítarútgáfur af lögunum fimm, þrjú lög sem líka eru á Serbian Flower (þar á meðal ensk útgáfa af Foxtrott) og svo tvö demó til sem ekki urðu plötublóm. Bæði ágæt, og bæði að upplagi rokkarar og því ekki til fullrar þjónustu reiðubúin í kassagítarundirfötunum. 

Bestu lög: Foxtrott, Klóakkrossfarar.


SERBIAN FLOWER (1988)

Játning: Ég á mjög erfitt með Bubba á ensku. Mér finnst allur safi renna úr steikinni, bæði söng- og ljóðlega séð. Þannig að þetta verður seint mikil uppáhaldsplata. 

Lagaröðin á Serbian Flower, í samanburði við Frelsi til sölu, bendir til að „Whale song“ hafi verið talið líklegast til að ganga í útlendinginn, og textinn hefur ekki bara verið þýddur heldur gíraður í þá átt. Með sorglegum afleiðingum fyrir lýríkina. Þetta slær mig sérstaklega illa í ljósi þess að ég er nýbúinn að átta mig á hvað „Er nauðsynlegt að skjóta þá?“ er meistaralegt ljóð/lag.

Allt annað er upp á teningnum með „President’s Song“, sem kemur heim og saman meðan „Sló sló“ gerði það aldrei alveg.

Annars er þetta auðvitað ekkert ensk útgáfa af FtS. Annar og poppaðri lagalisti; hér eru t.d. enskar útgáfur af „Foxtrot“ og „Skapar fegurðin hamingjuna“. Já og „Klóakkrossfarar“ við enska útgáfu af Meskalín-textanum! Skrítnust er samt frekar mislukkuð útgáfa af Dögunarlaginu frábæra, „Frelsarans slóð“.

Undarleg plata. Virkar mjög skitsó þegar maður hlustar á hana í svona yfirferð. Kannski er meiri heildarsvipur á henni ef maður væri í markhópnum, eins og megnið af heiminum.

Bestu lög: President’s Song og Battlefield of sex


BLÁIR DRAUMAR (1988)

Af hverju gera söngvaskáld ekki meira af svona kveðastáplötum? Þetta er skemmtilegt form, og fókuserar stíl og persónuleika listamannanna, vekur athygli á einkennum sem hefðu annars kannski farið framhjá manni. 

Ég hafði aldrei hlustað á þessa plötu áður. Aðalástæðan er misráðin útgáfa þeirra félaganna á „Ég bið að heilsa“, sem var að ég held fyrsta lag í spilun. Þessi tilraun til að glingglóa upp þetta gamla lag misheppnast algerlega og ég missti lystina. Vissi til dæmis ekki fyrr en tiltölulega nýlega að „Tvær stjörnur“, þetta óviðjafnanlega meistaraverk Megasar, væri á Bláum draumum. Það hífir hana óneitanlega upp. 

Og heilt yfir er hún hreint ekkert afleit. Langt í frá reyndar. Dálítið miklar „stellingar“ á söngvurunum, sérstaklega Bubba. Það er auðvitað aðalvandinn við Jónasarkoverið – þetta er pósa. Ég er samt alveg til í að taka ofan fyrir honum fyrir að vera til í að prófa þessa pósu. Hann þurfti ekkert að gera þetta, og auðvitað heppnast ekki allar tilraunir. Hvað með það?

Bubbi á fimm lög á Bláum draumum. Þau eru fjári góð, og hljóma öll eins og þau hafi verið samin fyrir þessa plötu: ekkert þeirra er í búningi sem passar illa. Sem kemur á óvart, því þetta er auðvitað fyrst og fremst „búningaplata“. Kannski er bandið bara svona ógeðslega gott, en ég held samt að þetta hljóti allt að vera viljandi. 

Talandi um bandið: spilamennskan á Bláum draumum er dýrðleg frá upphafi til enda.

„Menn að hnýta snörur“ sker sig óneitanlega svolítið úr. En útsetningin hæfir því mjög vel, og því kvartar maður ekkert yfir að það sé ekki í sömu djasshillu og hin. Ágætt lag fyrir sinn hatt.

„Tvær stjörnur“ er auðvitað yfirburðalag plötunnar en uppgötvun þessarar yfirferðar er tvímælalaust „Seinasti dagurinn“, sem á skilið miklu meiri athygli og ást. Algerlega framúrskarandi smíð og einhver besti texti Bubba fyrr og síðar, vel kveðinn og myndvís með afbrigðum. Tilbrigði við sama stef og „Aldrei fór ég suður“, og manni finnst þessi lög öll vera um öldunginn sem stígur feigðarvalsinn í móttökunni í „Þorskacharleston“. „Sömu tökin í tuttugu ár / Tíminn læknar engin sár.“

Bláir draumar komu mér á óvart. Alveg stórfín og engu lík.

Bestu (Bubba) lögin: Seinasti dagurinn og Hann er svo blár

PS: 
Árið 2006 kom svo Bláir – sérútgáfa með Bubbalögum (og samstarfslögum) einum. Megas gerði slíkt hið sama með sínu framlagi. 

Á Spotify fylgir annað eins af aukaefni. Stundum eru það bara aðrar söngtökur. Maður þarf að vera bubbanörd á dylannördaleveli til að leggjast í alvöru samanburð. Ég er ekki þar. En sumt er alveg annað. Þarna er t.d. „Ég dansa tangó“ sem er að allt annað lag og að hluta annar texti en var á Bláum draumum. Hefði alveg sómt sér á popprokkplötunum sem Bubbi var að gera á þessum tíma.

Það þyrfti einhver með lyklavöld að líta á Spotify-útgáfuna, þar fara ekki alltaf saman titlar og lög. T.d. heitir partíströmmútgáfa Bubba af „Ég bið að heilsa“ „Seinasti dagurinn“. Hún er n.b. miklu mun skemmtilegri en hin opinbera. Á móti er þarna mjög hrá og frábrugðin frumútgáfa af Seinasta deginum undir dulnefninu „Ég bið að heilsa“. Laga þetta krakkar.


NÓTTIN LANGA (1989)

Ég er ekki sérlega móttækilegur fyrir óríentalisma í popptónlist. Þol mitt fyrir arabískum, indverskum og márískum krúsidúllum fer meira og minna allt í að finnast Kashmir stórfenglegt. Aðrir verða sætta sig við smá spurningarmerki frá mér. Það gildir um sítaræfingar Bítlanna og það gildir um Lamana ógurlegu sem gerðu Nóttina löngu með Bubba.

Þess verður svo að geta að Bubbi hefur alltaf haft smá tendensa í þessa átt og hefur krúsidúllurnar vel á valdi sínu. Og ef ég tek andlega ofnæmispillu þá verð ég að viðurkenna að það er eitthvað mjög sannfærandi við pródúseringu og útsetningar á þessari plötu. Eitt leiðarstefið í þessum pistlum er hversu vel tekst upp með samruna lagasmíða og útsetninga og hér tekst geirneglingin mjög vel. Úrvinnslan er að sönnu mjög frek á athygli og ekki gengur allt upp. „Sumarið 68“ væri t.d. umtalsvert betra án talraddarinnar (sök sér með sítarinn, sjá ártalið). Og gamalkunnur kyrrláttkvöldviðfjörðinn-boðskapur rímar illa við kitsí flamenco eins og í „Sagan endurtekur sig“.

En annað steinliggur. „Háflóð“ er frábært popp og það er geggjað grúv-dræv í „Stríðsmönnum morgundagsins“, hinu gamelan-innblásna „Þú varst svo sæt“ og í „Tíu fingur ferðast“. Merkilegt samt, eins og Bubbi er nú ómótstæðilegt ástarskáld þá er erótík önnur ella og liggur ekki alveg eins augljóslega fyrir honum. Og mér finnst maður skynja það í flutningnum. 

Þetta er held ég mjög vel heppnuð plata fyrir sinn hatt. Það vill bara svo til að hann passar ekki alveg á mig.

Aukalögin eru allt önnur ella: GCD-ískt rokkogról, sálheiðarlegt alveg og „Sumarið í Reykjavík“ átti alveg skilið að vera hittari. 

Bestu lög: Háflóð, Þau vita það


SÖGUR AF LANDI (1990)

Hvernig hefði Ísbjarnarblús hljómað ef Bubbi hefði verið orðinn þjóðargersemi og, ja ef ekki landsfaðir þá allavega yngri landsföðurbróðir? Eins og Sögur af landi, er nokkuð augljóst svar. Sömu yrkisefni áberandi: lífsbarátta og örlög í sjávarþorpum, smá heimsósómi um skemmtanalíf/neyslulíf í borginni, kántrískotin söguballaða, dylanísk háðsádeila um dekadens yfirstéttarinnar.

Eigum við ekki að segja að munurinn kristallist í þessari línu: „Ég fékk herbergi uppi á verbúð, það virtist í lagi“. Engar lýs og flær lengur, eða búið að taka þær í sátt.

Og svo náttúrulega því að SaL er ekki rokkplata. Eftir íburðarmikla etníska tilraunamennsku Næturinnar löngu er þetta stefnumót Bubba við Christian Falk áberandi lágstemmt. Hún hljómar næstum eins og upplituð. Sérstaklega loftkenndur hljómurinn á allskyns millistefjum, t.d. í „Sonnettu“, „Að eilífu ung“, „Síðasta erninum“ og „Blóðböndum“. Það er auðvitað hreinræktað smekksatriði en mér finnst þetta ekki heillandi. Verst náttúrulega í Blóðböndum vegna þess að millistefið slengir manni beint inn í Heims um ból, sem er með eindæmum óviðeigandi.

En það eru tvær hliðar á öllum málum, líka ákvörðunum pródúsenta. Skoðum t.d. Síðasta örninn, eitt dramatískasta lagið/textann á Sögunum, um ævikvöld einhvers dramatískasta og svipmesta þjóðskálds okkar. Fyrirfram hefði maður haldið að búningurinn þyrfti að endurspegla efnið, þó ekki væri nema með þrunginni söngtúlkun í naktri kassagítarútgáfu. En hér er boðið upp á hratt grunntempó, lítinn botn og mikla og loftkennda birtu. Virkar þetta ekki bara ágætlega? Jú svei mér þá. Þetta er ekki Einar Ben. Þetta er UM Einar Ben. Og inniheldur eina af mínum uppáhaldsbubbalínum fyrr og síðar: Um hug hans flæðir fljót af orðum / sem finna ekki skáldið sitt. Það er svo dálítið gaman skömmu síðar heyrum við hið vel lukkaða en sjaldheyrða „Sú sem aldrei sefur“, sem er í útsetningunni sem maður hefði fyrirfram haldið að hæfði grafskriftarsöng skáldsins í Herdísarvík.

Annað lag sem setur dramatískt innihald í „bjartan“ búning er svo auðvitað Syneta. Sem ég hef ekki heillast af fyrr en núna. Maður minn hvað þetta er flott lag og texti! Verðug yngri frænka Agnesar og Friðriks í sögulegu kántríballöðudeildinni. 

Plötunni lýkur síðan – eins og Ísbjarnarblús – á lagi um hafið og dauðageiginn (Í kvöld er talað fátt) og súrrealískri og brilljant (skop)mynd af yfirstéttarúrkynjun (Hann er laxveiðisjúklingur og veit ekki af því). Með smá mr. Dylan úr kryddskápnum. Og að öðrum veikburða millispilum plötunnar ólöstuðum er gítarinn í Laxveiðisjúklingnum mest í þörf fyrir kjöt á beinin, og smá Viagra.

Sögur af landi er sterk plata, þrátt fyrir pródúseringarskrít. 

Bestu lög: Syneta, Sú sem aldrei sefur


ÉG ER (1991)

Þarna kom loksins alvöru liveplata með trúbbanum Bubba! Með upphafi, endi og uppklappi, fagni og blístri, og smá millilagaspjalli, hóflegu þó. Og trúbadorinn í banastuði. Mjög sannfærandi spilamennska og söngur. Bæði í fyrri hlutanum þar sem hann er einn með gítarinn og í flottu samspili við bassa, nikku og smá rafgítar í seinni partinum. Allt smekklega gert og ógurlega kúl til dæmis í Stáli og hníf.

Ekkert nema gott um þetta allt að segja. Meira að segja þegar allt virðist ætla út í skurð þegar Bubbi byrjar „Silfraðan boga“ í ¾, sennilega undir áhrifum frá kántrívalsinum „Synetu“ sem er næstur á undan, og vippar sér  áreynslulaust heim í fjórhjóladrifið eftir fyrsta vers.

Tvö áður óbirt  lög hljóma: „Rómantík nr. 19“ og „Þarafrumskógur“, og eru ágæt, og það fyrra byrjar á aldeilis dægilegu munnhörpuforspili. Ég er hinsvegar ekki viss um að við þurfum að eiga átta mínútna sprechgesang-útgáfu af „Ísbjarnarblús“ með adlibgríni í kaupbæti á streymisveitum heimsins. „Segulstöðvarblús“ er hinsvegar stuð í allar níu mínúturnar. Lengsta lag á plötu með Bubba fram að þessu, en áhöld um hvort live telst með í þeirri „keppni“.

„Ég er“ er helvíti góð og löngu tímabær læfplata af heimavelli söngvaskáldsins mikla.

Bestu lögin: Blóðbönd, sem kemur loksins almennilega heim og saman hér án þess að jólasálmur Grubers sé að ónáða mann, og Sumarið ‘68 sem er laust við talröddina og nýtur sín í allri sinni dýrð.


VON (1992)

Jæja, Kúbuplatan. Ég á stundum í vandræðum með svona æfingar. Ekki alltaf; Graceland er fín og Tio vackra visor och Personliga Person er best. Ég er almennt bara frekar hlynntur menningarnámi. En þegar illa tekst til er „suðræning“ norrænnar popptónlistar algerlega óþolandi. Abba, ég er að horfa á ykkur.

Von er ekki óþolandi. Langt í frá bara. Hún latínar yfir sig á nokkrum stöðum, en heilt yfir er hún bara mjúk og hlý, hljómar yndislega. Það kemur aðeins á óvart hvað Bubbi nýtur sín í þessum heimi. Eða ekki: eins og áður hefur komið fram hefur alltaf verið stutt úr víbratóinu hans yfir í sunnlenskar krúsidúllur sem geta hvortheldur verið arabískar, fado eða flamenco. Eða þá karabískt salsa.

Mér finnst minnst til um lögin sem hljóma eins og helsta kveikjan að þeim sé að vera lög á svona plötu. „Þínir löngu grönnnu fingur“ og „Borgarbarn“ koma upp í hugann. Annars hefur mikið til tekist vel með að bræða þetta allt saman, og fullt af flottum lögum sem jafnvel þeir sem aldrei hafa hlustað aktíft á plötuna sem heild hafa heyrt og muna eftir.

Til dæmis í „Jakkalakkar“, sem er samt augljóslega mjög frumbubbískt lag og texti sem springur út í þessu skemmtilega kúbudrævi. Guiroið í „Kossar án vara“ er reyndar frekar pirrandi, en þar fyrir utan er útsetningin sérlega falleg, og lag og texti hreinn unaður. Það dýrðlega hljóðfæri marimba á  sterka spretti, enga sterkari en í „Of hrædd“, sem er yndislegt lag. Svo fíla ég í botn þessar djúpu bakraddir sem dúkka upp hér og þar. Til dæmis í „Þingmannagælu“ sem mér finnst að öðru leyti ekki mikið til um.

Eyþór Gunnarsson má svo sannarlega vel við una með þessa fyrstu plötu í pródúsentasætinu hjá Bubba. 


Bestu lög: Kossar án vara og Of hrædd


LÍFIÐ ER LJÚFT (1993)

Það hafði aldrei farið framhjá mér að Lífið er ljúft væri kántríplata. Eða svona næstum því. Ekki alveg kitch-kántrí í anda fyrstu platna Baggalúts og heldur ekki Hafnarfjarðarkántrí Björgvins og félaga. En samt: lagasmíðastíllinn er í anda Dylans og hans ættmenna og útsetningar færa þær nær sveitatónlistinni en gerst hefur á fyrri plötum. Að viðbættri nikkunni sem setur mjög svip á þetta skeið í tónlistarlífi Bubba og alltaf til góðs. Það heyrist varla blá nóta fyrr en í kröftugu og beinskeyttu lokalaginu, „Sum börn“.

Yrkisefnin og efnistökin í textunum eru líka nokkuð á kántríslóðum. Ameríka er þarna, t.d. því ágæta lagi „Leiðin til San Diego“ og það er eitthvað Woody Guthrieskt við grunnhugmyndina um söngvaskáldið sem mótvægi vanhugsunar og sérgæsku stjórnmálanna í laginu um trúðinn og trúbadorinn. Ég þarf að beita mig smá afli til að fallast á að trúð sem táknmynd fyrir hugleysi og þjónkun, en að því gerðu er þetta þrususmíð.

Afdráttarlaus einlægnin í ástarsöngvunum minnir líka á þessa hefð. En svo sker hún sig auðvitað rækilega frá meginstraum amerískrar sveitalífstónilstar með því að vera svona heiðskýr og hamingjurík. Hlustið bara á „Lukkan og ég“. Dásamlegt lítið lag – aldrei heyrt það áður. Meira að segja andvökusöngurinn „Afkvæmi hugsana minna“ er óblúsaður og æðrulaus.

Bubbi heldur áfram að styrkja tök sín á bragreglum. Það sést best í „Öldueðli“, en um leið er eins og honum sé ekki alltaf sýnt um að bræða saman hrynjandi lags og texta. Nokkur dæmi um að verið sé að koma fleiri atkvæðum fyrir í laglínum en strangt til komast þar fyrir, og leyfa stuðlum og höfuðstöfum að falla á áherslulausar nótur, þó þeir hafi verið á réttum stöðum á blaði. 

Ástarsöngvarnir sígrænu sem Lífið er ljúft hefst á eru dásamlegir, og ágætt að minna sig á það, nóg er nú búið að glotta og hæðast að einlægninni í þeim. Það er ekki nema sjálfsagt að skammast sín svolítið fyrir það. Eitt reyndar: pínu óþægilegar þessar línur um aumt hlutskipti þeirra sem ekki hafa dottið í lukkupott ástarinnar í „Sem aldrei fyrr“, en þó sérstaklega í „Við tvö“: „Á akri þeirra ástlausu / uppskeran hún brást / en við tvö eigum hvort annað / og alla þessa ást“. Og aftur: Bubbi er betri í ást en erótík.

Hér er er ástin í aðalhlutverki. Falleg plata.

Bestu lög: Þeir hafa trúðinn en þá vantar trúbador, Lukkan og ég.


3 HEIMAR (1994)

Þegar hér hafa komið sögu hafa enn ekki komið tvær plötur í röð frá okkar manni sem eru beinlínis af sama tagi. Það er ótrúlegt. Í grófustu dráttum má segja að það skiptist á plötur þar sem popp/rokk er í forgrunni og og hinar þar sem trúbadúrsk akústík stýrir för. Eftir kassagítar-, píanó- og nikkuhljóminn á Lífið er ljúft er aftur tími til að ræsa rafgræjurnar – og Christian Falk. 

Útkoman er mjög velhljómandi poppplata þar sem litið er inn í nokkur hliðarherbergi eins og oft áður: smá ska, smá reggae, smá soul meira að segja. Sem mig minnir að Bubbi hafi sagt í viðtall nokkrum árum áður að hann hlustaði aldrei á. En hann segir nú svo margt, og „Sumar konur“ er sennilega uppáhaldslagið mitt á þessari plötu.

Það er líka annar blær á textunum hér en á síðustu plötu. Ástarljóðin eru almennari – ekki persónulegar og stoltar ástarjátningar, meira svona almennar stuðningsyfirlýsingar við fyrirbærið. Kannski aðeins of almennar, og það er enn frekar vandinn með málefnatextana. Þeir eru mjög beinskeyttir, og virka fyrir vikið dálítið áreynslukenndir. 

Það þarf ekki annað en að skoða nöfnin: „Hafið er ruslakista þeirra ríku“, „Atvinnuleysið er komið til að fara“. Er Bubbi að reyna að tala sig upp í fyrri stöðu í framlínu baráttunnar fyrir breyttum/bættum heim? Það virkar pínu þannig, og virkar fyrir vikið ekki alveg. Áberandi best er heimilisofbeldismónólógurinn „Aldrei aftur“. Þar er einhver vinkill sem gerir viðfangsefnið persónulegt, smá bremsa á predikaranum sem skilur eitthvað eftir fyrir hlustandans og þá nær það til manns.

Ekki alveg efstuhillububbi, en hljómar vel og svo eru nokkrir toppar.

Bestu lög: Sumar konur, Aldrei aftur


Í SKUGGA MORTHENS (1995)

Kannski ekki mikið um þessa að segja, annað en að hún er alveg solid og líklega óhjákvæmileg. Ágætis áminning um hvað Bubbi er flottur söngvari. Mikill presens í röddinni þó sviðsdýrið sé ósýnilegt. Mjög smekklega sungið líka, engar krúsidúllur eða stælar. Bara mýkt, virðing og heiðarleiki. Útsetningar og pródúksjón Þóris Baldurssonar og Jóns Kjell Seljeseth mjög trad og smekklegar. Smá nútímablær á „Frostrósum“, sem fer vel.

Bestu lög: Frostrósir, Þrek og tár


HVÍTA HLIÐIN Á SVÖRTU (1996)

Alveg hafði það farið framhjá mér að Bubbi hafi birt sín fyrstu ljóð í þessu formi strax árið 1996, níu árum áður en textar af svipuðu tagi komu fyrst út á bók. Mér finnst almennt betra að meðtaka óbundin ljóð af blaði, en tókst samt að komast inn í þetta form í þessu formi. Hljóðmyndin er smart. Bæði fjölbreytt og heildstæð.

Merkilegt hvað Bubbi heldur þessum tjáningarháttum strangt aðskildum. Eftir að hafa náð góðu og meðvituðu valdi á rími, hrynjandi og ljóðstöfum hefðbundins skáldskapar þá beitir hann þessum tækjum mjög sparlega í „frjálsum“ kveðskap. Nokkuð sem mörg íslensk nútímaskáld þó nota umtalsvert, og ljóðkeranum Bubba er örugglega vel kunnugt um.

Ég er ekkert sérstaklega gefinn fyrir frjáls ljóð af þessu tagi. Álít mig amk ekki hafa neitt sérstakt vit á þeim eða afgerandi smekk um hvað er gott og hvað ekki. verð þó að segja að hér úir og grúir af flottum myndum: „Skáld og róni / flottasti kokteill allra tíma / fyrir þá sem þurfa ekki / að drekka hann“ (Ljóð handa stelpu), Þurr kuldinn þérar engan á þessum stað / þar sem myrkrið grúfir yfir sjö mánuði á ári / og meira að segja bækurnar neita að þýðast mann“ (Vertíð)

Við vorum að tala um raddpresens Bubba áðan. Hér ber hann mikla ábyrgð og kemst að mestu vel frá. Stundum er smá „sjitt, ég er að lesa ljóð, best að vanda sig“ tónn í flutningnum, meira gaman þegar attitjúdið fylgir efninu. Og einhvernvegin finnst manni líka þeir textar betri. Kannski eru þeir það. Hvort kemur á undan, eggið, hænan, túlkunin, hið túlkaða? Svona fara ljóð með mann.

Bestu ljóð: Ströndin, Vekjum ekki nágrannann, Algjört frelsi


ALLAR ÁTTIR (1996)

Ansi rökrétt framhald 3 heima, þykir mér. Meira rokk kannski, meira GCD í DNA-inu, en annars í sama anda. Mjög fínt bara.  

Ég man að mér fannst á sínum tíma alveg á mörkunum af Bubba að senda frá sér lag um snjóflóðin á Flateyri, nokkrum mánuðum eftir atburðina. Hver djöfullinn heldur þú að þú sért, man ég eftir að hafa hugsað, eða eitthvað jafnvel enn óprenthæfara. Varð samt strax þá að viðurkenna að „Með vindinum kemur kvíðinn“ var aldeilis glæsilegt sem slíkt, og núna hljómar þessi skáldlega, en tiltölulega hlutlausa lýsing atburða frábærlega. Það sem stuðar helst, nú og þá, er línan „Svo fór hann að hvessa úr annarri átt“. Einmitt af því hvað hún er snjöll, finnst manni hún draga úr alvarleikanum. Hnyttnin er óviðeigandi. En áhrifarík. Núna er auðveldara að meðtaka það. (þeim sem vilja lesa meira um skoðanir mínar á sambúð ríms og dramatíkur er bent á ritgerðina „Nokkur orð um kynferðisofbeldi“ á Starafugl.is, þar sem söguljóð Shakespeares eru til umfjöllunar.)

Er „Sá sem gaf þér ljósið“ ekki örugglega fyrsta eindregna trúarljóðið/lagið frá Bubba? Það var nú svolítið WTF-móment á sínum tíma, en aftur: þetta eldist vel. Flott lag í Gúanóreggígallanum. Við eigum eftir að tala meira um þetta, en mér finnst Bubbi alveg þrusu-trúarskáld. Að það komi fram tveir sálmasmiðir í íslensku poppi á sama tíma, ólíkir en báðir framúrskarandi: eigum við að kalla það, tja, kraftaverk?

Ég er ekki eins skotinn í „málefnalögunum“. „Ég elska bækur“ og „Hvað er töff við að í snöru að hanga?“ finnst mér bæði vera eins og innlegg í auglýsingaherferðir. Málefnin að sönnu góð, en mig vantar skáldlega afstöðu og minni predikun til að taka mark á þessu. Samt flott lög, tónlistarlega er Allar áttir skotheld plata. 

Bestu lög: Með vindinum kemur kvíðinn, Þú ert ekki lengur.


TRÚIR ÞÚ Á ENGLA (1997)

„Menn segja að ég sé breyttur / og syngi um börnin og þig / Ég syng um það sem skiptir máli /aðeins fyrir mig.“

Þessi umsungna breyting er orðin nokkurra ára þegar hér er komið sögu og Trúir þú á engla er mjög í sama anda og tónheimi og síðustu 2–3 plötur með frumsömdum lögum. Hlutföllin milli innibuxnalaga og heimsóma eru örlítið mismunandi, en þetta er í grunninn sami kokteillinn.

 „Með þér“ hefur ekki orðið eins illa úti í viðureign við kaldhæðni og gárungaskap og fyrri einörð ástalag, og kannski er það þessvegna sem það virkar jafnvel betra. Í það minnsta jafngott og „Sem aldrei fyrr“.

Hér eru engin ádeilulög af því tagi sem ég var að væla yfir á Öllum áttum. Hér er spjótunum skotið í formi frásagna og mynda af fólki, aðallega um þá sem þurfa að búa við afleiðingar fíknar, annaðhvort sinnar eigin eða foreldra sinna. Þetta er miklu betra svona. 

Trúir þú á engla er samt ekki endilega innhverfari plata en Allar áttir og 3 heimar. Til marks um það að Bubbi er að tala við fleiri en sjálfan sig er til að mynda að þó hér sé mikið sungið um eyðingarmátt fíknar þá er það hin „alþýðlega“ útgáfa hennar, drykkjuskapurinn sem er undir.  Titillagið, „Syndir feðranna“, „Bóndinn í blokkinni“, „Barnablús“, „Einn dag í einu“. 

Englar svífa mjög yfir vötnum hér. Eða svífa ekki; þeir eru villtir, ófleygir eða í það minnsta tregir til. 

Bestu lög: Trúir þú á engla og Barnablús


ARFUR (1998)

Ég er dálítið rómantískur, allavega nostalgískur Bubbahlustandi, svo Arfur er mér talsvert að skapi. Tilraunakennd kassagítarplata (fyrri hlutinn) bassi og slagverkinu bætt mjög hóflega og einstaklega smekklega við þegar líður á. Fyrsta akústíska stúdíóplata Bubba í fimmtán ár. Pælið í því! Og Fingraför var bara hálf þannig.

Arfur er held ég ekki hátt skrifuð í katalógnum samt og það er ekki alveg skrítið. Hún er t.d. næstum alveg hittaralaus. Eina lagið sem fékk spilun, það ég best man er Jesús Pétur Kiljan… sem er nú ekki meðal betri lögum Bubba að mínu mati og ekki eitt af þeim betri á Arfi. 


En hittarar blekkja. Þetta er solid plata með nokkrum toppum. „Í nafni frjálshyggju og frelsis“ er t.d. besta pólitíska rantið frá okkar manni í nokkur ár. „Vandi er um að spá“ er frábært lag. Hún hefði alveg þolað að vera svona fjórum lögum styttri, þau eru ekki öll að vinna fyrir húsaleigunni. En hólísjitt hvað er gaman að hlusta á Bubba spila á kassagítar án þess að Christian Falk sé að þekja hann með einhverjum hljóðtilraunum eða Tommi T að henda trommusettum niður stiga. Blessuð sé engu að síður minning þeirra.

Tilaunamennska og „sölupunktur“ Arfs er síðan grúsk og úrvinnsla Bubba á þulum og vikivökum. Ekkert rosalega fyrirferðamikill punktur, en alltaf forvitnilegur og oftast frjór. Sérstaklega í upphafslaginu, „Láttu sem þú sofir“ og í „Vandi er um að spá“. Já og í „Jesús Pétri …“ 

Vikivakabragarhættir, með sínu flókna og merkingarbæra endurtekningarmynstri, og lausbeislun þulanna er frábær fyrirmynd fyrir popptexta. Ég veit ekki hvort Bubbi hélt eitthvað áfram með þessa pælingu, en það er hellings eldsneyti á tanknum eftir þessa prufukeyrslu.

Það er umtalsverð stílbreidd á Arfi þrátt fyrir naumhyggjulega hljóðfæraskipanina og vikivakapælingarnar. Eftirhreytur frá Kúbuferðinni dúkka upp, tremoló í „Hvert fer fólkið“, Dylanismi í „Er því best“ og svo rokkarar í innifötunum eins og „Myndir frá hinni hlið lífsins“.

Bestu lög: Láttu sem þú sofir og Vandi er um að spá


MÉR LÍKAR ÞAÐ (1999)

Aukaefni með safnpakkanum Sögur 1980–1990 var þessi EP sem Bubbi vann með tveimur af stóru rokkknöfnum þessa tíma. 

Ensími er hljómsveit sem ég þekki ekki haus né sporð á. Utan það að ég veit að hún nýtur óskoraðrar virðingar og einlægrar ástar hjá mörgum minna smekkvísistu vina. Upphafslagið hér er gert með þeim, „Það þarf að mynd’ana“ heitir það og er ógeðslega flott mynd af vampýrueðli módelbransans. Hefði líka getað heitið „Er nauðsynlegt að mynd’ana?“. Ásamt með Botnleðjulaginu „Ríkramannaþulu“ eftirminnilegasta lagið, en þulan sýnir vel hvað var mikið frjómagn í fornkvæðapælingunum á síðustu plötu. Annars er flest gott um þetta sýnishorn að segja. Aldrei heyrt neitt af þessu fyrr.

Bestu lög: Það þarf að mynd’ana, Ríkramannaþula




BELLMAN (2000)

Ögrandi söngverkefni sem var mjög gaman að heyra Bubba glíma við. Sumt utan þægindarammans: Raddsviðskörfur og tækniþrautir sem hans eigin lög leggja eðlilega ekki á hann. Ljóðstíll sem stendur honum ekki alltaf nærri (nær þó en í upphafi auðvitað). Flutningshefð sem kallar á leikræn tilþrif. 

Bubbi kemst langt með þetta allt, vel studdur af gítarvirtúósinum Guðmundi Péturssyni. Nær oftast bæði að vanda sig hæfilega og meina það sem Bellman segir. Hlustið t.d. á hann negla djúpu tónanna í upphafslaginu, „Lagður hjá rúmi Cajsu Lísu síðla kvöld eitt“. Eða bruna gegnum orðaþykknið í „Ansa mér móðir“. Og það er himinn og haf milli fiminnar sem hann sýnir við að glinglóa upp „Gamla Nóa“ og brotlendingarinnar með „Ég bið að heilsa“ tólf árum fyrr. 

Lög og ljóð þess sænska og þýðingar þeirra eru dásamlegt stöff. Þau eru líka næsta einstök í vestrænum tónlistararfi, er það ekki? Lög í „klassískum“ stíl, standa mjög nærri því sem á ensku eru kölluð „art song“ (Schubert og félagar) en hafa engu að síður verið afhent óskóluðum söngvurum til frjálsra afnota og túlkunar án þess að einhver hámenntuð elíta væli.

Og guði sé lof fyrir það. Persónulega finnst mér þessi einkaréttur sem sérþjálfuðum röddum hefur verið gefinn á „lieder“ safninu fráleitur, og þá líka bannhelgin á að hrófla við útsetningum og undirleik nema til hátíðabrigða. 

Væri til í Die Schöne Müllerin með Bubba og Gumma P. Ljóðin þýdd af Bibba og Sævari. Með munnhörpu ad lib. 

Í alvöru. Hlustið á hið Mozartíska „Út hjá haga“ og sannfærist. 

Bestu lög: Ansa mér móðir og Ulla, mín Ulla


NÝBÚINN (2001)

Ókei, ég vissi EKKERT hvað þetta var. Enginn hittari sem hitti nógu vel til að ég myndi eftir honum. Og pínu fráhrindandi nafn – hljómaði eins og Bubbi í teika-umræðuna gírnum.

En nei. Þetta er nú bara helvíti gott. Fyrir það fyrsta: Titillagið er eins gott málefnalag og sum eru vandræðaleg. Alltaf gott trikk að gefa andskotum sínum orðið og láta þá kveða sig sjálfa í kútinn. Besta „svona lag“ frá Bubba um nokkurt skeið. „Alltaf einn“ er líka í efstu deild ógæfumannasöngva Bubba. Frábær texti og flott lag. Reyndar eru utangarðsmannasálmarnir á Nýbúanum hver öðrum betri. „Á hörðum stól“ er líka dúndurflott.

Ástarsöngurinn er með aðeins meira biti og kryddi en undanfarið: „Ég er sónninn i eyra þínu/eftir þú skellir á“. Og nafnið: „Þú mátt kalla það ást.“ Já og trúarsöngurinn er þarna líka, en það er ekki Guð sem sungið er um í „Hann er til“, heldur hinn. Þetta er svoleiðis plata.

Það er nefnilega málið, nokkuð sem ég hafði bara ekki frétt: þetta er rokkplata. Kannski svolítið generísk, en alveg einbeitt, engir útúrdúrar með stíltegundir. Og aldrei tilfinning fyrir að lögin hafi átt að vera eitthvað annað en þau urðu í meðförum bandsins sem fékk nafnið „Stríð og friður“ og gefur annan blæ en á undangengnum plötum, bæði samfellunni frá Lífið er ljúft til og með Trúir þú á engla, og útúrdúraplötunum með ljóðalestri og Bellman.

Bitastæðasta rokkplata Bubba eftir Das Kapital? Ég ætla að halda því fram, hef aldrei verið mikill GCD-maður.Vissulega eru hér engir hittarar, engir áberandi toppar. En allt sannfærandi. 

Bestu lög: Alltaf einn, Þú mátt kalla það ást


SÓL AÐ MORGNI (2002)

Jæja, þetta var stutt rokk og skemmtilegt. Það er bjartara og léttara yfir á ástar- og heimilissæluplötunni Sól að morgni en var á bölbæna- og einsemdarplötunni árið áður. Auðvitað endist hamingjan ekki inn að miðju geisladisksins samt. Þegar hann er hálfnaður fer umheimurinn að knýja á um að fá yfirhalningu, uns aftur rofar til og sólin rís í laginu sem væri titillagið ef það héti ekki „Kveðja“.

Það sem fyrst fangar athyglina við að renna Sól að morgni er melódísk andagift, sem er hér vel umfram Bubba-meðallag. Öll lögin hafa eitthvað við sig. Eitthvað sem maður hefur ekki heyrt áður. Meira að segja lögin sem eru ekki eins frábær og hin. Kannski síst generíski heimsósóminn í „Þar sem gemsarnir aldrei þagna“. En töff er það. Og það er eitthvað magnað við að helvíti skuli vera partur af heimsmynd trúaða-Bubba. Sem greinir hann rækilega frá öðrum sálmaskáldum nútímans.

Annað sem má gera að umræðuefni er bragarháttur sem kalla mætti Dylanhendu. Textar með stuttum viðlögum í rímsambandi við versin. Like a Rolling Stone og Desolation Row eru góð dæmi. Hér eru þrjú svona lög: „Guð er kona“ – sniðug hugmynd sem kallar á fleiri  erindi, þetta er jú DYLANhenda, „Fyrir löngu síðan“ – sem hljómar eins og Bob á Times They Are … skeiðinu og verðskuldar meiri ást frá þeim sem vilja sinn Bubba með ádeilu, og svo „Skjól hjá mér þú átt“, sem kallast auðvitað á við Shelter from the Storm, sem er svona lag líka.

Sól að morgni er frábært lagasafn, en textalega er hún líka framúrskarandi. Hversu brilljant ástarjátning er til dæmis þessi lína: „Og jörðin hún snýst um sólina / alveg eins og ég“? „Þá verður gaman að lifa“ er enn eitt innleggið í þorpslífssjúrnalinn hans Bubba og þar er heldur betur vel komist að orði.

Bubbi pródúserar sjálfur og það er allt organískt, og líka stundum snjallt. Smekklega (og sparlega) notað banjó fangaði athygli mína. Útsetningin á „Hún sefur“ er fersk og sérkennileg.

Og svo er það „Kveðja“, þar sem Bubbi fer „all-in“ í sálmahefðina, útsetningar-, kveðskapar- og lagasmíðalega. Það hefði svo auðveldlega getað endað með vandræðalegri skelfingu og því sætari er fullnaðarsigurinn. Þetta er frábært! Hallelúja!


Bestu lög. Kveðja, Fyrir löngu síðan


1000 KOSSA NÓTT (2003)

Það er meira rökkur og bölsýni í yrkisefnunum hér en árið áður, þó hún hefjist eins og sú fyrri á ást. Eða réttara sagt ástríðu. Ég var að kvarta yfir því fyrir nokkrum plötum síðan að þó Bubbi væri mikið ástarskáld væri erótík ekki hans heimavöllur. Jæja, titillagið er negla, ef það er rétta orðið. Sem það er.

Þegar því sleppir nær 1000 kossa nótt ekki sambærilegu flugi og fyrirrennarinn og systurplatan úr „fjölskyldulífsbálkinum“. Ekki lagasmíðalega, ekki texta- eða yrkisefnislega. Mikil áreynsla en skilar ekki nægum árangri til að fanga athygli og gleðja. Stríð og friður er reyndar alger monster hljómsveit, og það er margs að njóta í spilamennsku og útsetningum. En það er ekki nóg. 

Ég hef verið að bíða eftir að heyra framhald á þulu- og vikivakatilraununum af Arfi. Elliðaárþula á Sól að morgni var smá lífsmark og hér er „Fagur er fiskur í sjó“, kannski ekki mikil smíð í grunninn en allnokkuð skemmtilegt og ógeðslega flott útsetning.

Það er ekki mikið meira um þessa að segja.

Bestu lög: 1000 kossa nótt, Fagur er fiskur í sjó.


TVÍBURINN (2004)

Hér er breytt um stefnu svo um munar. Eftir tvær poppplötur er nóg komið af því í bili, og banjóið sem læddist í bakgrunninum á Sól að morgni sett í aðalhlutverkið, stutt af fiðlu, mandólíni, kontrabassa og gítar. Blúgrass.

Ég er ansi veikur fyrir þessum stíl, og Tvíburinn er mjög áheyrileg plata. Þó verður að segjast að hún er kannski aðeins of mikið að vanda sig, aðeins of púrítanísk. Og – sem er verra – dálítið þunglamaleg. Það vantar aðeins hröðu lögin, eða að hröðu lögin séu alveg nægilega létt á fæti. „Gömul frétt“ er dæmi, og þar hefði bassinn líka þurft að vera á öllum taktslögunum en ekki bara 2 og 4. Og ég sem var að enda við að kvarta yfir að hún væri of púrítanísk. Aldrei hægt að gera mér til hæfis!

Yrkisefni og ljóðstíll er bæði gamalkunnugt og óvænt. Hvað er langt síðan var engin ástarjátning á Bubbaplötu?! Tvíburinn er almennt frekar ópersónuleg plata. Hér eru t.d. nokkur trúarljóð, en af allt öðrum toga en fram að þessu: bænir, áköll og játningar víkja fyrir frásagnartextum um guðspjallaefni. Ekki síst úr hinu apókrífa Tómasarguðspjalli, sem kom út í Lærdómsriti nokkrum árum fyrr og grúskarabubbi hefur auðvitað fundið. Næsta einstakt í íslensku poppi. 

Á Tvíburanum gerist það líka oftar en ég minnist annarsstaðar að hrynjandi texta og lags fer ekki saman. Held að það sé mögulega stundum vísvitandi stílbragð, allavega í „Þetta mælti hann“, en hljómar stundum eins og kæruleysi.

Lagasmíðastíll Bubba smellpassar við blágresið. Hlustið t.d. á upphafslagið „Íslenskir sjómenn (In memoriam)“ og „Maðurinn er einn“ og segið mér að þið hafið ekki heyrt þessi lög áður. Svona næstum. Heilt yfir er aðeins of mikið af óeftirminnilegum lögum hér og aðeins of fá sem fanga athyglina að ráði. Upphafslagið og „Dó dó og Dumma“ eru afbragð og gaman hvað þululjóðastíllinn rímar fallega við hillbilly-fílinginn. 

Sennilega finnst mér samt mest um „Lífið er erfitt“. Langt síðan hinn myrki  ljóðabubbi (Mescalínbubbi?) hefur komist í textavélina. Í samhengi við biblíuljóðin verður þetta nokkuð spámannlegt. „Sólin er á hvolfi í tjörninni rauðu / eigra um í garðinum hinir lifandi dauðu.“ Bara flott.

Ekki frábær plata, aðeins of lágt hlutfall af af lögum sem heilla, en stíllinn passar á efnið og er með eindæmum sjarmerandi sem slíkur. 

Bestu lög: Dó dó og dumma, Lífið er erfitt.


ÁST / Í 6 SKREFA FJARLÆGÐ FRÁ PARADÍS (2005)

Ævisögulegt samhengi „skilnaðartvennunnar“ er auðvitað vel þekkt. Erfitt og ástæðulaust að gleyma því. Það kemur samt dálítið á óvart hvernig það birtist og hvernig ekki.

Í fyrsta lagi: ef einhver hlustaði á Tvíburann þegar hún kom út og hugsaði „bíddu, hvar eru allir ástarsöngvarnir?!“ þá kom svarið árið eftir: „Hér eru þeir. Allir með tölu.“ Stór hluti textanna á þessum plötumbeinskeyttar ástarjátningar sem hefðu ekkert stungið í stúf á undanförnum plötum. Gætu sem best verið ortar „meðan allt lék í lyndi“. Munurinn sá helst hvað þessar eru, ja, beinskeyttar. Hér er lítil sem engin orðsnilld, eða ljóðræn myndvísi. Allt nakið og bókstaflegt, og þegar reynt er við ljóðrænu er hún aldrei eins brilljant og stundum áður. Hinn gráðugi neytandi gæti alveg orðið fyrir vonbrigðum, en þetta er reyndar ekki gert fyrir hann. 

Annað – og kannski það sem sló mig sterkast – er söngurinn. Það er allt annar blær á röddinni hér en nokkurntíman fyrr. Viðkvæmnislegur, en þó aðallega „hlutlaus“. Eins og Bubbi sé að reyna að lifa sig ekki inn í það sem hann er að syngja. Það sé hreinlega of erfitt. Ef maður hlustaði á þetta án þess að þekkja samhengið væri þetta sennilega mest skrítið og frekar ófullnægjandi. En verður eitt það áhrifaríkasta við plötuna. 


Eins mótsagnakennt og það er þá er þetta sterkast þegar splittið milli túlkunar og efnis er breiðast. Hlustið t.d. á upphafslag 6 skrefa. Eða „Nafnið þitt“, þetta glæsilega retro-popplag, sem kallar á sprengikraft í söng sem er ekki í boði. Þegar söngstíllinn kemur saman við beinskeytni textanna fær hlustandinn stundum á tilfinninguna að að þetta sé barnaplata. Hlustið t.d. á „Stjórna og stýra.“ Eða „Get bara ekki“. Þvílíkt og annað eins!

Útsetningarnar og hljómurinn er svo annað sem vinnur með okkur. Útsetningalega afturhvarf til gamla stílsins, þar sem kassagítarlög eru óverdöbbuð (eða ekki) og/eða varfærnislega endurmótuð í poppform. Svakalega flott og hlýtt popp hjá Bubba og Barða þegar best tekst til.

Þessi dulbúni tveggja diska pakki er örugglega nákvæmlega eins og hann þurfti að vera. Frá sjónarhóli hlustandans, sérstaklega núna svona löngu síðar, er alveg hægt að óska sér að hann væri af normal lengd, og sem því nemur betri sem það áhrifa- og heiðríka popp sem hann er, þrátt fyrir angistina sem allssstaðar skín í gegn.

Bestu lög (höfum þau fjögur): Ástin mín, Nafnið þitt, Fallegur dagur, Get bara ekki


LÖGIN MÍN (2006)

Bubbi, Naked. Ég er hlynntur svona plötum. Að listamenn taki lögin úr sparigallanum og láti á þau reyna eins og þau (mögulega) urðu til. Sérstaklega listamenn eins og Bubbi. Ég tala ekki um á afmælisári. (Lesið samt endilega þá afbragðsbók Juliet, Naked eftir Nick Hornby, þar sem eru m.a. færð ágæt rök fyrir að svona æfingar séu ekki sjálfkrafa af hinu góða.)

Auðvitað reynast sum þeirra vera eins og tískumódel; fyrst og fremst góð í að láta föt lúkka vel. Kúbuplötulögin nokkuð augljós dæmi. Önnur búa yfir yndisþokka sem nýtur sín ekki síður þegar ballfötin eru látin flakka, t.d. „Aldrei fór ég suður“ og „Kveðja“. Sum jafnvel með áhugaverðar vörtur eða húðflúr á óvæntum stöðum. „Kyrrlátt kvöld við fjörðinn“ kemur t.d. á óvart, sem og „Segulstöðvarblús“.

Og svo er þetta auðvitað ekkert svona einfalt, eða réttara: stundum gengur þessi fatalíking ekkert upp. Stundum er ekki verið að afhjúpa neitt heldur þvert á móti að setja lög í nýjan búning, sem passar misvel. Versta hugmyndin klárlega að þröngva „Afgan“ í 4/4 þegar 6/8 var svona augljóslega rétt frá upphafi.

Það er líka almennur tendens til að hægja þau niður. Það er tekur stundum á taugarnar. „Systir minna auðmýktu bræðra“ var pínu að gera út af við mig, þó fallegt sé í sjálfu sér. Þunglamalegur áslátturinn gerir „Agnesi og Friðrik“ heldur enga greiða. 3.45 verða 6.38. Lífið er of stutt.

Nýja lagið, „Grafir og bein“ er ævikvæði eins og þeir ortu gömlu mennirnir, Jón lærði og fleiri. Þrusuflott.


Heilt yfir eru samt aðeins of fá lög sem njóta sín á þessu balli. Ég er samt meira hissa en vonsvikinn.

Bestu lög: Grafir og bein, Kyrrlátt kvöld við fjörðinn


06.06.06 (2006)

Afmælistónleikaupptakan er (eðlilega) á Spotify undir nafni Bubba, sem gefur mér afsökun til að tala smá um hljómsveitirnar og lögin sem þar er að finna þó ég sé þannig séð bara að fjalla um sólóferilinn.

Fyrst og fremst er þetta alveg geggjaður konsert. Allir í stuði, ekki síst afmælisdrengurinn. Eitt dæmi: Ég var eitthvað að væla yfir hægaganginum á endurútgáfuplötunni „Lögin mín“. Það er ekki einhlítt. Tökum „Talað við gluggann“ hér sem gagndæmi. 50% lengra en á Konu og algerlega magnað hverja einustu sekúndu.

Gott líka að hafa ný lög með. Annars væri þetta ekki Bubbakonsert. Þau eru svosem engin stórtíðindi, hvað þá innan um bestoffið sem annars er borið fram, en allsekki til neinnar skammar heldur.

Já, hljómsveitirnar. GCD hefur aldrei gert mikið fyrir mig og óstjórnlegur sjarmi Rúnars Júl skilar sér ekki í gegnum hljóðrásina eina. Sérstaklega ekki við hliðina á manninum með stærsta raddpresens íslenskrar rokksögu. Stríð og friður og MX-21 eru mjög fínar, en vissulega upplifast þær ekki sem hljómsveitir sem Bubbi var „Í“ heldur hljómsveitir að spila undir og á bak við. „Skyttan“ er ansi slappt í þessari skriðþungalausu útsetningu, sem er synd. Og aftur er boðið upp á „Afgan“ í fjórskiptum takti! Skárra en á Lögin mín en óþolandi engu að síður.

Das Kapital er snilld, og „Blindsker“ og „Leyndarmál frægðarinnar“ ómótstæðileg tvenna. Rothögg.

Endursamkoma Utangarðsmanna er auðvitað stóru tíðindin fyrir mína kynslóð. Ég sá þá aldrei á sínum tíma. Munaði litlu einu sinni, en rútan bilaði og þeir komust ekki til Húsavíkur fyrir háttatíma. Lagavalið er pínu vonbrigði. Þrjú Ísbjarnarblúslög og tvö af Geislavirkum. Hefði alveg verið til í fleiri hljómsveitarlög. Á móti kemur að „Jón pönkari“, „Ísbjarnarblús“ og „Hrognin“ eru geggjuð hjá bandinu. Hröð (næstum of), þétt og miskunnarlaus. Settið er smá pönksloppí líka, sem betur fer.

Egósettið er síðan nákvæmlega eins og það á að vera. Minni útgeislun en meiri mússík. Lögin velja sig sjálf. Sérlega gaman að horfa á Magga spila „Mescalín“ (já ég horfði á myndina). Bubbi líka minna í sviðsdýrsgírnum, nema í „Stórum strákum“ þar sem hann fer skemmtilega út af sporinu. Það er: „...segir að ég sé í tveggja ára meðferð...“ sem þú ert að gleyma. Bara gaman. Og svo Fjöllin hafa vakað. Sem er fullkomið.



BUBBI OG STÓRSVEIT REYKJAVÍKUR (2008)

Önnur tónleikaplata. Og konseptplata eins og segir í nafninu. Þetta sá maður ekki fyrir. En hví ekki? 

Djöfull er stórsveitasándið ógeðslega töff þegar vel tekst til. Hjóðheimurinn, hljómaveröldin. Og „ógeðslega töff“ er vitaskuld næstum annað nafn Bubba, reyndar sérstaklega á því skeiði ferilsins þegar þetta sammensúríum hefði alls ekki komið til greina. 

Þetta er mikið til bísna gott. Ekki síst af því að lagavalið er skynsamlegt. Stýrist að stórum hluta af því hvaða lög munu lifa af aðgerðina. Hér eru sautján lög og aðeins fimm þeirra eru líka á 060606. Nokkur eru svo sannarlega sjaldheyrð: „Sandurinn í glasinu“, sem er sérlega glæsilegt, „Hve þungt er yfir bænum“, „Ísaðar gellur“ af Arfi og „Jarðarför Bjössa“ af Öllum áttum. Allt fín lög sem verðskulda viðrun.

Mest gaman auðvitað þegar eitthvað kemur á óvart. Þegar gamlir smellir pluma sig í smókingnum. „Lög og regla“ er dæmi, „Ísbjarnarblús“ annað. Stundum er Þórir Baldursson of kurteis við viðteknar útsetningar. Hefði ekki mátt þjarma meira að „Fjöllin hefa vakað“? Þarf gítaráslátturinn að skilgreina stemminguna í „Rómeó og Júlíu“? Sumt gengur bara ekki, sérstaklega ekki alltof bissí og hálf-smekklaus meðferð á „Aldrei fór ég suður“. 

En það sem er skemmtilegt er helvíti skemmtilegt. Fáheyrðu lögin flest eins og kvígur að vori. Jájá, hví ekki?

Bestu lög: Sandurinn í glasinu, Þorskacharleston


FJÓRIR NAGLAR (2008)

Það þóttu víst nokkur tíðindi þegar þessi kom út. Fyrsta nýjulagaplata Bubba í langan tíma. Alveg heil þrjú ár. Ansi hreint viðburða- og útgáfurík ár auðvitað, og svo eru þrjú ár enginn andskotans tími. Nema á skeiðklukku Bubba Morthens og aðdáenda hans.

Þetta er ekkert byltingarverk, en smá blæbrigðatjún eins og oftast. Stríð og friður er bandið en Pétur Ben kemur með nýjabrum í formi retrórokksánds og sennilega einhvers af þessum ótrúlega töffaralegu tremolo-gítarlínum sem einkenna naglana. 

Þetta er nefnlegi fjári töff plata. Vel hugsuð, góður ballans milli heildarsvips og fjölbreytni, sem spannar allt frá Dylanballöðufíling („Þegar tíminn er liðinn“) yfir í Marc Ribot/Tom Waits grodda („Þú ert ekki staur“) með viðkomu yfir í smekklegu Souli („Myndbrot“, „Fjórir naglar“).

„Myndbrot“ heyrðist í fyrsta sinn sem eitt af frumfluttu lögunum á afmælistónleikunum, hét þá „Engill í rólu“. Algerlega komið á heimavöll í svölum sálargallanum. Veit ekki alveg með sönginn samt. Nokkur lög á Fjórum nöglum eru sungin í frígírnum sem Bubbi var í á skilnaðartvennunni og ég skildi þar sem einhverskonar sjálfsvarnarviðbragð manns í krísu. En hér dúkkar þessi daufi stíll upp í nokkrum lögum og er ekki alltaf viðeigandi, til dæmis hér. Titillagið er miklu nær lagi, ef svo má segja.

Ég tengi sterkast við groddalegustu lögin, „Græna húsið“ „Femma“ og „Þú ert ekki staur“. Þar eru líka tilþrifamestu og myndrænustu textarnir. Það síðastnefnda hefði reyndar þurft að syngjast meira í TW-anda til að springa almennilega út. Lokalagið er líka helvíti flott, með Venus as a boy-legum strengjum og Nights in White Satin-legri laglínu.

Fín plata. 

Bestu lög: Femmi, Fótatak þitt


ÉG TRÚI Á ÞIG (2011)

Aftur líða þrjú ár milli platna. Þú veist, eins og hjá venjulegu síðmiðaldra fólki. 

„Ég er bara venjulegur rokkari samt og hlusta hvorki á soul né jass." Sagði Bubbi í viðtali við Vikuna í kringum útkomu Plágunnar og endalok Utangarðsmanna 1981. Rétt að geta þess að spurningin var um hvernig hann fílaði Any Trouble (einhver hér sem man eftir þeim?).

Hvað sem því líður þá hefur sálarfílingur skotið upp kollinum af og til á sólaplötunum. Kannski fyrst og frægast í „Sumar konur“ á 3 heimum. Hér er Soul-þráðurinn spunninn áfram, í beinu framhaldi af Fjórum nöglum og brassinu á stórsveitarplötunni þar á undan.

Þetta er n.b. ekki upprifjun til að „standa Bubba að mótsögnum“ eða eitthvað svoleiðis. Auðvitað var hann ekkert á kafi í Motown þegar Utangarðsmenn voru upp á sitt besta. Hef enga trú á að hann hafi verið annað en snarheiðarlegur í þessu viðtali, þar sem hann talar um að hann sé andvígur brennivíni, hlynntur grasreykingum og því að skjóta Reagan og Bresnéf, ef þeir væru ekki hvorteðer dauðvona vegna aldurs. En einhversstaðar hefur Soul runnið honum í merg og blóð. Sem betur fer.

Aftur að plötunni. Hún er helvíti skemmtileg. Sannfærandi (næstum kitsí) í stílnum, með blæstri, hammondi, wahwahgítar og bakraddastúlkum. Bubbi líka hættur að syngja með hlutlausu röddinni og kominn í viðeigandi gír sem hentar honum gríðarvel. Aftur nýir pródúsentar, kallaðir Benzin-bræður og ég þekki hvorki haus né sporð á. 

Það er bjart yfir þessari plötu. Aftur er ástin og fjölskyldulífið vegsamað. Bubbi byrjar hana á flottum dúett með dóttur sinni og svo er „Sól“ heldur betur verðug viðbót við ástarjátningarsöngvasafnið. Dásamlega beinskeytt og hreinræktað. Stelpulagið „París“ er líka alveg yndislegt. Og úr því maður er með allar Motowngræjurnar þá er auðvitað einboðið að henda í eitt gott Ska, sem notar sama vopnabúnað. „Slappaðu af“ er þrusulag. Hitt pólitíska lagið, „Biðraðir og bomsur“ sömuleiðis. Meira að segja heimsósóminn iðar af kæti á þessari plötu.

Bestu lög: Sól, París


ÞORPIÐ (2012)

Ok. Nú er hann dottinn í enn eitt stuðið. Höskuldur: Plata á ári að jafnaði fram til dagsins í dag. 

Á Þorpinu eru sömu pródúsentar og á Souldýrkendaplötunni árið áður, en önnur ella og miklu meiri súld. Reyndar smá soul líka, t.d. í „19. ágúst“, en líka gælt við allskonar aðrar stíltegundir á popp- og rokk-rófinu. Ekki síst tilbrigði við folk- og kántrískotið rokk, enda voru víst sessjónir The Band í Stóra Bleik innblástur nálgunarinnar. 

Þegar búið er að þýða svoleiðis æfingar á íslensku er ekki laust við að gamlir skotspænir Bubba komi upp í hugann. „Það er kona að blogga mig“ er t.d. þrælskemmtilegt lag í Lónlíblúbojs-fíling og texti sem hefði ekki stungið í stúf í minnisbók höfuðskálds skallapoppsins, Þorsteins Eggertssonar. What’s not to love?

Eitt sem stendur upp úr er „Óskin“. Dæmigert gítarpikklag af gamla skólanum, reyndar eitthvert flottasta gítarpikklag ferilsins, og er þá allnokkuð sagt. Gullfallegt alveg. Allrabest samt lokalagið, „Fjórtán öskur á þykkt“. Sennilega uppáhalds neyslubölslagið mitt, bæði lag og texti. Og þá er ég ekkert að einskorða mig við Bubba.

Þorpið er óneitanlega misgóð plata. Mér finnst orðið dálítið lágt í bensíntanki lagabálksins um hnignun sjávarþorpanna. Ekkert til að skammast sín fyrir svosem, Það eru nokkrir áratugir frá „Kyrrlátt kvöld við fjörðinn“ (já ég veit að það er Tollalag, en samt). „Vonir og þrár“ líklega best. Og „Bankagæla“ bendir eindregið til þess að „Þingmannagæla“ hafi ekki verið tilviljun og Bubbi eigi ekki að skíra lög „-gæla“ neitt.

Er þetta sú Bubbaplata þar sem píanó er í stærsta hlutverkinu? Minnir það. Kemur mjög skemmtilega út, t.d. í upphafslaginu fallega, „Óttanum“. Væri ég til í plötu með Bubba með eintómu píanói? Heldur betur! (sjá Schubert-óskalagabeiðnina í Bellman-færslunni).

Bestu lög: Óskin, Fjórtán öskur á þykkt


ÆSKU MINNAR JÓL (2013)

Þessari hafði ég kviðið. Mögulega alveg frá því að hún kom út, eða jafnvel frá því hún kom ekki út. Það var svosem óþarfi, þetta er alveg meinlaust. En vissulega afar lítinn innblástur að finna. Það er mjög erfitt að taka þessa plötu alvarlega, bæði sem jólaplötu og sem Bubbaplötu. Tilfinningin er svolítið að það gildi um hann sjálfan, ekki síður en viðtakandann.

Förum yfir tékklistann.

JÓLAANDI: Erfitt að átta sig á því í febrúar. Reikna ekki með að hún flæmi einhverja af gömlu góðu og nauðsynlegu plöturnar af spillistanum í desember. Og þá í beinu framhaldi:

SÝRÓP: Umtalsvert. 

NOSTALGÍA: Frekar lítil, sem kemur ekki á óvart. Yrkisefnin eru mikið til sótt í fjölskyldulífið og -sæluna hér og nú.

BJÖLLUR: já smá. Annars er hljóðheimurinn svipaður og á síðustu plötu. Píanó og tremológítar. Að viðbættum smá strengjum. Já og klarinetti, sem er ferskt og utan klisju.

SLEÐABJÖLLUR: Ekki svo ég yrði þess var. Mögulega mjöög aftarlega í mixinu á stöku stað, sem er þar sem þær eiga heima.

GUÐ: Næstum alveg fjarverandi, sem verður að teljast óvænt, þegar afkastamesta trúarskáld íslensku dægurtónlistarsenunnar fjallar um fæðingarhátíð frelsarans.

TÖKULÖG: Eitt – ágæt útgáfa af Hátíð í bæ. Hefðu mín vegna mátt vera fleiri, sérstaklega þar sem efnið hefur ekki beinlínis hleypt söngvaskáldinu kapp í kinn. Að því sögðu:

ACROSS THE UNIVERSE: Nei, sem betur fer. Eins og það væri nú gaman að heyra Bubba taka snúning á Bítlunum þá væri uppjólun á þessum vandmeðfarna hugleiðslusálmi neðarlega á óskalistanum.

Bestu lög: Hátíð í bæ, Gleym mér ei (ég er alger pikksökker, greinilega)


STORMURINN (2013)

Það hljómar eins og skammhrós en er ekki þannig meint: Stormurinn er plata eins maður gerir ráð fyrir, eða ætlast til, að rosknir rokkarar eins og Bubbi Morthens geri. Innan þægindarammans (sem er ekki síður þægindarammi aðdáandanna en listamannsins) en algerlega skotheld sem slík. Nýjabrumið felst í tvíki og tvisti á kunnugleg viðfangsefni, stíltegundir og lagasmíðafarvegi. Sem mögulega er ósýnilegt öðrum en þeim sem hafa fylgt brautinni með ídólinu. 

Það hef ég reyndar ekki gert, nema á þessari hraðferð undanfarnar vikur, svo kannski er þetta bara bull í mér. En allvega: Stormurinn er sérkennilega mögnuð plata. Og það á hátt sem síðasta vel heppnaða plata, nýjabrumsplatan Ég trúi á þig, var ekki. 

Þessi er öll á heimavelli. Kassagítarplata, spar- og smekklega skreytt með bassa, rafgítar, nikku og öðru smálegu þegar mikið liggur við. Blúsar, ballöður, söguljóð, pikk og strömm að hætti hússins. Heimsósómi og fíkn í fókus, ástin síður.

Sem dæmi um hversu rótgróin hún er má taka titillagið. Í Vikuviðtalinu sem ég vitnaði í, í færslunni um Soul-plötuna í gær, er Bubbi spurður um hvað sé á prjónunum. Hann nefnir Geirfinnsmálið, segist vera að grúska í þessari syndafallssögu íslensks nútíma og reiknar með að eitthvað komi tónlistarlega út úr því. Þetta var árið 1981, og hér höfum við afraksturinn árið 2013. Sem er að vonum glæsilegur, og líka nokkurn vegin eins og hefði mátt búast við ef hann hefði ratað á Fingraför. Sem er frábært. Lengsta stúdíóplötulag Bubba, sem vonlegt er.

Það er margt helvíti gott hér, þó engir séu hittararnir og varla neitt sem maður mun humma (og kannski ekki einu sinni muna). „Afmælið“ er til dæmis vellukkaður Bubbahúmor, sem gerist nú ekki alltaf þegar hann vill vera sniðugur. „Brostu“ geggjuð instrúmental fingraæfing. Svo er þarna ellikvæði eins og gömlu mennirnir gerðu, ekki eins brilljant og Páll Ólafsson, vissulega, en það er bara einn Páll Ólafsson. „Best er bara að þegja“ er svakalegt og „Hoggið í stein“ er epískt bæði að lengd, drama og myrku innihaldi. 

Bestu lög: Afmælið, Best er bara að þegja


BUBBI & DIMMA (2015) / MINNISMERKI (2016)

Fyrir duttlunga Spotify, eða útgefanda, eða örlaganna eru tónleikaplöturnar sem Bubbi gerði með Dimmu flokkaðar með sólóplötunum svo þær fá umsagnir líka. Ætla að spyrða þær saman samt. Enda endurgerðir á gömlu efni.

Mín kynslóð hugsar held ég sjálkrafa um Bubba sem rokkara í grunninn, sem fyrir röð (óheppilegra?) tilviljana hefur gert slatta af annarslags mússík. Samt hefur hreinræktað rokk af harðari gerðinni varla verið meira en íhlaupaverk á ferlinum. Utangarðsmenn í nokkra mánuði, frumútgáfan af Egó sem tók ekkert upp nema eitt lag í Rokk í Reykjavík, Das Kapital. 

Samstarf Bubba við Dimmu gæti bent til þess að stundum finnist honum þetta smá sjálfum. Svo blandast vafalaust inn í þetta vonbrigðin með að aldrei hafi náð að gefa nógu sannfærandi mynd af Utangarðsmönnum á upptökum. Að mörgu leyti voru Dimma frábær kostur til að láta reyna á þetta. Vel spilandi maskína, praktísk og prófessjónal. En pínu karakterlaus og kannski aðeins of spítukallaleg að þungarokkssið til að allt efnið leiki í höndunum á þeim. Hlustið á innganginn að „Í spegli Helgu“ ef þið viljið vita um hvað ég er að tala.

En samt. Óumdeilanlegt og galvaníserað rokkband. „Eins og að vera í svefnpoka inni í þotuhreyfli“ segir Bubbi á einum stað milli laga. Hann kann að láta það heita eitthvað. Þetta er enda þrælskemmtilegt á köflum, dálítið andlaust á öðrum. Það þrífast ekki öll börnin á þessu fósturheimili, en önnur blómstra í fítonskraftinum.

Heilt yfir finnst mér Minnismerki skemmtilegri. Sennilegra af því þar fá fleiri lög alvöru yfirhalningu, Egó í sinni þekktustu mynd var aldrei svona hljómsveit, svo það er smá nýjabrum hér. 

Eitt hliðarspor: Það rifjast upp við að hlusta á Minnismerki hvað Egó-tíminn er mikill blómatími í textagerð Bubba. Hér tók hann sér á köflum ljóðrænt frelsi frá bæði raunveruleika og pólitískri baráttu og snýr svo endurnærður til baka. 

Bestu lög – Bubbi & Dimma: Viska Einsteins (merkilegt nokk) og It’s a Shame (Með fullri virðingu fyrir Bubba þá hefur hin síðari ár komið í ljós að þetta er uppáhaldslagið mitt á Geislavirkum, og mögulega á Bubba & Dimmu líka. Stebbi Jak í stuði) 

Bestu lög – Minnismerki: Minnismerki (sem hefur aldrei snert neinar tónlistartaugar í mér fyrr) og Breyttir tímar (Rokk í Reykjavíkútgáfan. Svona hljómaði það í Félagsheimilinu á Húsavík á fyrsta Egótúrnum með Jóa Mótorhead á trommunum. Sjitt hvað stúdíóplötuútgáfan var mikið sjokk. Get hana ekki enn).



18 KONUR (2015)

Þó þetta sé auðvitað konseptverk, og þannig séð algerlega sín eigin skepna: nafnið, bandið, yrkisefnin, þá er er 18 konur tónlistarlega í nánu talsambandi við síðustu stúdíóplötur Bubba. Tremológítar, þjóðlagarokkfílingur, nikka. Mögulega aðeins skref í pönkátt frá Þorpinu. Arfleifð Benzínbræðra með smá innblæstri úr búningsherberginu með Dimmu, plús x-faktor kvennabandsins. Fínt bara.


Textarnir eru rosalega „in-your-face“ flestir, allavega þeir sem eru beint upp úr konseptinu. Virðing og allt það, en samt: Gráðugi hlustandinn vill fá eitthvað meira en staðfestingu á að Bubbi sé andvígur hefndarklámi, launamisrétti og drekkingum. Hann er samt alveg með þetta þegar hann vill það við hafa. „Það eru grafir í hjarta mínu“ er nú frekar flott lína úr „Flóttafólki“.

Athygli vekur að hér halda áfram hnútuköst í kirkjuna, sem fékk föst skot á Storminum og svo aftur hér, þar sem hún er gerð ábyrg fyrir Stóradómi, sem má vafalaust rífast um. Trúarskáld íslenska poppsins er enginn aðdáandi stofnunarinnar þó samband hans við Guð sé persónulegt og sterkt. Ég hef líka á tilfinninguna að kirkjunni hafi ekki tekist eða ekki viljað virkja Bubba í sína þágu. Kannski er hér einhver ávæningur skýringar á því.

Almennt er ég orðinn aðeins of mikill hrúðurkarl fyrir svona ómeðhöndlaðan boðskap, þó ég geti alveg heyrt að 18 konur sé ágætlega töff plata.

Bestu lög: Þarna flýgur ríka fólkið, Er ég þitt svar


TÚNGUMÁL (2017)

Nýr pródúsent kominn í brúna, en gerir það sama og gömlu pródúsentarnir gerðu, svo langt sem ég heyri. Hér er latínubít í aðahlutverki og búið að kveikja á hlýja tremolóeffektinum sem hefur litað flestar plötur svo langt sem ég man. 

Mér finnst Túngumál ekki spennandi plata. Þurfti að beita mig hörðu til að hlusta af athygli. Margnefnt óþol mitt fyrir „minjagripaverslunarstíl“ ræður þar mestu. Allt um það ég get alveg heyrt að þetta er aðlaðandi tónlist. hlý og mjúk, í andstöðu við (allavega suma) textana, sem eru sumir myrkir, aðrir beittir, og jafnvel bæði. 

Og nokkur lög fanga hugann umfram önnur. „Cohen blús“, „Bak við járnaðan himinn“, „Sól bros þín“. Og „Ég hef enga skoðun“, sem er glettilega sniðugt en samt marktækt manifesto (þó rangt sé). Og svo lokalagið, „Guð blessi Ísland“ sem er svakalegt. Nær að vera bæði órætt og afdráttarlaust. Tilfinningaþrungin hugleiðing um illsku heimsins, hrunið, heimsendi, guð og menn. 


Bestu lög: Guð blessi Ísland, Ég hef enga skoðun


REGNBOGANS STRÆTI (2019)

That’s more like it. Gimmikklaust popprokk. Einhver myndi kannski segja að hún sé sundurgerðarleg og þar með karakterlaus, en það er ekki rétt. Hún er með karakter. Hann heitir Bubbi Morthens. Það munar um minna. 

Þó Regnbogans stræti sé í flokki Bubbalegustu Bubbaplatnanna er hún er líka með aðeins öðrum blæ en undanfarnar plötur. Aðeins meira „mjóróma“, minna af mjúkum og þykkum gítar og bassa. Saxófónninn klemmdari og rámari og aftar í mixinu. Ekki eins hlýtt sánd, en engin bylting samt. Stundum er eins og þetta eigi að vera kassavön útgáfa af Tom Waits á Swordfishtrombones-tímanum. „Gamlárskvöld“ er ágætt dæmi, sérstaklega inngangurinn, fersk leið til að útsetja dæmigerða kassagítarballöðu, eða í það minnsta ferskur blær á gamalkunnugri reggíleiðinni. Ég kann þessu öllu ágætlega.

Fyrir utan að hún er ekki í neinum búningi þá er helsti styrkur Regnbogans umfram síðustu tvær að lagasmíðarnar eru meira grípandi og textarnir almennt í betra jafnvægi milli bits og ljóðrænu, þó topparnir á Túngumáli séu kannski hærri. Titillagið er t.d. aldeilis glæsileg Dylanhenda. Rokkararnir „Límdu saman heiminn minn“ og „Ást er allt sem þarf“ eru stórfínir sem slíkir og „Án þín“ væri fallegt þó englarödd Katrínar Halldóru kæmi þar hvergi nærri.

Bestu lög: Regnbogans stræti, Límdu saman heiminn minn.


SÚMM

Fyrirfram reiknaði ég með að þetta yrði þrautin þyngri frá og með ca. Nóttinni löngu (´89), þegar ég var svona nokkurnvegin hættur að fylgjast með. Hafði einhvernvegin á tilfinningunni að eftir það rynni þetta meira og minna út í einn einsleitan Bubbaflaum, með einstaka flúðum eins og kúbuplötu og bragfræðilúði, og stöku hittara.


Fyrirsjáanlega kom þetta meira og minna á óvart. Bæði var fjölbreytnin meiri en ég hélt, og ekki síður hitt: hvað það þreytti mig lítið þegar heildarsvipurinn trompaði nýjabrumið.

Þetta var líka svo miklu skemmtilegra en ég hélt. Svo mikil andagift, svo mikil sköpunarorka, svo stór presens. Svo mörg ný uppáhaldslög. 

Takk fyrir þessa tvo mánuði, Mr. Morthens. 




 



laugardagur, mars 08, 2014

Júdit strikes!

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna fjallar Biblíubloggarinn um hina frómu og handlögnu Júdít.


sunnudagur, mars 02, 2014

Tóbít or not Tóbít

Biblíulesarinn hefur sett upp gleraugun á ný og hyggst klára Apókrífu bækurnar á þessu ári. Fyrst verður fyrir okkur ævintýrið um Tóbít og fjölskyldu hans. Hér koma bæði fugladrit og fiskigall við sögu. Og skrattakollurinn Asmódeus.

sunnudagur, september 15, 2013

Gamla testamentið að baki!

Hef lokið við að lesa og skrifa um allar bækur hins Evangelísk-Lúterska gamlatestamentis.

Hér eru þeir Jónas, Míka, Nahúm og Habbakuk umskrifaðir

Og hér er síðasta spámannaferningin, Sefanía, Haggaí, Sakaría og Malakí.

Eftir stutt frí frá helgiritalestri mun ég svo einhenda mér í aukaefnið og „deleted scenes“ í Apókrífunni.


þriðjudagur, ágúst 27, 2013

Fjórir fyrstu smáspámennirnir

Hér er farið yfir það sem þeir Hósea, Jóel, Amos og Óbadía hafa að segja um Guð og menn.

fimmtudagur, ágúst 22, 2013

Daníel!

Í hverju bókasafni þarf að vera amk ein unglingabók þar sem klár og ráðagóður strákur og félagar hans komast í hann krappan en bjargast á hyggjuviti sínu og þolgæði. Í Biblíunni er  það Daníelsbók.

þriðjudagur, ágúst 13, 2013

Esekíel!

Sæfæ, galdrar, kynórar, S/M og arkitektúr. Andleg næring úr öllum fæðuflokkum í Spádómsbók Esekíels.