þriðjudagur, júlí 30, 2013

Ooog skemmta sér!


Gilbert Ryle hét maður, heimspekingur að mennt og eðlisfari. Eitt höfuðverka hans er bókin „On Thinking“ sem fjallar um hvað gaurinn í hinni frægu styttu „Hugsuðurinn“ eftir Rodin er eiginlega að gera.

Snilldarbragðið í vangaveltum Ryles er að átta sig á því að eitt svar við þeirri spurningu er allsendis ófullnægjandi: „Hann er að hugsa.“

Því hvað er það eiginlega?

Mögulega er hugsuðurinn að leysa stærðfræðiformúlur, kannski er hann að reyna að muna hvort það sé hreint eða óhreint í uppþvottavélinni, eða hvenær mamma hans á afmæli. Kannski er hann að velta fyrir sér hvort guð sé til, eða hvenær þessi myndhöggvari klári eiginlega verkið svo hann geti farið heim. Ryle hallast helst að því að hugsuðurinn sé að semja tækifærisræðu, ef ég man rétt.

Hann er að hugsa – en það er ekkert til sem heitir „bara að hugsa“. Það er yfirheiti yfir allskyns athæfi sem fram fer í hausnum á okkur. Eða puttunum ef því er að skipta. Einstein sagðist t.d. hugsa með blýantinum sínum.

Sögnin „að keyra“ lýtur sömu lögmálum. Maður situr við stýrið, stígur á bensíngjöfina, gefur stefnuljós (já!), skiptir um gír, bölvar vegarollunum. En í sögu samgangna hefur enginn „bara“ keyrt.

Sögnin „að skemmta sér“ er svona.

Í sögu mannkynsins hefur heldur aldrei nokkur maður „bara“ skemmt sér. Ég er ekki frá því að með því að átta sig á því megi skilja og jafnvel draga eitthvað úr glórulausu ofbeldi á útihátíðum.

Eistnaflug hefur skapað sér orðspor sem prúðasta bæjarhátíðin. Þar fer engum sögum af nauðgunum, varla nokkrum af ofbeldisárásum. Ég hef aldrei farið en þekkjandi mann og annan í metal- og pönkheimum þá yrði ég hissa ef þar er ekki sturtað allhressilega í sig, jafnvel púaðar einhverjar forboðnar sígarettur og hvaðveitmaður. Það væri mjög skrítið ef kveikiþráðurinn í þessum menningarkima reyndist í alvörunni eitthvað lengri og blautari en í landsmönnum yfirleitt.

Engin vandræði samt. Hvað er það?

Kannski vegna þess að menn eru EKKI komnir til að skemmta sér. Gestir Eistnaflugs eru komnir til að fara á tónleika. Til að hlusta á uppáhaldstónlistina sína. Til að njóta samfélags við sína líka.

Að hlusta – það verður ekki smættað í neitt.

Alvöru erindi, raunverulegur fókus á eitthvað sem er til. Ekki á  „skemmtun“, ekki á „stemmingu“, ekki á „fjör“.

Tónlist. Eitthvað sem er í alvörunni.

Ég efast um að þetta snúist um skipulag, hvað þá mannkosti. Þetta snýst um að til að skemmta sér þarf innihald. Vandræðin byrja almennt ekki fyrr en innihaldinu lýkur. Því meira innihald og því kjarnbetra sem það er, því hjartfólgnara sem það er þátttakendunum – því minni líkur á glóruleysi.

Því minni líkur á að blindfullir drullusokkar þurfi að fara að beita sínu einvíða ímyndunarafli til að finna eitthvað „sér til skemmtunar“ á kostnað annarra og orðspors viðkomandi hátíðar.


þriðjudagur, júlí 23, 2013

Orðskviðirnir, Predikarinn, Ljóðaljóðin

Hef vanrækt að vísa á biblíubloggið mitt hérna undanfarið. Þrjár bækur lesnar og skýrðar að hætti hússins, gjörðisvovel.

miðvikudagur, júlí 03, 2013

Og þá er það psaltarinn

Þrettán psálmgreiningar, gjörði svo vel.