þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Kontrabassaklarinett og falskt píanó

Ég ætla sosum ekki að leggja það í vana minn að plögga sinfótónleika hér á minni prívatsíðu, en nú get ég ekki bloggs bundist.

Tónleikarnir á fimmtudaginn verða rosalegir. Hæfileikabúntið Thomas Adés er frumlegt og frábært tónskáld og stjórnar tveimur verkum eftir sig, fiðlukonsertinum Concentric Paths og hinu ógurlega Asyla sem er einhverskonar sinfónía. Og svo tveimur verkum eftir sjálfan Ígor Stravinskíj. Annað þeirra er Sálmasinfónían sem er magnþrungið og dugar ekkert minna en báðir Hamrahlíðarkórarnir til að koma því skammlaust til skila.

Fyrir hljóðfæranördinn mig er þatta algert konfekt. Asyla er skrifuð fyrir vægast sagt sérviskulega samsetta hljómsveit. Fyrir utan hefðbundið dót eru þarna t.d. þrjú píanó, þar af eitt stillt kvarttóni of lágt, bassaflauta, bassaóbó og kontrabassaklarinett. Í slagverkinu gengur mikið á og m.a. lamið í poka fulla af hnífapörum og gongum dýft í vatn til að breyta tónhæðinni.

Já, og svo er þetta merkilega mögnuð mússík þrátt fyrir allt!

Allir í háskólabíó á fimmtudagskvöld með eyrun sperrt!

föstudagur, nóvember 23, 2007

Nýr bloggari

Gítarhetjan, lúsífermaðurinn, Reykjanesbæjarinn og erkitorgarinn Þráinn Maríus er farinn að blogga. Og það frá Grænlandi! Fagna því allar góðar vættir.

föstudagur, nóvember 16, 2007

Dagurinn

Viðbrögð við hátíðardagskrá Sjónvarpsins

Það er dagur íslenskrar tungu...
og það er bein útsending úr musteri Íslenskrar tungu, gegnt alþjóðahúsinu

Það er dagur íslenskrar tungu...
og ég skil ekki alveg hvenær hann breyttist í svona nakta sjálfshátíð ráðandi stéttar á Íslandi. Kannski hefur hann alltaf verið svona.

Það er dagur íslenskrar tungu...
Og það er aðkallandi að finna gott íslenskt orð yfir það sem á ensku er kallað establishment, orð sem er kannski ekki alveg jafn gegnsætt og þau sem við notum núna.

Það er dagur íslenskrar tungu...
og The establishment er nógu smekklaus til að finnast Matthías Johannessen vera góður kostur í ræðumann kvöldsins. Lesa sennilega ekki Þráinn Bertelsson.

Það er dagur íslenskrar tungu...
og söngvararnir nenna ekki að læra textann sinn. Nema náttúrulega kórarnir. Fólkið sem fær borgað lætur það eiga sig.

Það er dagur íslenskrar tungu...
Og Gunnar Eyjólfsson er óumdeildur meistari í að fara með bundið mál. Hrein unun. Sumt af hinu er þvi miður alger raun. Leikarar eiga það illu heilli til að finnast ljóð ekki nógu þrungin sjálf og fara að reyna að berja í brestina. En Jónas er Mozart íslenskrar ljóðagerðar. Ekki á færi nema barna og algerra meistara. Gunnar getur þetta. Hinir ættu að einbeita sér að Einari Ben og Davíð. Svoleiðis leðurbarkar þola hvaða rúnk sem er.

Það er dagur íslenskrar tungu...
og það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli hvort Gunnar Guðbjörnsson er með texta eða ekki. Söngkennararnir hans hafa kennt honum að afskræma málið þannig að það skilur ekki nokkur maður. Verður pínlega augljóst þegar þeir Bergþór syngja tvísöng í Íslandfarsældar.

Það er dagur íslenskrar tungu...
og einhverjum hefur þótt það snilldarhugmynd að rappa Gunnarshólma. Verst að Hundur í óskilum er búinn að gera það svo sláandi mikið betur en Benedikt Erlingssyni tekst hér, þó hann sé í hettuúlpu.

Það er dagur íslenskrar tungu...
og lagið hans Atla Heimis við Álfareiðina er snilld. Stundum virka tækifærislög Atla eins og hálf-kæruleysisleg, en þetta er meistaralegt og frelsar ljóðið umsvifalaust úr viðjum hins gamla lags og gefur því líf á ný.

Það er dagur íslenskrar tungu...
og það hefur svo sannarlega verið vandaverk að velja verðlaunahafa Jónasar að þessu sinni. Á sjálfu 200 ára afmælinu. Og hversvegna þá ekki að velja einhvern alveg seif. Hinn ástsæla fyrrverandibiskup. Skítt með það þó hann sé augljóslega enginn yfirburðamaður í heimi íslenskunnar þó hann hafi talað málið, skrifað á því og þýtt á það merkileg áróðursrit sinnar kreddu. Og verið elskulegur maður.

Tvö nöfn:

Helgi Hálfdanarson

Vigdís Finnbogadóttir

Nei, höfum þetta innan fjölskyldunnar. Innan The establishment.

Þýðing óskast.

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Og mæta! Og fásér!

Ljótu hálfvitarnir

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

Skoska rökvillan

Dreymdi í nótt að ég væri að tromma á tónleikum með Rolling Stones.

Þegar þeim lauk, með æsilegum flutningi á Satisfaction þar sem við Keith grúvuðum ógurlega, pakkaði ég saman og hélt beint niður á Grandrokk þar sem Hálfvitarnir voru að stilla upp fyrir konsert.

verða tónleikar með hálfvitunum á Grandrokk á laugardaginn. Annar hluti draumsins rætist sumsé.

Þýðir það að ég eigi að stúta Charlie Watts?