miðvikudagur, apríl 26, 2006

Viðbrögð við systrum

Lárus Villhjálmsson skrifarleikdóm um Systur á Leiklist.is.

Og hér bloggar hrifinn gestur.

Drífasigso!

Veit einhver um sportbar i Moskvu?

Sævar spáði 2-1 fyrir Arsenal. Niðurstaðan var öllu æsilegri: 0-0 í leik þar sem andstæðingarnir óðu í færum, Henry einbeitti sér að yglibrúninni en lét fótboltann að mestu eiga sig og taugaveiklaðir nýliðar í vörninni eins og Sol Campbell héldu aðdáendum á sætisbrúnunum.

En herr Lehman varði víti og allt er gott.

Horfði á leikinn með Ármanni og Bibba. Ekki neitt sérlega leiðinlegt. Snæbjörn átti komment kvöldsins, þegar við veltum fyrir okkur þeirri sérvisku Villarealmanna að hafa Guillermo Franco með númerið 99 á bakinu.

"Hann er eins og hann sé á útsölu í bónus"

:)

Arsenal er sumsé komið í úrslit í Meistaradeildinni. Varríus verður mátulega kominn til höfuðborgar Rússaveldis 17. maí.

Týpískt.

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Let's plug the sisters!

Tvær sýningar eftir á Systrum. Á laugardaginn kemur og sunnudaginn 7. maí. Þetta er ekki til að missa af því. Og ef þið trúið mér ekki þá skuluð þið hlusta á Þorgerði

Svo eru líka sérstök kjarakjör í boði - almennur miði er á 1.500 kall og systur borga bara fyrir eina - hinar fá frítt.

Miðapantanir hér.

mánudagur, apríl 24, 2006

Skilgreining

Leiðinlegasta og tilgangslausasta sjónvarpsefni í heimi:

Nei, Formúlan er ekki rétt svar.

Rétt svar er "Stjórnmálamenn í kosningagír að bregðast við niðurstöðum skoðanakannana".

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Hálfleikur

Íkorninn sem lengi vel hljóp um völlinn átti stórleik.

Ljungberg er mjög sennilega kjarnorkuknúinn og þarafleiðandi heppinn að vera hlutlaus Svíi en ekki Írani.

Lehman finnst ekki mjög leiðinlegt að verja aukaspyrnur frá Riquelme og nýtur þess að stilla fjölda manna í varnarveggnum í hóf.

Og lýsendum leiksins finnst ógurlega sniðugt að tala í sífellu um að dómari leiksins sé áhugaleikari.

Svolítið óheppnir, þar sem dómarastarfið er að sjálfsögðu hjáverkadæmi. Allir knattspyrnudómarar sýsla við aðra hluti milli þessara 90 mínútna á viku sem þeir blása í flautu og "skamma menn á táknmáli" eins og meistari Frosti syngur.

Eru þeir þá ekki áhugadómarar?

Nú vita þessir höfuðglópar ekkert um það hversu hátíðlega hr. Konrad Plautz tekur hitt áhugamálið sitt. Kannski er hann enn flottari leikari en dómari. Kannski er honum strítt á dómarastússinu í Leikdeild Umf. Linz, eða hvar sem hann stússar.

Kannski ættu þeir bara að halda sig við að blaðra um það sem þeir (ku) hafa vit á.

Allaveg Logi Ólafsson - er maðurinn annars ekki áhugafótboltalýsandi?

1-0 - Toure - frábært.

Páskamenning

Fyrir utan frum- og aðrasýningu á Systrum sem fóru að mínu hlutlausa mati nokkuð vel fram var páskahelginni varið í djúpslökun. Ein lítil fermingarveisla og tvær rispur í bílskúrstiltekt voru eina aktívítetið.

Þess á milli var lesið og glápt. Segir nú af því:

Macbeth
Upptaka þessi af rómaðri uppfærslu Royal Shakespeare Company á sláturleik Shakespeares er búin að bíða nokkur ár í hillum vorum, en var loxins stungið í tækið á föstudaginn langa. Bísna flott bara, sérstaklega aðalleikararnir, þau Anthony Sher og Harriet Walter. Aðrir langt frá því að vera sannfærandi, sérstaklega óvenju óeftirminnilegur Macduff. Líður dálítið fyrir ömurlegan hljómburð í gýmaldinu þar sem upptakan fór fram, en stemmingin þar fer langleiðina með að bæta það upp. Jafnast í heildina ekki á við snilldaruppfærslu Trevor Nunn með McKellen og Dench, en mun betri en Polanskibíómyndin með Jon Finch og Fransescu Annis. Í minningunni eru Nicol Williamson og Jane Lapotaire dálítið flott í illræmdri heildarútgáfu BBC sennilega á pari við þessa.

Spartacus
Gamaldags stórmynd, smört, stútfull af stórleikurum og fráleitum díalóg og með vægast sagt klunnalegum og fókuslausum söguþræði. Ágæt skemmtun semsagt, en laaangdregið og fjarri því að ég nennti að horfa á lokabardagann. Baðsenan með Laurence Olivier og Tony Curtis mikil hómóerótísk snilld. Meistari Ármann Jakobsson birtir díalóginn úr senunni á bloggi sínu. Því er svo við sögu senunnar að bæta að samkvæmt kvikmyndahandbók Maltins þá var hún fjarlægð úr myndinni áður en hún var sýnd, en skeytt inn í hana aftur löngu síðar. Þá var hljóðrásin ónýt eða týnd og Anthony Hopkins fékk að döbba sör Larry í talinu um siðferði ostru- og sniglaáts. Hefur vafalaust ekki leiðst það, enda meistari leiktúlkun á siðferðilegum hliðum mataræðis.

Kóralína
Falleg lítil barnabók eftir Neil Gaiman sem er skemmtilegur fantasíuhöfundur. Lítil afskipt stúlka villist inn í vægast sagt spúkí handanheim. Frumleg, spennandi og óvenjuleg bók. Lárviðarskáld Varríusar þýðir bundið mál af venjubundinni snilld. Lausamálsþýðandinn hefði að ósekju mátt vanda sig betur, t.d. með því að hlífa ungum lesendum við "AM og PM" ruglinu í tímatali útlendinga, og að greina nokkrar alkunnar Shakespeare-tilvitnanir og skila þeim í viðteknu formi. Góð saga samt.

Bridget Jones: The Edge of Reason
Myndin er eins og aðalpersónan: fyndin og miklu þynnri en hún heldur.

Fó & Franka hans
Er að klára vel skrifaða og afar fróðlega ævisögu Nóbelstrúðsins og konu hans. Fo og Rame eru svona lið sem maður hélt að maður vissi fullt um, en vissi mest lítið. Mjög litríkt líf- og listhlaup eins og gefur að skilja, og ítalskt samfélag á áttunda áratugnum hefur verið vægast sagt svakalegt. Uppáhaldskaflar: viðbrögð samfélagsins við "guðlastinu" í Misterio Buffo - mjög kunnugleg - og þegar Franca tilkynnir í beinni útsendingu í vinsælum spjallþætti að hún sé skilin við karlinn, og var eiginlega ekki búin að ákveða það sjálf fyrr en hún heyrði sig segja það. Dario er í Amsterdam og fréttir þetta ekki fyrr en daginn eftir þegar hann les blöðin. Góður farsi.

Og svo náttúrulega þessi hugvekjandi skilgreining:
The Rames were professionals ... Art did not figure in their outlook


Hvað trúarleg æten varðar þá fór lítið fyrir þeim fyrir utan fyrrnefnda unglingablessun. En þegar ég sneri aftur til vinnu varð þetta ágæta blogg á vegi mínum.

Og núna síðdegis verður síðasti evrópuleikurinn á Highbury. Og maður er spenntur, oseisei...

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Plögg

Og þá er komið að því að frumsýna Systur. Generáll í kvöld, frumsýning annaðkvöld. Er harla glaður með útkomuna og spenntur að sjá og heyra hvernig þetta gengur í áhorfendur.

Það verða bara sex sýningar svo það þýðir ekkert að draga þetta. Drífa sig að panta miða á Hugleiksvefnum eða í síma 551 2525.

mánudagur, apríl 10, 2006

Blindsker

Að sjálfsögðu var horft á heimildarmyndina um Leiðtoga Unglingsára Minna í gærkveldi. Ágæt mynd sosum, svolítið eins og extra langur og óvenju efnisríkur Sjálfstætt fólk-þáttur án slepjulegrar nærveru Jóns Ársæls. Og atriðið þar sem Bogi Ág. ruglaðist á Tolla og Bubba var svo vond hugmynd að það fór langt með að rústa myndinni.

Og svo er hann náttúrulega barn síns tíma. Gerður á hamingjutíma söguhetjunnar með "Domestic Bliss" sem fókuspúnkt. Ofuráherslan á dópneyslu fortíðarinnar og unað edrúsins nokkuð yfirþyrmandi.

Og vissulega vekur Bubbi stundum upp í huga manns klisjuna um að lykillinn að velgengni í sjóbissness sé að feika einlægni.

Ákvað samt að trúa honum þegar hann lýsti því hvernig hann sneri baki við eigin meiki í Svíþjóð af því honum fannst svo leiðinlegt að syngja á ensku. Bara of væmið til að hægt sé að trúa því að þetta hafi bara verið afsökun á slöku gengi.

Ofsalega er til vandræðalega lítið myndefni af Utangarðsmönnum. Sýnir bara hvað samfélagið - og tæknin - hefur breyst mikið - ef svona fenómen kæmi fram í dag yrði það coverað 24/7 og þætti mörgum nóg um. En að eiga ekkert efni með þessu tímamótabandi á tónleikum er ótrúlegt og óþolandi. Ekkert nema þetta vandræðalega atriði úr áramótaskaupinu þegar leikarar voru í verkfalli og Utangarðsmenn mæmuðu Poppstjörnuna. Já og eitthvað álíka sterílt stöff af 45rpm. Og svo endurkoman.

Kannski samt bara gott - goðsögnin magnast auðvitað.

Og ætli Das Kapital sé ekki barasta hápunkturinn?

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Eyrun sperrt

Að lesa bloggið hennar Tótu Víólu er góð skemmtun. Ekki síst þegar hún vísar manni á stórkostlegar síður eins og þessa þangað sem fólk sendir vísdóm sem það verður vitni að á götum New York borgar.

Unaðslegt barasta.

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Do you add songs to everything?

Þannig spurði furðulostinn (og mögulega pínulítið hneykslaður) amerískur blaðamaður eftir að hafa séð Fáfnismenn. Nú ber svo við að tveir gagnrýnendur víkja að því meðfram dómum sínum um Átta konur að eitt af sérkennum íslensks leikhúss sé að þar sé sífellt verið að bresta í söng. Og tónninn að auki eins og þetta sé nú frekar hallærislegt einkenni.

María K. er svolítið óheppin þegar hún nefnir Shakespearesýningar sem dæmi, og þykir greinilega frekar heimóttarlegt af okkur að troða sönglögum inn í þau. Lausleg upprifjun í huganum bendir til að þau leikrit Shakespeares þar sem enginn söngljóð er að finna séu einhversstaðar á bilinu 5 til 7. Hinsvegar eru að mér sýnist engin söngkvæði í handriti Elfride Jelinek að Virkjuninni svo nefnt sé nafn af handahófi, en nokkrum slíkum bætt í verkið af aðstandendum sýningar Þjóðleikhússins á því. Sem betur fer, leyfi ég mér að segja. Og myndi einhver nenna að horfa á leikrit Brechts ef ekki væri fyrir tónlistina?

Það er samt sannleikskorn í þessu. Það er rík hefð fyrir söng í íslensku leikhúsi. Ég ætti að vita það. Sú hefð er með sterkasta móti í Hugleik. Sem betur fer, leyfi ég mér að segja. Það virðist líka vera álit þeirra útlendinga sem hafa haft af okkur að segja.

Eftir því sem ég kemst næst er lítil sem engin hefð fyrir að nota söng eða aðra "live" tónlist í hinum framúrskarandi leiklistarlöndum fyrir botni eystrasalts. Þau horfa enda á okkur í forundran og aðdáun og skilja ekkert hvernig okkur dettur annað eins í hug og að hræra saman rokki og klisjuklassík í Sálum jónanna, auka dramatíkina með a cappella gerviþjóðlögum í Undir hamrinum eða skopstæla óperur í Bíbí og blakan.

þetta er okkar hefð. Hvernig væri að rækta hana frekar en láta eins og hún sé vandræðalegt afsprengi heimóttarskapar og nesjamennsku? William og Bertolt verða allavega kátir.

Eða með orðum franska gúrúsins Jean Cocteau:

What the public criticizes in you, cultivate. It is you.