sunnudagur, mars 13, 2011

day 27 - a song that you wish you could play

Haust/vorvísur

Kindur jarma, bóndans ból
búning tekur nýjan.
Vindur næðir, sjaldan sól
Sendir geisla hlýjan.

Sævar Sigurgeirsson

Sléttubönd eru einhver snúnasta og skemmtilegasta bragþraut sem við eigum. Ferskeytla sem lýtur öllum venjulegum lögmálum svoleiðis kveðskapar og að auki þarf hún að ganga upp í hvorri röðinni sem orðin eru lesin. Og þá fyrst eru sléttubönd góð þegar merkingin snýst við um leið og orðaröðin. Þessi gera það, og eru þar að auki ekkert knosuð eins og svona afreksíþróttakveðskapur verður oft. Það er vegna þess að Sævar er einn besti núlifandi hagyrðingur Íslendinga, og er búinn að vera það síðan í menntaskóla, þegar hann setti þetta saman að gamni sínu, sennilega þegar hann átti að vera að læra efnafræði. Ég var bísna slunginn í efnafræði, en treysti mér ekki í sléttubönd. Sævar segir sjálfur að boðskapurinn sé sá að kindur jarmi allt árið. Vel gert!
Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Drengurinn er snillingur!

Kveðja,
Guðmundur Brynjólfsson

8:48 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim