sunnudagur, nóvember 27, 2005

Það besta...

Jóladiskur dr. Tótu, Það besta við jólin kom mér sosum ekki mikið á óvart. Langflest lögin hef ég heyrt, mörg þeirra hef ég átt þátt í að frumflytja og kynni mín af höfundi og aðalsöngvara gerðu það að verkum að nýju lögin voru kunnugleg líka.

En sennilega á hann eftir að lyfta augabrúnum vandalausra. Eða allavega þeirra úr þeim flokk sem kunna að meta frábæra söngtexta, áheyrileg lög og óvænta vinkla á næstklisjulegasta yrkisefni alheimsins (á eftir ástinni náttúrulega).

Loksins er búið að semja lofsöngva um jólahald nútímaíslendingsins. Pínulítið háðska, dálítið skítaglottandi, en alltaf elskulega samt. Trikk sem Hugleikur hefur kennt höfundinum, eða leyst úr læðingi allavega.

Eldhús þar sem fjölskyldan kyrjar "Það besta við jólin er að éta" með allri sinni ógleðivekjandi upptalningu á matarvenjum aðventunnar er hamingjusamt eldhús. Og örvæntingarfullur eiginmaður sem eigrar hálfdrukkinn um Smáralindina á Þorláksmessu gerði margt vitlausara í leit sinni að jólagjöf fyrir sína stássjómfrú en að raula "Melior, Melior, Melior, stattuupp stattuupp stattuupp stattuupp - Nirfill, kirfill, tyrfill axi vaxin klundurjól" fyrir munni sér. Þá verða kringumstæðurnar í það minnsta það næst-súrrealískasta í nánasta umhverfi hans.

Þetta er drullugóður diskur. Útsetningarnar eru flottar, hljómurinn hlýr og fallegur. Flutningur meira og minna lýtalaus. Mér finnst Tóta njóta sín best í rólegu lögunum, Jólaskraut er í augnablikinu í mestu uppáhaldi. Kórinn þykir mér óþarflega penn í sínu hlutverki. En kórlögin eru mögnuð og spái ég því að eftir svo sem tvö ár verði ekki hægt að fara svo á aðventutónleika að kórinn klikki ekki út með Grýlukvæði eða Seinheppnum sveinum sem "Showstopping" uppklöppunarlagi. Dúndurlög og brilljant textar.

Það besta við jólin í hvern pakka, fyrir þessi klundurjól. Það allra besta er náttúrulega að koma á Jólaævintýrið og kaupa hann þar á góðum prís af höfundinum sjálfum.

1 Ummæli:

Blogger Þorbjörn sagði...

Fékk eintak í dag, sent sérstaklega með altsólista austur á land. Dúndurfínn diskur. Ég fékk mitt fyrsta jólastemningarfix í dag.

10:13 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim