sunnudagur, desember 04, 2005

Okkar menn

Heyrði loxins í hljómsveitinni Hraun í gærkveldi. Það hefur lengi staðið til, enda meirihluti sveitarinnar farinn að sprella með Hugleik. Og í gærkvöldi stormaði bróðurpartur Jólaævintýrisfólx eftir sýningu á Rósenberg að hlýða á drengina.

Það var ljómandi skemmtilegt. Ekki þarf að koma á óvart að spilagleði sé höfuðeinkenni sveitar sem inniheldur Hjalta Jóngeir og Loft, en spilagleðin ein og sér dugir ekki svo þeir eru líka þéttir, góðir spilarar og ekki síður raddarar. Þeir byrjuðu á frumsömdu efni sem var flott, en tóku síðan til við pöbbastuðmússík sem þeir gera svo sannarlega að sinni, t.d. með brilljant útfærðri reggae-útsetningu á Child in Time. Önnur lög voru flutt "streit", og þá undantekningalaust drulluvel, og mikið gladdi mig að heyra þá spila eitt af uppáhaldslögum Varríusar, sem ég og Sváfnir, félagi minn í hljómsveitinni Free Country þýddum byrjuninna á viðlaginu svona:

Taktu lóðin af Fanneyju!

Fyrir mig var svo opinberun kvöldsins að heyra í söngvaranum Svavari, sem margir sem ég þekki þekkja, en ég hafði hvorki heyrt né séð fyrr en í gær. Frábær söngvari drengurinn, gríðarlega innlifaður og flinkur, og meinar alltaf það sem hann er að syngja. Idoldeild Varríusar vill sjá hann áfram.

Undir leik hljómsveitarinnar spunnust skemmtilegar umræður millum okkar leikhússrottna um þann sið (sumra) mússíkanta að spila og syngja með lokuð augun. Þetta er vitaskuld barið miskunnarlaust úr fólki um leið og það gerir sig líklegt til að leika á sviði, og verður dálítið spaugilegt að sjá fyrir fólk eins og mig sem fer nánast aldrei á tónleika en er alltaf í leikhúsi.

Á tímabili stóðu/sátu sumsé fimm fullfrískir kallar fyrir framan okkur á Rósenberg og rembdust við að miðla okkur lögum og ljóðum allir með harðlokuð augun! Helvíti fyndið, sem var áreiðanlega ekki ætlunin, öðru nær. Og að sjálfsögðu toppaði svo hinn óborganlegi bassameistariLoftur grínið með því að seilast í vasa sinn, sækja sígarettupakka, fiska upp eina og kveikja í, spilandi á bassann og með skjáina harðlokaða allan tímann!

Hraun: gott band.

1 Ummæli:

Blogger Smútn sagði...

Taktu lóðin af Fanneyju
taktu lóðin gratís...
(man ekki meir)

Ég fer að þínum ráðum og helli mér í Pullmann við fyrsta tækifæri.

Með Free-country kveðju

9:06 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim