þriðjudagur, febrúar 14, 2012

Glötuð tónlist

– skýrsla um ferli

„Do you add music to EVERYTHING“ spurði forviða amerískur leiklistarfræðingur fyrir mörgum árum eftir að hafa séð eina af sýningum Hugleiks. Stutta svarið er: „Nei“. Langa svarið er kannski, „Nei, en leikfélag sem byggir tilveru sína á að rækta og nýta styrkleika hópsins á öllum sviðum hlýtur að nota tónlist þegar innanborðs eru kraftar á því sviði. Og tónlist er kúl. Yankee go home.“

Það var alltaf ljóst að tónlist yrði einn af meginþráðunum í Hinum glataða. Þegar viðfangsefnið lá fyrir – dæmisögur Nýja testamentisins - fóru hugmyndirnar í gang. Það fór nú allt í marga hringi, en sum elementin eru þó frá fyrstu tíð.

Þar á meðal er hugmyndin um að blanda saman frumsaminni og „fundinni“ tónlist. Í fyrstu var það bundið við að róta í trúarlegri tónlist aldanna, en það átti eftir að breytast og útvíkkast.

Það sem eftir stendur af þeirri hugmynd er sálmurinn í upphafi og endi sýningarinnar, nr. 139a, Nú til hvíldar halla’ eg mér, höfundur ókunnur, sagður frá 15. öld í Sálmasöngsbókinni. Hulda B. Hákonardóttir á heiðurinn af að finna hann. Við hjónin eyddum einum morgni við slaghörpuna, sem hún kann að spila á en ekki ég, við að skoða sálma. Ég var orðinn sáttur nokkrum blaðsíðum fyrr en Hulda þrjóskaðist við og fann þennan fallega gimstein sem minnir skemmtilega á þjóðlagið alkunna um kveðjuna til stúlkunnar á bæjarhátíðinni í Scarborough. Er Scarborough Fair fyrsta óskalagið? Líklega.

Óskabyrjun semsagt.

En afram með þróunina. Á tímabili langaði mig að hafa smá hljómsveit – að minnsta kosti tríó að viðbættu því sem leikhópurinn gæti spilað á. Og ekki bara hljómsveit – mig langaði í blásarahljómsveit og var þá ekki síst að hugsa um e.k. Klezmer-fíling. Fljótlega varð sú hugmynd samt ópraktísk, enda blásarar Hugleiks forfallaðir af ýmsum ástæðum. Um sama leyti fannst síðan sá einfaldi útgangspunktur sem varð að lokum byggt á.

Raddir.

Tónlistin yrði semsagt að langmestu leyti sungin – a cappella eða með mjög mínímalískum undirleik. Á tímabili var pælingin jafnvel að tvískipta leikhópnum skýrt í leikhóp og kór, en góðu heilli féllum við frá því og byggðum hópinn upp sem nokkuð jafnvígan á leik og söng, dekkandi allar raddir.

Og enn var lifandi hugmyndin um að nota bæði frumsamda og lánaða tónlist. Það varð úr, minnst af henni reyndar af trúarlegum toga, kannski ekkert nema fyrrnefndur sálmur, og svo má kannski nefna Like-lög Madonnu: Virgin og Prayer, sem týndi sonurinn og Babýlonshóran syngja í búðkaupi ríka skítapakksins (Jú, þetta er úr biblíunni).

Tónlistarnálgunin í Þeim glataða kallast óneitanlega á við tvær af fyrri Hugleikssýningum. Í Ég sé ekki Munin (2000) datt ég niður á að semja einfalda en sviðs-effektíva (að mér finnst) A cappella tónlist. 2-3 raddir þar sem 1-2 þeirra syngja oftast e-k þrástef. Ég var svo hrifinn af þessum stíl að ég samdi á endanum lög við öll erindi Hávamála sem komu við sögu í sýningunni. Verkið var frumflutt í heild sinni í Þjóðleikhúskjallaranum af kammerkórnum Hjárómi. Og svo var það Undir hamrinum (2003) þar sem sami still var allsráðandi, eða því sem næst. Þegar ég hugsa um það þá er uphafssöngurinn í Jólaævintýri Hugleiks (2005) í sömu fjölskyldu, þó þar væri reyndar undirleikur.

En þetta var nú út úr dúr.

Skýrasta dæmið um þessa aðferð í Þeim glataða er sennilega markaðstorgssöngurinn. þar búa karlaraddir til bassalínuna á orðinu „Babýlon“ meðan kvenraddirnar flytja texta lagsins og mála þannig mynd af þessum markaði þar sem týndi sonurinn glutrar frá sér föðurarfinum í vafasamar merkjaflíkur, kjass frá gleðikonu og annað fánýti. Þetta er frekar skemmtileg leið til að nota á leiksviði finnst mér. Sá glataði verður örugglega ekki síðasta skiptið sem svona lög koma frá mér.

Til að syngja leikhópinn saman í upphafi ákvað ég að nota keðjusöngva. Fljótlegt að læra og auðvelt að leika sér með. Fyrir nokkrum árum eignaðist ég lítið kver með keðjusöngvum sem ungverska tónskáldið Lajos Bardos tók saman og samdi að talsverðum hluta. Við enduðum á að nota að ég held þrjá af þessum söngvum í sýningunni, þó bara einn þeirra í keðjumynd og jafnvel hann fékk á sig frumsamda sjálfstæða bassalínu. Það er söngur kindanna, þar sem fjárhirðarnir syngja nafnakall meðan ærnar jarma keðjuna. Sjálfur Franz Schubert lagði til lagið sem við notuðum til að útmála ferðalag sonarins. Textinn er eftir mig, en hey, Schubert var nú m.a. frægur fyrir að vera ekki nema í meðallagi smekkvís á skáld til að tónsetja.

Enn annar keðjusöngur sem var notaður í verkinu er einn sá frægasti – hinn forn-enski Sumer is icumen in – mögulega elsta pólífóníska lag heimsins (handritið er frá 1225 – enginn veit hvað lagið er gamalt), sem varð að undirleik undir langa þögla senu um sambúð glataða sonarins og babýlonshórunnar. Reyndar var hann að mestu leyti ekki sunginn heldur leikinn á fiðlu, eða tónefnið úr honum notað í fiðluundirleik senunnar. Elísabet Inda Ragnarsdóttir þróaði þá hljóðmynd og fleiri af mikilli smekkvísi og hugkvæmni. Hún notaði að mestu tónefni úr sönglögum sýningarinnar, en bætti líka ýmsu við.
Ofan á keðjusönginn um sumarkomuna bætti ég svo tveimur sjálfstæðum melódíum fyrir skötuhjúin , sem hljómuðu líka saman og fæ út fimmraddaðan kór þegar best lætur. Ekkert að því.

Indra spilar á fiðlu já, og svolítið á ukulele, því eins og allir vita verður að að vera ukulele í biblíutengdum leiksýningum á Íslandi. Spyrjið bara Jesú litla. Leikhópurinn grípur í Diggeridú, symbal, tambúrínu og trommur – og svo er skemmtari í Madonnulögunum. Nema hvað?

Enn eitt lag sem við prófuðum svona nánast sem æfingu en var síðan bara aðeins of flott til að nota það ekki var Quand je bois du vin clairet, Tourdion-dans eftir Anonymus gamla frá 16. öld. Ég vona að íslenski textasmiðurinn geri ekki veður út af því en við notuðum á endanum íslenska söngtextann hans, enda lagið sungið í heimkomuveislu sonarins glataða og textinn hin fínasta drykkjuvísa. Við fundum því miður enga skemmtilega mússík um hvað er gott að borða alikálfa.

Og þá var ekki annað eftir en að loka sýningunni með upphafssálminum. "Lífið það gengur í hringi" orti Bibbi og það eru orð að sönnu - stundum.

Það var gaman að vinna mússíkina í þessari sýningu. Kórinn frábær, flottar sólóraddir í boði, flinkur og útsjónarsamur fiðluleikari, kröfuharður og tónþyrstur leikstjóri og Eyjarslóðin er lúmskt gott sönghús.

Gott stöff – kalt mat.

Farið hingað til að panta miða.

1 Ummæli:

Blogger Sigga Lára sagði...

Hei! Góð hugmynd!
Nú hermi ég og skrifa pistil um textahliðina á vinnunni á mitt blogg! Útskýrum stykkið í hel, eins og Njörðum (eða Skjöldum) sæmir.

10:12 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim