Fagurt er á fjöllum núna
Ég hef vissulega ekki séð hverja einustu sýningu í Íslensku leikhúsi undanfarin áratug eða svo, en nógu margar til að fullyrða að sýningin í Norðurpólnum á Fjalla-Eyvindi sé nokkuð einstök. Aðallega vegna þess að þarna er farin róttæk endursköpunarleið að klassísku leikriti (sem er ekki alveg óþekkt) og heppnast fullkomlega (sem er öllu sjaldgæfara).
Að leikritið sé íslenskt er síðan það sem gerir þetta einstakt - eða svona næstum því.
Höfuðverk Jóhanns Sigurjónssonar, Eyvindur og Loftur, eru alveg sér á parti í leiklistarsögunni okkar. Við erum stundum að rembast við að tala um verk á borð við Skugga-Svein og Gullna Hliðið, jafnvel leikgerðir á Jóni Thoroddsen og Laxness, sem klassík. En það stenst enga skoðun, svo langt framar hinum standa meistarastykki Laxamýrardrengsins.
Og þegar búið er að vefja vaðmálið utan af Eyvindi, rífa skarsúðina, sprengja klettabeltin, veita fossinum í vask og kasta burtu öllu sem hefur með þjóðlífslýsingu að gera þá stendur eftir þessi líka magnaða baráttusaga fólks við náttúruöflin innan í sér - og utan. Listrænt miskunnarleysi Jóhanns er algert og lái honum hver sem vill að hafa síðar breytt endi verksins og látið strokuhest hneggja fyrir utan hreysi Eyvindar og Höllu þeim til bjargar.
Fórnarkostnaðurinn við svona róttækan niðurskurð og eimingu á aðalatriðunum er vitaskuld nokkur, og þá ekki síst þrívídd aukapersónanna (þeirra tveggja sem fá þó að vera með). Engu að síður voru Valdimar Örn Flygenring og Bjartur Guðmundsson mjög sannfærandi og áttu hvor um sig mergjaða senu móti konunni sem allt hverfist um í þessu verki.
Guðmundur Ingi Þorvaldsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir eru stórkostleg. Það er gaman að sjá Guðmund aftur, sá hann síðast vinna alltof lítið rómaðan leiksigur í Glæp gegn diskóinu og Eddu hefur maður verið helst til of gjarn á að setja í hólf týpugamanleikkvenna (tilraun til að þýða "character actress", sorrí). Ja, hún er allavega ekki þar lengur.
Sviðsetningin öll er ákaflega snjöll. Þó hún sé full af trixum og uppáfyndingum þá er hún á einhvern undraverðan hátt alveg laus við stæla. Vegna þess að allt þjónar sögunni og sambandi okkar við hana. Nýting á því fáa sem er til staðar er alltaf hárnákvæm og nytsöm til að byggja upp spennu, skapa andrúmsloft, segja söguna.
Mér varð stundum starsýnt á furðudýrið sem Arnes teiknar á gólfið utan um sig og minnti á myndir í gömlum bókum um skrímsli og furðuskepnur. Samt var hann að teikna sjálfan sig, svona eins og lína er dregin utan um lík í glæpamyndum. Og hugmyndin um að nota gamla útvarpsuppfærslu er innblásin.
Og svo hverfa öll trixin í hríðina í lokaþættinum sem er með því magnaðra sem ég hef séð í leikhúsi. Eftir sitja tvær persónur í óleysanlegum vanda, höfundurinn horfir á þær og lýsir því sem hann sér og heyrir af vísindalegu tillitsleysi og leikararnir sökkva sér ofan í það af listrænu örlæti. Þetta getur ekki klikkað. Eða jú, þetta getur svo auðveldlega klikkað, en bara gerir það ekki.
Takk Bjartur, Edda, Guðmundur, Marta og Valdimar, og þið öll hin á bakvið tjöldin. Svona á að gera þetta.
Þorgeir Tryggvason
Að leikritið sé íslenskt er síðan það sem gerir þetta einstakt - eða svona næstum því.
Höfuðverk Jóhanns Sigurjónssonar, Eyvindur og Loftur, eru alveg sér á parti í leiklistarsögunni okkar. Við erum stundum að rembast við að tala um verk á borð við Skugga-Svein og Gullna Hliðið, jafnvel leikgerðir á Jóni Thoroddsen og Laxness, sem klassík. En það stenst enga skoðun, svo langt framar hinum standa meistarastykki Laxamýrardrengsins.
Og þegar búið er að vefja vaðmálið utan af Eyvindi, rífa skarsúðina, sprengja klettabeltin, veita fossinum í vask og kasta burtu öllu sem hefur með þjóðlífslýsingu að gera þá stendur eftir þessi líka magnaða baráttusaga fólks við náttúruöflin innan í sér - og utan. Listrænt miskunnarleysi Jóhanns er algert og lái honum hver sem vill að hafa síðar breytt endi verksins og látið strokuhest hneggja fyrir utan hreysi Eyvindar og Höllu þeim til bjargar.
Fórnarkostnaðurinn við svona róttækan niðurskurð og eimingu á aðalatriðunum er vitaskuld nokkur, og þá ekki síst þrívídd aukapersónanna (þeirra tveggja sem fá þó að vera með). Engu að síður voru Valdimar Örn Flygenring og Bjartur Guðmundsson mjög sannfærandi og áttu hvor um sig mergjaða senu móti konunni sem allt hverfist um í þessu verki.
Guðmundur Ingi Þorvaldsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir eru stórkostleg. Það er gaman að sjá Guðmund aftur, sá hann síðast vinna alltof lítið rómaðan leiksigur í Glæp gegn diskóinu og Eddu hefur maður verið helst til of gjarn á að setja í hólf týpugamanleikkvenna (tilraun til að þýða "character actress", sorrí). Ja, hún er allavega ekki þar lengur.
Sviðsetningin öll er ákaflega snjöll. Þó hún sé full af trixum og uppáfyndingum þá er hún á einhvern undraverðan hátt alveg laus við stæla. Vegna þess að allt þjónar sögunni og sambandi okkar við hana. Nýting á því fáa sem er til staðar er alltaf hárnákvæm og nytsöm til að byggja upp spennu, skapa andrúmsloft, segja söguna.
Mér varð stundum starsýnt á furðudýrið sem Arnes teiknar á gólfið utan um sig og minnti á myndir í gömlum bókum um skrímsli og furðuskepnur. Samt var hann að teikna sjálfan sig, svona eins og lína er dregin utan um lík í glæpamyndum. Og hugmyndin um að nota gamla útvarpsuppfærslu er innblásin.
Og svo hverfa öll trixin í hríðina í lokaþættinum sem er með því magnaðra sem ég hef séð í leikhúsi. Eftir sitja tvær persónur í óleysanlegum vanda, höfundurinn horfir á þær og lýsir því sem hann sér og heyrir af vísindalegu tillitsleysi og leikararnir sökkva sér ofan í það af listrænu örlæti. Þetta getur ekki klikkað. Eða jú, þetta getur svo auðveldlega klikkað, en bara gerir það ekki.
Takk Bjartur, Edda, Guðmundur, Marta og Valdimar, og þið öll hin á bakvið tjöldin. Svona á að gera þetta.
Þorgeir Tryggvason
3 Ummæli:
Hjartanlega sammála Þorgeir. þessi sýning verður lengi í minnum höfð. Algjörlega mögnuð í einfaldleika sínum.
Vá, hvað ég sé eftir að hafa látið félagslífið aftra mér frá því að fara. Ég sem lék sjálf Fjalla-Eyvind æðandi um á handahlaupum í Þjórsárverum í sumar.
Ekkert ofsagt í þessum dómi, sýningin er ógleymanleg. Næst ætti Marta að setja upp Shakespeare af sama fágæta trúnaði við efni, kjarna, mennskuna og lífið.
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim