föstudagur, júní 06, 2008

Tónlist og spark

Margt gerst síðan síðast var bloggað. Hálfvitar spiluðu t.d. fótboltaleik á Hátíð hafsteins á Húsavík. Mótherjarnir voru meistaraflokkur kvenna, en auðvitað dugði fimi stúlknanna lítt gegn ístrubelgjunum með allan sinn skriðþunga. Lokatölur 7-5 eða 8-5. Og Varríus setti eitt þeirra! Fyrsta sinn á ævinni sem ég skora mark í "alvöru" fótboltaleik.

Síðustu daga höfum við svo dundað í stúdíói og erum nánast búnir með fjögur ný lög og alveg rígmontnir af þeim. Við sögu koma m.a. Matvinnsluvélar, Sigga Beinteins, kýlapest, holdugar tær og að sjálfsögðu umsjónarkennarinn Hans.

Ekki ísbirnir samt, sem er verra, þar sem Hálfvitarnir vilja gjarnan syngja um þau málefni sem efst eru á baugi hvert sinn. Viðskiptablaðinu finnst kollegar sínir hjá Guardian vera vitleysingar að fullyrða að Íslendingar hafi stundað það að temja hvítabirni fyrr á öldum. En það er kannski ekki alveg eins langt út úr kortinu og það hljómar. Í Grágás eru t.d. ákvæði um bótaskyldu manns ef ísbjörn sem hann hefur tamið vinnur spellvirki á næsta bæ. Varla væru menn að setja svoleiðis í lög nema það gæti gerst.

Og svo byrjar EM í knattspyrnu á morgun. Því miður verður ekkert af því að keppt verði um Óformlega heimsmeistaratitilinn í leiðinni (sjá eldri færslu um efnið). Króötum tóxt ekki að vinna núverandi handhafa titilsins, Ungverja, svo þeir sitja á honum allavega til hausts þegar forkeppni hins heimsmeistaratitilsins hefst. En þá fer hann líka á flakk geri ég ráð fyrir.

Ég geri ráð fyrir að kíkja eitthvað á leiki, en ekki hefur mér tekist að koma mér upp liði til að halda með. Ætli ég haldi ekki bara með arsenalmönnum núverandi og fyrrverandi. Það kerfi hefur t.d. þann kost að ég þarf ekki að halda neitt með ítölsku hlandfötunum, grísku leiðindapúkunum eða portúgölsku vælukjóunum.

2 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég er hræddur um að þessi bolti sem ég varð vitni að á Húsavík um daginn hafi eyðilagt fyrir mér EM. Hvernig er hægt að hafa gaman að þessari evrópuflatneskju eftir að hafa upplifað slík tilþrif.

Í raun veit ég ekki hvort ég geti yfir höfuð horft á fótbolta aftur.

kv. Stefán Óli

1:33 e.h.  
Blogger Gummi Erlings sagði...

Við sameinumst í að halda með Spánverjum, þú sérð um Fabregas og ég um Torres.

11:53 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim