fimmtudagur, október 19, 2006

Hvalræði

Ef ég væri spurður í skoðanakönnun hvort ég væri hlynntur eða andvígur hvalveiðum í atvinnuskyni myndi ég sennilega svara hlynntur.

Það er að segja ef ég væri ekki andvígur því að svara einföldum spurningum um flókin mál í skoðanakönnunum sem síðan eru misnotaðar af allskyns hagsmuna- og stjórnmálamönnum til að rökstyðja hvaðeina sem kemur þeim vel.

Ég hef tilhneigingu til að trúa þeim sem halda því fram að stækkandi hvalastofnar raski jafnvæginu sem við berjumst við að halda á fiskistofnunum. Það skiptir ekki máli í því sambandi að ástæðan fyrir því að jafnvægið er viðkvæmt er (of)veiði okkar. Og það virðist rökrétt að hvalir hafi slæm áhrif á þennan ballans ef þeir eru friðaðir.

Ég verð líka að játa á mig pirring, sem vafalaust má túlka sem barnalega þjóðrembu, yfir mótmælum erlendra stórvelda gegn áformum um hvalveiðar. Takiði til heima hjá ykkur þið þarna pyntingameistarar og umhverfissóðar áður en þið sendið okkur einhver afþvíbara-mótmæli með afþvíbara-rökum um lítilvægt mál sem er án nokkurra efnislegra afleiðinga fyrir ykkur og ykkar fólk. Ég leyfi mér líka að trúa því að rétt viðbrögð við tilfinningalegu uppnámi hvalavina yfir því að nú eigi að drepa nokkur dýr eigi frekar að meðhöndla hjá sálfræðingi heldur en með því að friðþægja firringunni.

Athugið líka að mótmæli við hvalveiðum okkar eru t.d. ósamberanleg við andstöðuna við Kárahnjúkavirkjun. Það stendur ekki til að útrýma Langreyðarstofninum, sem væri hliðstætt við hamfarirnar á hálendinu, þar sem einstökum náttúrufyrirbærum er fórnað í eitt skipti fyrir öll.

En, eins og stjórnvöld og aðrir virkjunarsinnar hafa ekki þreyst á að tala um í því máli: við búum í raunveruleikanum. Líka þegar kemur að hvalveiðum. Andstaða alþjóðasamfélagsins er staðreynd. Skortur á markaði fyrir afurðirnar sömuleiðis. Blómlegur ferðamannaiðnaður er í hættu sem er jafn augljós og rökrétt og sú sem fiskistofnunum stafar af offjölgun sjávarspendýra.

Og ekki bendir fíflagangurinn í kringum vinnslu afurðanna til þess að þetta sé vel ígrundað. Kristján Loftsson virðist t.d. ekki hafa þá afstöðu að starf hans sé á sviði matvælaframleiðslu. Hann talar eins og aðmíráll á leiðinni í langþráða sjóorrustu sem finnst aukaatriði hvernig gengið verði frá jarðneskum leifum andstæðinganna. Hann veit það eitt að það er nauðsynlegt að skjóta þá. Af hverju? Það er ekki á hans könnu að meta það. Guð er með okkur.

Mér finnst að við eigum að fá að veiða hvali ef einhver vill borða þá, ef þeir stefna fiskistofnunum í hættu, og ef það ruggar ekki hagsmunabátnum okkar um of.

En ef ég væri spurður í skoðanakönnun í dag hvort við ættum að hefja hvalveiðar á morgun myndi ég svara nei.

6 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Get ekki neitað því að þessi hvalarembingur í íslendingum pirrar mig töluvert.

Í fyrsta lagi þá át ég ógrynni af þráu hvalkjöti í æsku og vil ekki sjá þetta óæti aftur. Frekar gerist ég grænmetisæta.

Í öðru lagi eiga fullyrðingar um að viðhalda verði "jafnvægi" í hafinu við engin vísindaleg rök að styðjast. Hollt er t.d. að lesa það sem Dr. Hilmar J. Malmquist hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs hefur um málið að segja. http://www.besserwisser.is/?id=98

Í þriðja lagi, þá minnir allt fas Kristjáns Loftssonar forstjóra Hvals hf. á Akab skipstjóra og ég vil ekki vera í hans liði þegar skipið sekkur.

2:30 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Heldur þykir mér grein besservissersins klén. Byggir að mestu á afar sérfræðilegum pirringi á notkun orðsins "jafnvægi" sem auðveldlega mætti líta framhjá ef vilji væri fyrir hendi.

Kjarni málsins er: Stafar nytjastofnum okkar hætta af óheftri fjölgun hvala? Það að benda á að þeir borði minna af fiski en aðrir fiskar er ekki svar við þeirri spurningu.

Auðvitað hafa áróðursmenn hvalveiða talað ógætilega frá sjónarhóli vísindanna. Það gera líka einarðir verndunarsinnar. Og allir sem nenna geta líka séð að ÖLL umræða um fiskveiðistefnuna er þrungin flokkadráttum, hálfsannleik og hagsmunapoti á alla enda og kanta. Þess vegna þurfa menn eins og dr. Malmquist að hefja sig yfir kjaftæðið, ekki bara setja hversdagsleg orð í gæsalappir og finnast þeir vera rosa klárir.

Á hinn bóginn benda aðfarir hr. Loftssonar ekki til þess að meðferð afurðanna hækki gæðastuðul þeirra marktækt frá því sem þótti fullgott á Ásgarðsveginum í denn.

4:08 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Vissulega má segja að líffræðingar eigi ekki að láta svona smáatriði setja sig úr jafnvægi. En, það er kannski eins og að segja tónlistarunnanda að vera ekki að gera veður út af einstaka feilnótum hjá symfóníunni.

Ég hef reyndar ekkert sérstaklega mikið á móti hvalveiðum sem slíkum og finnst í raun ekkert meiri skepnuskapur að drepa hval en kú.

En að mínu mati sakar þó ekki að hafa góðar ástæður fyrir því að hefja veiðar aftur. Í þessu tilfelli er t.d. jákvætt að það virðist vera nóg af ákveðnum hvalategundum til að hægt sé að nýta þá hóflega. Á móti kemur að óvíst er að við græðum nokkuð á því að standa í þessu.

Það pirrar þó mig (og marga aðra snobbaða líffræðinga) að hjátrú varðandi áhrif hvala á fiskveiðar skuli sífellt vera fleygt fram sem algildum sannleik. Því í raun hefur spurningu þinni varðandi áhrif "óheftrar" fjölgunar hvala ekki verið svarað þó svo ráðamenn láti í það skína.

5:38 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Flott - og eins og vant er bulla pólitíkusar. Það er þó vísindalega sannað :)

5:43 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Já það er hálffúlt í öllu þessu máli að geta ekki bara verið annaðhvort með eða á móti. Maður þarf virkilega að hafa fyrir því að koma sér upp hvalaskoðun.

(Notalegt annars að sjá gamlan herbergisfélaga okkar Varríusar beggja mæta svona sterkan til leiks. Gaman að lesa þig Stebbi).

3:36 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þetta var nú fyndin misritun. Skrifaði Sælir í staðinn fyrir Sævar.

3:38 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim