laugardagur, nóvember 13, 2010

Þrefalt húrra fyrir stjórnlagaþingi!

Ég ætla að leyfa mér að vera rómantíker í aðdraganda Stjórnlagaþings (sem sést á því að ég set stórt ess í orðið).

Þetta er magnað verkefni, og mér finnst magnað að taka þátt í því. Og mér mun finnast það magnað þó ég nái ekki kjöri. Aðeins minna magnað, en magnað engu að síður.

Það er stórbrotið að sjá hversu mikið af flottu fólki er í framboði. Það er eitthvað sérlega magnað við að frá upphafi hafa auglýsingar/peningar verið litin hornauga í baráttunni. Fjölmiðlar hafa ekki fundið út úr því hvernig þeir ætla að gera þessu sanngjörn skil. Já og talandi um það, hversu frábært er að það séu á sjötta hundrað manns í framboði?!

Við erum að reyna að skrifa nýjar leikreglur. Við höfum lengi spilað leikinn vandræðalaust en svo komumst við að því að reglurnar dugðu ekki til að hemja verstu siðblindingjana. Mig grunar reyndar að við munum ekki ná að króa þá af með nýjum leikreglum, en engu að síður er þetta gott tilefni til að átta okkur á hvernig við viljum að leikvöllurinn líti út.

Ég væri ekki að bjóða mig fram ef ég héldi ekki að þingið yrði betra með mig innanborðs en án. En hvernig sem það fer þá stefnir allt í tímamót til hins betra.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim