mánudagur, janúar 03, 2011

Meiri Spíri

Eitt má Ofviðrið eiga - það er búið að setja mig í Shakespearegírinn.

I
Við vorum að tala um sýningu Koršunovasar á Rómeó og Júlíu hér heima áðan og þá slógu mig líkindin á henni og Ofviðrinu. Fjarlægur og háðskur leikstíllinn, sem reyndar var talsvert betur útfærður hjá Litháunum, enda búnir að æfa og sýna árum saman. Samt eins og þetta væri alltsaman hálfgert grín og persónurnar vissu það vel. Og sérdeilis pirrandi þegar afstaðan er svoleiðis, en leikritið nánast óstytt. Þrír og hálfur tími er of langur tími til að láta segja sér að Shakespeare sé kjánalegur, þó menn séu flinkir að hnoða deig (þetta gerðist alltsvo í bakaríi).

Leikmyndin var svakalega flott í R&J líka, en þegar maður skoðar hana í huganum, sama formið og í Ofviðrinu.

Íburðarmikill bakveggur með ótal smáatriðum og fjölmörgum smágerðum leiðum inn og út. Göngubrú uppi á veggum. Allt miðjusett og symmetrískt. Og fyrir miðju stór brunnur/pottur sem persónurnar áttu leið ofaní og í kringum allan tímann.

Merkilegt.

II
Jón Viðar skrifaði um í DV í dag. Dettur væntanlega inn á netið þeirra á morgun. Hann er lítt hrifinn svona heilt yfir, en tekur reyndar fram að hann sé efins um leikritið og telur það þjást af byggingagöllum. Ég er ósammála, og þó svo væri bætir skáldlegur krafturinn og ferðalagið sem aðalpersónurnar fara í algerlega fyrir þá. Þegar ég byrjaði að grúska í Shakespeare þá þótti mér Lér vera besta verkið. Mér finnst það svosem ekki lengur, en stórbrotið engu að síður.

Og Jón er fremstur í flokki íslenskra leikhúsumfjallara nú um stundir. Fær nóg pláss í DV og skrifar frábærar greiningar sem engu skiptir hvort maður er sammála eða ekki - þekkingin og innsæið sér um það. Og aldrei efast maður (eins og stundum gerðist þegar hann var í sjónvarpinu um árið) um ást hans á leikhúsinu og trú á að það geti verið betra en það er.

III
Ein af bókunum sem ég fjallaði um á Rás 2 í desember var Ripley's Believe it or not! í henni var meðal annars sagt frá píanóleikara einum sem ánafnaði vísindunum jarðneskum leifum sinum, að frátaldri höfuðkúpunni. Hún átti að hreinsast og pússast og afhendast The Royal Shakespeare Companytil að brúkast sem leikmunur í grafarasenunni í Hamlet. Þetta var gert, en einhver ár liðu áður en nokkur danaprins treysti sér í að nota skelina. Það var ekki fyrr en David Tennant brá sér í hlutverkið sem píanistinn komst á svið. Um daginn komst ég svo að því að BBC gerði seinna sjónvarpsútgáfu af uppfærslunni sem var rómuð mjög, og er aðgengileg á Youtube.

Fyrsti hlutinn hér.

Og væntanlega þykir einhverjum fengur í að vita að Tennant þessi er ekki síst þekktur fyrir að hafa um tíma leikið titilhlutverkið í Sci-Fi-kult-sjónvarpsseríunni Doctor Who. Og Kládíus er leikinn af Patrick nokkrum Stewart sem er einnig frægur í Sæfæheiminum fyrir að hafa verið Captain Picard í Star Trek.

1 Ummæli:

Anonymous Guðmundur Brynjólfsson sagði...

Sæll

Ekki búinn að sjá Lé. En, ég er sammála Jóni og fleirum - þetta er meingallað leikrit. En, yndislegar bókmenntir að mínu mati.
Ég hef séð nokkuð margar uppsetningar á verkinu en aldrei séð neina sem hefur náð að sannfæra mig um að þetta megi ganga andskotalaust upp á sviði. Þó hef ég sé mörg glæsitilþrif í þessum sýningum og ber þar hæst afburðaleik Robert Stevens á karlinum í Barbíkan 1994 - ef ég man rétt.

12:22 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim