fimmtudagur, janúar 01, 2009

Mótmæli - Skaup - Tónleikar

Sennilega hefðu kryddsíldarmótmælin verið enn áhrifaríkari ef þau hefðu haldið áfram eins og þau byrjuðu - með stigmagnandi hávaða fyrir utan meðan flokksbroddarnir ræddu málin innifyrir eins og ekkert væri öðruvísi en venjulega. Það var verulega magnað að fylgjast með útsendingunni meðan hún varði. Já og af fenginni reynslu af því þegar Geir Haarde talar þá hefði málstað mótmælenda líklega verið betur þjónað með því að hleypa honum í settið. Vælið í stöðvartvömönnum og sjálfvirkum sjálfstæðisbloggurum er síðan frekar sorglegt. Og þrátt fyrir allt: gott dagsverk, afbragðs framleiðsla hjá "skrílnum".

Það sama má fyrir minn hatt segja um skaupið. Það var bara talsvert beitt eins og tilefni er til, en missti samt aldrei sjónar á því að það á f.o.f. að vera fyndið. Páll Óskar, feisbúkksketsinn og ráðhúsfarsinn voru verulega vel lukkuð, og það er mjög langt síðan ég hef misst mig eins í hlátri eins og yfir ísbirninum sem þekkti lausnina á fjármálakreppunni. Stórkostleg hugmynd. Á neikvæðu hliðinni er svosem ekkert, nema afleitir söngtextar. Hlakka til að horfa aftur. Takk fyrir mig.

Á morgun tekur svo grár hversdagurinn við. Ljótu hálfvitarnir spila á Græna Hattinum þá um kveldið, og síðan í því goðsagnakennda félaxheimili Breiðumýri. Hefjast hvorirtveggju kl. 2130 og bílætin kosta 1.500 nýkrónur.

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Takk fyrir skemmtileg skrif á árinu 2008 og þú mátt vita að ég met það mikils að þú skulir lesa mína vefbók. Óska þér og þínu fólki áhugaverðs árs í jákvæðari skilningi en reyndin varð um hið nýliðna.

10:58 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim