mánudagur, júlí 10, 2006

Tragískur endir og uggvænleg framtíð

það verður varla undan því vikist að segja eitthvað um lokin á HM. Held að þetta sé í fyrsta, og vonandi síðasta sinn sem ég sé fótboltaleik sem hægt er að kalla tragískan, þar sem áður óþekkt veila í skapgerð hinnar flekklausu hetju verður henni og félögum hennar að falli. Eitt atvik, þegar tíu mínútur eru eftir af löngum ferli verður nú alltaf rifjað upp þegar afrek Zidanes eru tíunduð. Andstyggilegt, og það er rétt með herkjum að það sé hægt að minnast þess að fyrir utan þetta var leikurinn óvenju skemmtilegur af úrslitaleik að vera.

Og þá að allt öðru.

Fyrir nokkrum árum var maður nokkur áberandi á fundum samtaka sem Varríus er þátttakandi í. Af alkunnri tillitssemi ætla ég ekki að segja nein deili á manninum, köllum hann bara Jón.

Jón var tiltölulega nýr í starfi samtaka þessara, en bjó að öðru leyti að langri og áreiðanlega gagnlegri og merkilegri reynslu af ýmsum störfum sem tengdust starfsemi samtakanna á ýmsan hátt. Og ef Jón hefði kosið að sitja þögull og setja sig þannig inn í umræðuna, málefnin og verkefnin sem samtökin glímdu við hefði þetta verið allt í lagi.

En nei.

Jón var málglaður mjög og kvaddi sér hljóðs um flest mál. Hann var líka afar langorður, sem var þeim mun óheppilegra sem hann misskildi oftar en ekki hvar umræðan var stödd og beindi því orðum sínum einatt út í hött. Enn verra var þó að allur málflutningur Jóns var gegnsýrður af yfirlæti og vissu hans um að við hin, sem höfðum árum saman tekið þátt í starfi samtaka þessara, værum kjánar sem þyrftum nauðsynlega á leiðsögn hans að halda.

Þetta var auðvitað alveg hrollvekjandi leiðinlegt, og kannski líka fyndið á einhvern öfugsnúinn hátt.

Þetta rifjaðist allt upp fyrir mér í gær þegar NFS sýndi okkur hálftímalangt viðtal Helga Seljan jr. við Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og krónprins Halldórs Ásgrímssonar.

Þarna var Jón lifandi kominn. Yfirlætið. Langhundageðið. Tregðan til að ræða þau mál sem eru til umræðu í samfélaginu nema útfrá sínum sérviskulegu einkasjónarhóli þannig að hugtök skipta um merkingu og sjónarmiðin þar með ósetjanleg í samhengi við nokkuð annað.

Og undir niðri ruddaskapur þess sem er ekki vanur að standa einum né neinum reikningsskap og kann því illa að einhver annar spyrji spurninga sem honum eru ekki endilega að skapi.

Fæ ekki betur séð en hér sé kominn fínn framtíðarleiðtogi Flokksins.

4 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Það skal tekið fram að þetta var ekki undirritaðir jón, enda veit jeg ekkert um hvað maðurinn er að tala...
skrítin skepna þessi jón annars,
og hana nú.

Jón Örn

12:53 f.h.  
Blogger Varríus sagði...

... þó tilhuxunin um Jón Örn haldandi uppi yfirlætislegu málþófi sé óneitanlega fögur...

þá nei

T

9:23 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Mikið er ég sammála þér, þetta viðtal var hrollvekja.

12:05 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Hér kættist dálítið í manni marbendillinn.

4:07 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim