laugardagur, febrúar 26, 2011

day 12 - a song from a band you hate

Lennon

1

En þú sem varðs aldrei
sextíuogfjögurra ára,
aldrei nema fjörutíu ára drengur
nei, fjögurra ára drengur,
lítið barn í fullorðnum manni,
nú um aldur fram
langt um aldur fram
horfirðu inn í byssuhlaupið
og höggormstönnin spýtti eitri
í óvarið hjarta þitt
langt um aldur fram: hann miðaði
á fullorðinn mann, geymdan
í víggirtu hjarta lítils drengs
sem beið föður síns heima, nú
tekur hann aldrei framar í hönd föður síns
áður en þið gangið yfir Central Park West
því að þú ert farinn í óvænta heimsókn
til guðanna, óvænt fórst þú
á fund guðanna á himnum
og sólbros gyðjunnar hætti að skína
í andliti hennar.

í andlit ykkar …

Þið sem sunguð um ástina friðinn
og drenginn í draumi ykkar, hann
sem breytti heimi leitandi augna
í paradísarheimt
og átti ekki að vera hræddur við
að gráta: kannski verður hann
sextíuogfjögurra ára einn byssulausan
dag verður hann sextíuogfjögurra ára
í söng þessa fullorðna barns
og eilífu æði bítilsins og þá verður
þú, Lennon, í fögnuði guðanna
umfafinn aðventubrosi gyðjunnar
sem hellti hassgeislum yfir ást ykkar
þegar Yoko hélt það væri jafn saklaust
að syngja: Hard times are over
og ykkur McCartney þótti sjálfsagt að sá dægur kæmi
when I'm sixty-four, en hann kom ekki
enginn nýr dagur kemur úr gusandi
byssuhlaupi, samt munum við heyra púðurreykinn
af þessum framandi orðum: all we are saying
is give peace a chance, orð orð
máttvana minning, þegar sólgos gyðjunnar
breytist í svart hrynjandi myrkur.

Matthías Johannessen


Hún pirrar mig ógurlega þessi vísun í byrjuninni í lag sem allir eiga að vita að er ekki eftir Lennon. Fyrsti tónninn sem er sleginn er falskur. Þó pirrar mig enn meir að moggaritstjórinn, með öllu sem því fylgir, skuli ekki skammast sín meira en svo að eftir heilan feril af að hafa af heilum hug varið allt sem Bandaríkjastjórn datt í hug að gera skyldi setja saman svona flatneskjulega mærð um mann sem var lengi vel ofsóttur af þessum sömu yfirvöldum fyrir að vekja athygli á málstað (málstöðum) sem ekki voru þeim að skapi, og leggja jafnframt út frá því að hann hafi verið "barn". Þegiðu og skammastu þín og nuddaðu þér upp við þitt fólk, en láttu mitt í friði.Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim