miðvikudagur, febrúar 03, 2010

Kátur og Tryggur

Á fimmtudaginn síðasta var Sigríður afasystir mín jarðsungin á Húsavík. Sigga átti ekki mann og ekki börn, en kom þó nálægt uppeldi og þroskun fjölda fólks í húsfreyjuhlutverki sínu á Halldórsstöðum í Kinn. Þau urðu allnokkur, börnin sem þar dvöldu í lengri eða skemmri tíma og mótuðust af sveitastörfum og samneyti við það ágæta fólk sem þar bjó; Siggu, Þórhall bróður hennar og Bjössa uppeldisbróður og vinnumann.

Ég flaut með úrvalsliði Halldórsstaðadrengja frá Akureyri til Húsavíkur á miðvikudagskvöldið og spurði þá meðal annars út í smalahunda. Í ljós kom að Halldórsstaðahundar hétu tveimur nöfnum. Til skiptis Kátur og Tryggur.

Á svona stundum hættir manni til að lesa merkingu úr og í alla skapaða hluti. Hér finnst mér t.d. Halldórsstaðafólk hafa fundið frábæra aðferð til að minna sig á hvað skiptir máli fyrir hið góða líf.

Að vera Kátur. Og Tryggur.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim