þriðjudagur, nóvember 25, 2008

"Vegna þess að það er ekki hægt"

Það var magnað að horfa á borgarafundinn. Ekki endilega af því að þar hafi svo margt komið fram, heldur hitt að svona fundur skuli vera haldinn. Síðustu fundir hafa vafalaust kennt Gunnari og félögum margt, og enn má slípa og ydda.

En ef ég væri pólitíkus myndi ég tala hástöfum um gildi og gagnsemi fundarins, hrósa skipuleggjendum og þátttakendum í bak og fyrir og tilkynna að ég myndi beita mér fyrir því að slíkir fundir yrðu að árlegum, formlegum viðburði. Eða allténd styðja við bakið á grasrótarhreyfingu Gunnars og co. til að koma slíku skipulagi á.

Auðvitað skilar svona fundur ekki miklu öðru en yfirborðskenndu ágripi. Hann gefur ekki kost á "Follow-up" spurningum, sem gefur pólitíkusunum ætíð nokkuð auðvelda undankomuleið. Gott dæmi var vandlætingarræða forsætisráðherra um "Norska hernaðarsérfræðinginn".

Gefum Geir orðið:
"Aðeins út af þessum svokallaða norska hernaðarsérfæðingi. Þá er nú enginn slíkur í vinnu hjá mér. Ég er með norskan mann á mínum snærum til að hjálpa mér að glíma við erlenda blaðamenn. Það má vel vera að hann hafi einhverntíman verið í norska hernum eins og flestir norðmenn, ég bara þekki það ekki. En þetta tal um þennan ágæta mann er fjarstæðukennt rugl, fyrirgefiði."

Nú finn ég ekkert á netinu um tengsl Bjorns Richard Johansen við herinn, en man eftir fréttum um að hann hefði unnið verkefni fyrir hann. Þannig að ef til vill er orðið "hernaðarsérfræðingur" fullmikið sagt. Man það bara ekki. En Geir væri nær að gera grein fyrir hver tengsl Bjorns og hersins eru nákvæmlega frekar en gefa í skyn að þau felist í því einu að hann hafi gegnt herskyldu eins og aðrir norskir karlmenn.

Og hvernig samræmist viðtalið þar sem Bjorn Richard talar um hve traust símkerfið er og viðbúnaðaráætlun NATO, því að maðurinn hjálpi við að "glíma við erlenda blaðamenn". Hér er Geir klárlega að stilla honum upp í "okkar lið" og spila á þjóðrembinginn.

Fyrir nú utan orðhengilsháttinn "enginn slíkur í vinnu hjá mér ... Ég er með norskan mann á mínum snærum." Eins og ekki sé ljóst við hvaða mann sé átt. Ef hann er ekki hernaðarsérfræðingur, hvernig væri þá bara að segja það? Jafnvel útskýra á hverju sá "misskilningur" byggist.

Eftirfylgnispurningar hefðu t.d. tekið á þessu, svo og komið inn á störf mannsins í áróðursdeild Glitnis, og náin samvinnutengsl við Bjarna Ármannson og Birnu Einarsdóttur.

En formið leyfir þetta ekki. Reyndar eru svona follow-up oft í hálfgerðu skötulíki í venjulegum viðtölum líka, hefur manni fundist. Smá vísvitandi misskilningur og svör út í sumartungl eru of oft látin sleppa.

Svona fundir eiga hinsvegar vel að geta orðið hugmyndakveikja. Einhver kastar einhverju fram, mögulega ómótuðu, jafnvel óframkvæmanlegu í upprunalegri mynd. En næsti maður grípur leirinn, hnoðar hann og kastar til baka. Þangað til er orðið eitthvað gagnlegt og fallegt. Eða þá að hún er slegin út af borðinu með ástæðum. Skýrum, óhrekjanlegurm rökum fyrir að hugmyndin sé óframkvæmanleg, óúrvinnanleg, skaðleg jafnvel.

Gunnar fundarstjóri kastaði einni slíkri hugmynd upp: Að þjóðin kysi sér fulltrúa til að sitja sem áheyrnarfulltrúar á ríkisstjórnarfundum og öllum þeim nefndum sem skipaðar verða til að fjalla um ástandið, orsakir þess og afleiðingar.

Hér hefði draumastjórnmálamaðurinn sagt: "Þetta er mjög athyglisvert. það eru [svo og svo] mkilir annmarkar á að við getum gert þetta. Sumt er trúnaðarmál sem rætt er á svona fundum og blabla og bleble. En hugsum þetta lengra.

Eða: Þetta er því miður óframkvæmanlegt í nokkurri mynd. Það er vegna þess að (hér kæmu svo skotheld rök).

En hvað gerðist á fundinum:

Hvorki Geir né Ingibjörg minntust á tillöguna.

Þegar þau höfðu lokið sínum svörum, og röðin komin að Þorgerði Katrínu sagði Gunnar:

"Þið hafið hvorugt svarað spurningunni um það hvort þið vilji leyfa okkur að vera áheyrnarfulltrúar hjá ykkur."

Þorgerður:
"Gunnar, þú spurðir um tvo áheyrnarfulltrúa á ríkisstjórnarfundum. Ég nenni ekki að vera að tala í kringum þetta. Það bara erekki hægt.

(kurr í salnum)

Nei.


Það er hinsvegar ljóst eftir að hafa hlustað á ykkur tala og ýmsa aðra á liðnum vikum að það þarf að tala skýrar, það þarf að upplýsa betur og ég held að það sé fyrst og fremst það sem við þurfum núna að fara að gera, við þurfum að tala betur við ykkur, við þurfum að upplýsa fólk hvað við höfum verið að gera og hvað við ætlum að gera. Við þurfum að tala skýrar, það hafa verið okkar mistök núna á nýliðnum dögum."


Berið feitletruðu ummælin saman við hina ágætu auglýsingu Leturprents þar sem fjölritunareinyrki Jóns Gnarr svarar viðskiptavini í síma. Nánast orðrétt eins. Og svo bætir hann við: "Það er svolítið mismunandi hvað viðskiptavinir eru frekir"

En áfram hélt Gunnar.

Gunnar:
Ókei, takk fyrir þetta. Ég ætla bara eldsnöggt að spyrja hérna, af því að ég er svolítill tossi. Hvað með nefndirnar? Af hverju megum við ekki hafa áheyrnarfulltrúa í þeim, sem á að fara að setja á stofn, t.d. sem á að fara að rannsaka bankana og allt þetta."

Þorgerður:
"Það er bara ... þingið kemur og tekur til þess og við ræðum þetta núna vonandi í vikunni, eins og ég sagði áðan, ég vil ekki að við dveljum lengi við þetta, og þingið kemur til með að taka afstöðu til þess, og ég vonast til þess og tek undir eins og Þorvaldur [væntanlega Gylfason, innskot Varríusar] sagði áðan, ég vonast til að fá líka erlenda sérfræðinga að því borði."

Stíllinn minnir svolítið (og óþægilega) á ónefndan ríkisstjóra í Alaska sem við höfum öll verið að hlæja að síðustu mánuði, ekki satt?

[...]

Össur talaði næstur, og kom inn á tillöguna, þannig:

Össur:
"Aðeins um nefndina, aðeins um ríkisstjórnina og fulltrúa þar. Ég hef alltaf verið talsmaður beins lýðræðis. Ég hef lagt fram á alþingi tillögur um það og ... búum við ekki í nútímalegu samfélagi þar sem eru fjarskipti ..."

Gunnar:
"... Ertu að segja að nefndin gæti komið til ..."

Össur:
"... Ég er að segja það að ég hef lagt fram tillögur um það eiga að vera þjóðaratkvæðagreiðslur um Netið um stór mál og smá. Það er að láta fólkið ráða."

Gott mál í sjálfu sér - og (fjar)skylt tillögunni. En ekki gerir hann grein fyrir hvað er að hugmyndum Gunnars, og hvað þurfi til að gera þær betri.

Þórunn Sveinbjarnar passaði. Og Kristján Möller tók við:

Kristján:
"Þú talaðir um það, Gunnar, áðan að þú vildir að fundurinn yrði kurteis og þetta yrði heiðarlegt og þetta yrði skemmtilegt og þetta yrði ærlegt. þetta er fínt, þetta er gott, gott markmið. Ég held líka að þetta þurfi að vera raunverulegt. Eins og hugmynd þín um tvo í ríkisstjórn, sem að þú myndir þá vera annar eða eitthvað svoleiðis eða einhver myndi kjósa. það er því miður ekki raunverulegt."

Gefum okkur nú að Kristján hafi átt við "raunsætt" þegar hann sagði "raunverulegt", svo við þurfum ekki að afskrifa hann sem algeran kjána. Hann hefði samt átt að drullast til að útskýra af hverju nákvæmlega tillagan var ekki raunsæ, án þess að eftir því væri gengið sérstaklega.

Og af hverju hann hélt að það væri verið að tala um tvo fulltrúa "í ríkisstjórn", og að Gunnar hyggðist vera annar þeirra ber annaðhvort vott um skort á eftirtekt eða óþverralegt trikk til að grugga vatnið. Ekki minntist hann á nefndirnar.

Gunnar svaraði:

Gunnar:
"Nei, bíðiði aðeins, fyrirgefiði það var heldur ekki raunverulegt sem gerðist hér fyrir sex vikum síðan hérna á Íslandi sko, eða fyrir átta vikum síðan. Það átt enginn hérna á þessum kanti hérna samkvæmt því sem ég best veit von á því. Þannig að það er ekkert hægt að segja svona þegar koma nýjar hugmyndir. Það á bara að reyna að taka þær og nota þær."

Hárrétt. Það er skiljanlegt að ekki sé hægt að dvelja endalaust við svona mál á fundi með margt á dagskrá. Það er líka skiljanlegt að þeir sem svara séu ekki með fullmótaðar gagnhugmyndir.

En ef menn segja afdráttarlaust "þetta er ekki hægt" hljóta menn að vita af hverju og ber að útskýra það.

Undanskot, útúrsnúningar og semingur eru nákvæmlega það sem trausti rúnir stjórnmálamenn hafa ekki efni á. Né heldur að ansa ekki hugmyndum sem settar eru fram í einlægri tilraun til að bæta andrúmsloftið og vinnubrögðin.

3 Ummæli:

Blogger Sigga Lára sagði...

Já. Merkilegt að almannatengillinn Kristján hafi ekki verið búinn að taka þau í tíma og kenna þeim hvernig á að fara virkilega vel út úr svona fundi. Það hefði vel verið hægt. En setningar eins og: "Þið eruð ekki þjóðin." eru eins og að skjóta sig, ef ekki í fótinn þá bara beint í hausinn.

Margt gerist þessa dagana sem eru góðar kennslustundir í hvernig pólitíkusar eiga ekki að gera og vera. Og aðallega ekki að segja eða segja ekki.

4:31 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Mest pirra mig setningar sem byrja á:

"Það sem þið kannski vitið ekki er..."

Já og svo ætti að setja bráðabirgðalög sem bannar stjórnmálamönnum að tala líkingamál fram að næstu kosningum.

Það ætti að flýta þeim.

4:40 e.h.  
Blogger Sigga Lára sagði...

Já, kræst. Fokkíng björgunarleiðangurinn.

Allavega mætti ekki nota hverja nema einu sinni.

Skemmtilegt að Baggalútur sagði í fíflafrétt mjög snemma í hruninu að ríkisstjórnin ætlaði að ráða niðurlögum kreppunnar með útjöskuðum myndlíkingum.
Ekki fjarri sanni, ha?

Og að tala svona almennt niður til þeirra sem spyrja óþægilegra spurninga er alveg örugglega ekki vænlegt til árangurs í næstu kosningum, hvenær sem þær verða.

10:17 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim