miðvikudagur, júní 14, 2006

Kyrjað með leiðsögn...

... sem ku vera hin rétta þýðing upphafsorða latneskrar messu: Kyrie Eleison, ef marka má hinn kunna svarfdælska málvísindamann Hjörleif Hjartarson. Og fer vel á því að hefja kórverk á þessari áminningu um að hlýða stjórnandanum.

Það var gaman í Mývatnssveit. Sálumessa Mozarts er magnað stöff sem gaman er að kyrja í 250 manna sönghóp, sérstaklega með töffara eins og Guðmund Óla við stjórnvölinn, mann sem skilur svo sannarlega hvað átt er við með Forte og Allegro.

Þar fyrir utan mátti njóta samvista við skemmtilegt fólk, sem og veðurblíðunnar og óvæntrar hlédrægni flugunnar, baða sig í heilnæmu brennisteinsvatni og hlusta á góða kóra.

Skemmtanaglaður finnskur kór vakti nokkra athygli fyrir að beila á síðustu stundu á Sálumessunni og sameiginlegri vinnu með íslensk lög, að þvi er virtist aðallega af því að verkefnin stönguðust á við næturlífið. En síðan mætti finnski kórinn með sitt prógramm á sunnudagstónleikana og var svona líka suddalega góður. Sex and Drugs and Rokk'n Kór!

Og svo náttúrulega Hamrahlíðarkórinn. Hann er mótaður í mynd stjórnanda síns: vissulega ekki allra, og dálítið keyrðu þau nú út í skurð í tilgerðinni, en samt: magnaður galdrakór mikillar galdrakonu.

Kórastefna Margrétar Bóasdóttur í Mývatnssveit er frábært fyrirbæri, stenst alveg samanburð við góða leiklistarhátíð eða jafnvel Skólann. Stefni þangað aftur að ári.

Og talandi um söng: Varríus hefur ekki enn orðið svo frægur að sjá umtalaða dans- og söngauglýsingu Orkuveitunnar, en finnst Páli Ásgeiri mælast vel um hana. Og vill af gefnu tilefni taka fram að hann kom hvergi nálægt gerð hennar.

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Þar sem lárviðarskáld Varríusar gæti líka verið meðal grunaðra þegar kemur að auglýsingum, er rétt að taka fram að hann er líka saklaus.

12:29 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim