laugardagur, febrúar 12, 2011

Póstmódern Lögga

Það gengur um Facebook listi af fyrirmælum um að setja á netið krækjur á lög sem hafa tiltekna þýðingu fyrir mann. Ég rakst á lag og flutningurinn þar hefur þýðingu fyrir mig í skilningi listans:

Lag sem gerir þig alveg brjálaðan.

Þetta var semsagt Jónas Sigurðsson og Lögreglukórinn að flytja lagið Verkamaður eftir Bergþóru Árnadóttur við ljóð Steins Steinarr í Laugarneskirkju (hvers vegna veit ég ekki).

Já, Lögreglukórinn.

Flutningurinn er hátíðlegur og forsöngvarinn fer næstum offari í að túlka hina hjartnæmu sögu sem ljóðið segir. Kórinn gerir sitt besta við að ljá þessu öllu dýpt og vigt.

Ljá dýpt og vigt sögunni af verkamanninum sem var drepinn í mótmælaaðgerðum þar sem hann ásamt félögum sínum krafist brauðs "handa sveltandi verkalýð".

Með Lögreglukórnum.

Hverjir skyldu nú hafa fengið það hlutverk að berja hann til dauðs? Svona sagnfræðilega séð?

Þessi ógeðslegi performans minnti mig á annað álíka. Eða verra eiginlega. Það er túlkun Lögreglukórsins á Lög og regla eftir Bubba Morthens, lag og texti. Þar segir sumsé frá manni sem lögreglan drepur við handtöku og hylmir svo yfir með þeirri fjarvistarsönnun að hinn seki hafi verið "að æfa lögreglukórinn".

Já, þetta sungu hinir knáu laganna verðir með bros á vör. Væntanlega með þeim undirtexta að þarna væri augljóslega grín á ferð. Skáldaleyfi. Auðvitað dytti engum í hug að þeir gætu gert sig í alvörunni seka um annað eins. Eins og sjá má þá erum við meira að segja til í að syngja um þetta sjálfir …

Lögreglumenn að syngja um lögregluofbeldi. Lögreglumenn að klæmast á einlæglega meintum tjáningum skálda á glímu fólks við valdið sem þeir verja.

Þetta væri auðvitað fínt ef eitthvað benti til að löggan væri hætt að standa með valdsmönnum gegnum þykkt og þunnt, og lögregluofbeldi heyrði sögunni til. Og flutningurinn væri til marks um það.

En við vitum að svo er ekki.

Ef það væri í boði í fyrrgreindum Facebook-lista að velja "lag sem þér finnst siðferðilega ógeðslegt". Þá væri ég í stökustu vandræðum með að velja milli þessara tveggja.

1 Ummæli:

Blogger Einar Þór sagði...

Góður.

8:59 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim