sunnudagur, febrúar 27, 2011

day 13 - a song that is a guilty pleasure

Litla kvæðið um litlu hjónin

Við lítinn vog, í litlum bæ
er lítið hús.
Í leyni inní lágum vegg
er lítil mús.
Um litlar stofur læðast hæg
og lítil hjón,
því lágvaxin er litla Gunna
og litli Jón.

Þau eiga lágt og lítið borð
og lítinn disk
og litla skeið og lítinn hníf
og lítinn fisk
og lítið kaffi, lítið brauð
og lítil grjón.
því lítið borða litla Gunna
og litli Jón,

Þau eiga bæði létt og lítil
leyndarmál
og lífið gaf þeim lítinn heila
og litla sál.
Þau miða allt sitt litla líf
við lítinn bæ
og lágan himin, litla jörð
og lygnan sæ.

Þau höfðu lengi litla von
um lítil börn
sem léku sér með lítil skip
við litla tjörn,
en loksins sveik sú litla von
þau litlu flón,
og lítið elskar litla Gunna
hann litla Jón.

Það var opinberun þegar ég hafði vit á því að slökkva á laginu í kollinum á mér og lesa bara ljóðið. Lagið er reyndar frábært fyrir sinn hatt, en boy, oh, boy, hvað það vinnur gegn stemmingunni í ljóðinu. Fínofin tragedía Davíðs (sem var nú yfirleitt ekkert góður í svoleiðis) fer algerlega út um gluggann í glaðhlakkalegum rytmafígúrum Páls (og engin "túlkun" söngvara bætir þar úr). Lesið og grátið (og hugsið kannski um staðgöngumæðrun). Og í beinu framhaldi: Lesið "Fyrir átta árum" eftir Tómas Guðmundsson. Þar er annað lag sem hefur breytt smágerðum listilega ortum harmleik í "Sál og hníf".




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

2 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

jáh eða þá Hótel Jörð!

8:25 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Æ, er það ekki bara einfaldlega vont ljóð? Finnst það ekki græða neitt á að losna undan laginu. Upphafslínan er svo montin eitthvað og hótellíkingin svo platt.

8:49 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim