mánudagur, janúar 24, 2011

Parísarmenning

París er óðum að verða sú heimsborg sem ég þekki mig best í. Ég rata þar að mestu án korts. Við hjónin vorum þar í síðustu viku til að láta lappa upp á hendurnar á mér, en helsti sérfræðingur í að gera við það sem stundum er kallað Víkingahendi er þar í borg. Hann vann verk sitt fljótt og vel og ég er ánægður með árangurinn.

En að sjálfsögðu var menning og listir á efnisskránni líka. Förum yfir það helsta.

Louvre
Það var fljótgert og auðvelt að komast inn, þvert á það sem maður óttaðist. Og eins og oft gerist á svona megasöfnum þá er erfitt að halda ferskri sýn. Gaman samt að sjá frk. Lísu í sinni eiginlegu dýrð (og ég hef aldrei haldið að hún væri stærri en hún er). Annars var Medúsufleki Géricaults kannski hápunkturinn, sem og hraðferð í gegnum fornleifahlutann (verður skoðaður nákvæmar næst). Já og Goya. Vermeer og Rembrandt voru utan þjónustusvæðis að þessu sinni. Rubens er drasl.

Patti Smith og Phillip Glass
Óvæntir bólfélagar, kaótíska pönkdrottningin og klassíski naumhyggjupáfinn. En áttu samleið hér í frábærri kvöldstund þar sem Patti flutti ljóð Allen Ginsberg og sín eigin við undirleik hr. Glass. Og þegar Lenny Kaye, hirðgítarleikari pönknornarinnar, mætti ásamt fleirum tókst samkoman á loft. Ég efast um að Pissing in a river hafi verið betur flutt en hér. Patti er í svakalegu formi raddlega. Lokalagið var hinn mergjaði sálmur People have the Power og það gladdi mig mjög að sjá Phillip Glass klappa með (reyndar ekki á offbítinu eins og Á að gera) og taka undir í kórusnum. Þangað til Atli Heimir mætir á Fræbbblatónleika og tekur undir í Í nótt verður hann ávallt sem því nemur minna svalur.

Frábært kvöld. Enginn stendur Patti Smith á sporði við að miðla ást sinni á skáldskap, og að blanda saman bítnikkl-ljóðalestri, minimalískri píanótónlist og pönki þannig að úr verði heildstæð snilld getur engin nema hún. Ef Patti Smith væri neðanjarðarjárnbrautarlestarstöð þá væri hún sú þar sem lestarnar úr ólíkustu hverfunum mætast.

Shakespeare & Co
Besta bókabúð í heimi er í París. Hún selur bara bækur á ensku og stendur á vinstribakkanum nokkurnvegin til móts við Notre Dame. Gamalt hús, troðfullt upp í rjáfur af bókum, nánast klisjulega líkt því hvernig bókabúðir eiga að líta út. Á efri hæðinni er lesstofa og bækurnar þar eru ekki til sölu. Þrátt fyrir kraðakið er bísna auðvelt að leita og gaman að gramsa, nýjar og notaðar bækur i bland. Minnsta kosti jafnmikilvægt að heimsækja Sjeikspír og félaga og Eiffelturninn og Sacre Coeur.

Comedy of Errors
Peter Brook hyggst setjast í helgan stein og kveðjusýning hans, Töfraflautan, ferðast nú um heiminn. Hún var t.d. ekki á heimavellinum, Bouffes Du Nord leikhúsinu í París, meðan við vorum þar. En við keyptum okkur miða á það sem í boði var í trausti þess að engu drasli væri hleypt þar inn fyrir dyr. Og urðum ekki fyrir vonbrigðum. Uppfærsla Dan Jemmett með fimm afbragðs leikurum í ca 12 hlutverkum þessa æskuverks Shakespeares var alveg drulluskemmtileg. Leikgleðin og krafturinn spiluðu fullkomlega með tækninni sem hópurinn bjó yfir í stórum skömmtum og skilaði þessum fráleita farsa betur en ég hef áður séð. Já, og svo svolgruðu þau bjór linnulaust allan tímann. Alveg yndislegt bara.

Requiem
Sálumessa Mozarts í hinni stórfenglegu kirkju Maríu Magdalenu. Vondur hljómburður, máttlaus kór, slappir sólistar og flatneskjuleg stjórn gerðu þetta að hálfgerðri raun, sem kuldinn í kirkjunni gerði ekkert til að bæta úr.

The Lost Symbol
Eitthvað verður maður að lesa í svona ferðum. Flugferðir og svona. Ekki samt lesa þessa skelfilegu bók Dans Brown. Hún er svo hlægilega léleg og leiðinleg að það er nánast snilld. Ég henti eintakinu mínu í ruslatunnuna í morgun. Hef betri verkefni fyrir bókahillurnar mínar og ekki vil ég neinum svo illt að gefa honum eintakið.

Room
Á heimleiðinni las ég svo þessa rómuðu og umtöluðu sögu Emmu Donaghue um konu í Josef Frizl-legri prísund, en þó einkum um fimm ára son hennar sem fæðist og elst upp í fangaklefanum og segir söguna. Engin stórfengleg snilld, en skrambi góð samt. Ekki síst sem rannsókn á tungumálinu og tengslum þess við heiminn. Ekki lesa hana í von um að læra um hvernig er að vera kynlífsþræll, en ef þig langar að vita hvernig heimurinn horfir við greindu barni sem vissi ekki að hann væri til fyrr en því er slengt út í hann á sjötta ári þá er þetta klárlega ágætis byrjun.

2 Ummæli:

Anonymous Kristín í París sagði...

Vá, hvað þetta hefur nú verið skemmtileg ferð. Hvernig tókst ykkur að fá miða á Patti Smith, ég er bara um það bil að kálast úr öfund.

12:14 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Það var nú bara snemma og á netinu, en þá þegar var uppselt á Horses-tónleikana. Við vorum svo uppnumin eftir tónleikana "okkar" að við gerðum okkur ferð aftur á staðinn kvöldið eftir til að fá miða, og hefðum svo sem getað fengið þá fyrir utan fyrir slíkt morðfé að skynsemin tók völdin af rokkþorstanum.

8:04 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim