þriðjudagur, maí 18, 2010

Bentu á þann ...

Mér finnst Einar Skúlason hafa svolítið hitt naglann á höfuðið með að líkja Besta flokknum við Harlem Globetrotters. Eina villan er að hann ku hafa sagt að það væri eins og að eiga við HG að keppa við Besta flokkinn í gríni. Það er ekki rétt. Að keppa við Jón Gnarr í gríni er vitaskuld að eiga við ofurefli fyrir flesta. En það er ekki verið að keppa í gríni.

Að eiga við Besta flokkinn í pólitík er eins og að etja kappi við Harlem Globetrotters.

Það er ekkert bara af því að HG séu svona góðir í körfubolta sem þeir niðurlægja einatt andstæðinga. Það er fyrst og fremst vegna þess að það er bæði óviðeigandi og ómögulegt að beita hefðbundum aðferðum gegn þeim. Þeir eru nefnilega ekki bara flinkir, þeir eru öðruvísi. Reglurnar gilda ekki um þá.

Pólitíkusarnir vita ekkert hvað þeir eiga að gera við Besta flokkinn. Og þeir munu ekki finna út úr því. Allir kostirnir eru vondir. Að láta fótgönguliða skrifa blaðagreinar er glatað. Að veitast að stefnumálunum fánýtt. Sá besti á alltaf útgönguleið sem hinir geta ekki elt hann um. Og þó svo tækist að koma höggi á Jón Gnarr, uppsker það ekkert annað en aukna andúð á þeim sem höggið veitti.

Sá sem kaupir sig inn á Harlem Globetrotters kærir ekkert um að sjá andstæðingana pakka í vörn og brjóta af sér.

Ég er ekkert frá því að mannvalið í efstu sætum flokksins sé síst verra en annarsstaðar. Og ef fólkið sem þar er er tilbúið í þessa vinnu þá sé það hið besta mál. Grínið liggur fyrst og fremst í stefnuskránni og ég reikna ekki með að tilvonandi kjósendur láti stjórnast af henni.

Það pirrar mig samt svolítið að fólki finnist það vera að "senda skilaboð" með atkvæði sínu. Altsvo önnur skilaboð en þau sem felast í að "benda á þann sem að þér þykir bestur/illskástur". Mér fannst það svolítið kristallast í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu að þau skilaboð verða mistúlkuð og misnotuð hægri vinstri.

Svo verður líka með þann kosningasigur sem Besta flokknum er spáð. En ég er voða hræddur um að körfuboltaaðdáendur muni áfram styðja sín lið og deildin byrji aftur í haust.

1 Ummæli:

Blogger Sigga Lára sagði...

Enda soldið eins og Einar Skúla sé að keppa í gríni og hálfvitalegum (með litlu) hugmyndum þegar hann fer að tala um einhverja Paradísargarða í Elliðaárdalnum...

9:20 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim