miðvikudagur, október 21, 2009

Egill

Varríus getur varla verið minni maður en Björn.

Ég horfi næstum alltaf á Silfur Egils. Les bloggið hans næstum daglega. Horfi oftast á Kiljuna.

Þetta finnst mér:

I

Egill er ekki aðgangsharður spyrill. Fyrsti hluti þáttar hans, þar sem 4 viðmælendur ræða málefni dagsins, er næsta stjórnlaus. Egill gefur upp bolta, viðmælendurnir tala. Fá alveg að tala sjálfa sig út í horn í friði og sæta mest aðhaldi frá hinum þremur. Þetta er oft nokkuð afhjúpandi, og glottir þáttastjórnandi iðulega við tönn. Alveg ágætt form, og varla til merkis um hlutdrægni. Getur orðið þreytandi fyrir áhorfendur, samt. Kitlar um of þörf okkar fyrir hanaat. (Af hverju er sumum pólitíkusum kennt að það sé sniðugt að grípa frammí?)

Gestir í þessum hluta þáttarins eru af öllu litrófinu. Sennilega er hallinn heldur til hægri, hvað sem veldur. Sem betur fer eru Bjarni Harðar og Hannes Hólmsteinn fátíðari nú en forðum var.

Í síðari hlutanum sækir Egill sér staka viðmælendur sem hann metur svo að hafi eitthvað markvert að segja. Þar er heldur ekki þjarmað að mönnum. Stundum hafa mér þótt þessir viðmælendur komist upp með bull og orðið pirraður. Nýlega var þar t.d. einhver gasprari af Wall Street sem ég man ekki hvað heitir, en sannaði spakmælið um að við hverri flókinni spurningu væru óendanlega mörg einföld, röng svör. Hann fékk heldur engar erfiðar spurningar.

Oft eru þetta sérfræðingar með sjónarmið sem gott er að komi fram óbrengluð. Eva Joly, Stiglitz og orkugaurinn sem ég man ekki hvað heitir. Egill er fundvís á svona fólk og sennilega er þetta helsti styrkur þáttarins. Stundum eru þetta stjórnmálamenn sem mann langar gjarnan að fái aðeins erfiðari spurningar. Man eftir viðtali við Björn Bjarnason þar sem mig langaði að henda einhverju í sjónvarpið.

Almennt gildir auðvitað að svona "softball" nálgun pirrar mann þegar talað er við einhvern sem maður er ósammála.

Þetta er greinilega mörkuð stefna hjá Agli, og heilt á litið er hún ekkert galin. Kastljósið er á sama tíma stundum að standa sig sæmilega í yfirheyrslugírnum.

Í svipinn man ég eftir tveimur viðtölum þar sem Egill þjarmaði að viðmælendum sínum. Viðar Þorsteinsson í viðtali um Islam með afslætti og Jón Ásgeir Jóhannesson í frægu spjalli skömmu eftir hrun. Hvorug voru þau vel lukkuð.

II

Blogg Egils er framúrskarandi. Þar birtist núanseruð og menntuð sýn hans á heiminn. Það er vel skrifað, gagnort og stundum leiftrandi. Þar fær afstaða hans til allra hluta að njóta sín.

Tíu atriði sem ég man eftir í svipinn:
Hann er fullur heilagrar vandlætingar gagnvart öllum mögulegum gerendum fjármálahrunsins.

Hann fyrirlítur yfirklór yfir glæpi kommúnismans.

Hann er staðfastur gagnrýnandi stefnu Ísraels gagnvart Palestínu

Hann hefur dálæti á proggrokki og aðdáunarverða þolinmæði gagnvart hnignunarskeiði Bobs Dylan, samfara sérkennilegu óþoli gagnvart Tom Waits.

Grísk menning, sérstaklega nútímamenning, er Agli hugleikin og það er gaman að fá að fylgjast með þeirri nautn hans.

Til skamms tíma (allavega) hélt hann á lofti hugmyndum efasemdarmanna um loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Einu sinni kallaði hann 10-11 búðirnar "Musteri mannhaturs" Þarna talar íhaldssamur fagurkeri, sennilega áður en hann hugsar. (Geri ráð fyrir að Björn B. hafi ekki lesið þessa færslu, frekar en hann man eftir áhlaupi Egils á Jón Ásgeir).

Hann býður reglulega upp á "reality check" hvað varðar gæði íslenskra landbúnaðarvara. Að öðru leyti birtist Egill sem jákvæður efasemdamaður um ESB. Sem mér finnst skynsamlegt, enda á sömu slóðum sjálfur.

Hann skrifar fallegar örsögur af syni sínum.

Góður slatti af kommentunum eru móðursýkisleg rökleysa. Það hlýtur að útheimta mikla sjálfstjórn af jafn ritfærum og rökvísum fagurkera að eyða ekki meira af þessu drasli.
III

Kiljan er sennilega besti menningarþáttur sem sést hefur í íslensku sjónvarpi. Allavega á pari við viðtalsþætti Jóns Ólafssonar við tónlistarmenn. Þras Kolbrúnar og Páls geta alveg pirrað mann í sínum tillærða popúlisma. Bragi afhjúpar sig að því marki að vel má þykja ógeðfellt það sem hann sýnir. En þættirnir eru gegnsýrðir af ást á viðfangsefninu, þrá til að miðla því, og þá ekki síst því sem ekki liggur í alfaraleið, til fólks sem ekki er sannfært, en opið.

IV

Það er svo til marks um stærð Egils og mikilvægi í íslenskri umræðu að í svipinn man ég ekki eftir þeim stjórnmálaflokki, skoðanakima eða þrýstihópi sem hefur ekki litið á hann sem erkióvin.

V

Það er skoðun mín að Egill Helgason sé mikilvægasti maðurinn í íslenskum fjölmiðlum.

4 Ummæli:

Blogger Þorbjörn sagði...

Þetta er barasta frábær greining hjá þér. Mér sýnist menn ætla að þverskallast við þessum útúrborulegu kröfum harðkjarnans í FLokknum í bili. Spurning hvort verður hamrað á þessu þangað til fleira fólk fer að trúa bullinu.

11:09 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Björn, eins og velflestir aðrir hægrimenn er algerlega ófær um að sjá bias sín megin á sviðinu. Annað hvort eru hlutirnir settir fram á réttan og sjálfsagðan hátt eða þá þeir eru til vinstri...

12:13 f.h.  
Blogger Sigga Lára sagði...

Takk. Þá þarf ég ekki að skrifa þett.
En ég ætla að auglýsa þessa grein á fésbókinni, hvort sem þér líkar betur eða ver!

9:15 f.h.  
Blogger Gummi Erlings sagði...

Alveg óskiljanleg þessi krafa um að þáttarstjórnandi eins og Egill verði að vera "hlutlaus", í merkingunni að mega ekki láta í ljós skoðanir (nema kannski helst þær sem eru "réttar"). Hins vegar er sjálfsagt að í svona þætti fái öll helstu sjónarmið að koma fram í eðlilegri rökræðu, sem er allt annar handleggur.

11:39 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim