miðvikudagur, apríl 23, 2008

Gamli góði Villi

444 ár síðan Sjeikspír fæddist.

Nokkrar hugsanir:

Ég byrjaði að kynnast honum af viti þegar mér bauðst ungum að fara á ungmennanámskeið á vegum AITA/IATA í Stratford-ON-Avon. Svaf eins og aðrir yfir dauflegri sýningu á Júlíusi Sesar hjá Royal Shakespeare Company. Hefði verið nær að bjóða okkur á rómaða uppfærslu á Titus Andronicus sem verið var að sýna í næsta húsi, en sennilega hefur miðaframboð ráðið og í stað þess að heilla unga leikhúsbrjálæðinga frá gervallri evrópu var ákveðið að láta okkur frekar leiðast.

Lék í mínu fyrsta (og síðasta) Sjeikspírleikriti með þá nýstofnuðu leikfélagi framhaldsskólans á Húsavík. Þetta var Draumur á Jónsmessunótt og leikstjóri var Einar Þorbergsson. Mjög skemmtilegt, þrátt fyrir allt hárlakkið og gervieyrun.

Drauminn hef ég séð oftar en nokkurt annað leikrit skáldsins og ef það væri ekki merkingarlaus staðhæfing þá myndi ég segja að það væri það leikrit sem ég tæki með mér á eyðieyju.

Hamlet er samt augljóslega meistaraverkið.

Shakespeare er bestur. Hann er meistarinn. Það þýðir t.d. að hann má vera leiðinlegur ef honum sýnist. Stundum er hann leiðinlegur, en oftar liggur þá sektin hjá leikstjórum og leikurum.

Hann er auðvitað ekkert allur jafn góður. Skárra væri það nú. Þó Rubber Soul sé óviðjafnanleg þá er Beatles for Sale mest drasl.

Sumt er vanmetið (Líku líkt, Vetrarævintýri) meðan annað er ofmetið (Ofviðrið, Sem yður þóknast).

Uppáhalds sjeikspírskir performansar:

Sævar Sigurgeirsson sem Lóni í hinni víðfrægu "hundasenu" úr Herramenn tveir í Verónsborg á einleikjanámskeiði Hugleiks.

Hulda Hákonardóttir sem Kvistur (Pála N. Quist) í Draumi á Jónsmessunótt hjá Sýnum.

Halldór Magnússon sem Spóli í sömu sýningu.

Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir sem Kvistur í Draumi á Jónsmessunótt í uppfærslu Nemendaleikhússins. (hún svaf n.b. líka í Stratford á Júlíusi)

Halldóra Geirharðsdóttir sem Hermíóna sikileyjardrottning í Sumarævintýri Hjá Leikfélagi Reykjavíkur.

Adrian Lester sem Hamlet í samnefndu leikriti í kvikmyndaðri leikhúsuppfærslu Peter Brook.

Judy Dench sem Lafði Macbeth í Macbeth í kvikmyndaðri leikhúsuppfærslu Trevor Nunn ( sem setti n.b. líka upp hina fyrrnenfndu svæfandi Júlíus Sesar sýningu).

Þór Túliníus sem Merkútsíó í Rómeó og Júlíu í uppfærslu Þjóðleikhússins.

Besta sýning/kvikmynd: Peter Brook og Hamlet

Versta sýning/kvikmynd: Baltasar Kormákur og Draumurinn í Þjóðleikhúsinu

Til hamingju með daginn Vilhjálmur

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Þú kannt að kitla manni um hégómana kæri vinur. Og nú hellast yfir mann skemmtilegar minningar.
Í upptalningu á Sjeikspírleikferli þínum gleymirðu alveg að minnast á að einu sinni lékstu Píramus með Stúdentaleikhúsinu fyrir troðfullum stóra salnum í Háskólabíói á 1. des. – á móti tæplega tveggja metra Þispu í alltof stuttum kjólgopa sem forsetinn Vigdís á fremsta bekk hefur sennilega séð óþægilega mikið uppundir í dauðasenunni. Þá langaði mann nú pínu til að liggja bara dauður áfram í stað þess að standa upp og hneigja sig, þrátt fyrir ótvíræðan leiksigur okkar. :)

11:35 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim