laugardagur, janúar 19, 2008

Útýni, spámenn og aumingjar

Fuss hvað maður er lélegur hér.

Fór í gær á generalprufu á næstu Hugleikssýningu. Og fer aftur á frumsýningu í kvöld. Og þó mér sé málið skylt og allt það þá leyfi ég mér að fullyrða á algerlega faglegum nótum að þetta verður skrambi góð sýning.

Sveinn Einarsson skrifar langhund í lesbókina um leikárið í fyrra og núna. Prýðileg grein þó formið leyfi honum ekki að kafa mjög í hverja og eina. Sveinn er náttúrulega einn af vitringum íslensks leikhúss og það sem frá honum kemur til þess fallið að dýpka umræðuna.

Að dýpka umræðuna var víst erindisbréf ritstjóra bókarinnar Islam með afslætti og vel má vera að það takist. Hávaðinn og persónuníðið í kommentakerfi Silfurs Egils minnir reyndar meira á Vantrúarmenn í góðu stuði, en það á sér nú líklega þær sakleysislegu skýringar að þeir Nýhilistar hafa lengi átt í einkennilegri fæðardeilu við Ágúst Borgþór Sverrisson sem hingaðtil hefur ekki snúist um kynþáttafordóma, þó á stundum hafi verið erfitt að átta sig á nákvæmlega um hvað hún snerist.

Sem vissulega varpar hliðstæðuljósi á þrasið um siðferðisstöðu skopmyndana í Jótlandspóstinum.

Og það má vissulega hafa nokkra raunalega skemmtan af því að fylgjast með fullorðnu fólki sem segist trúa á mátt rökræðunnar standa sitthvoru megin við girðingu og kasta orðhengils- og útúrsnúningaskít hvort í annað.

Það má reyndar ekki síður hafa gaman af því þegar einhver kemst svona algerlega að kjarna málsins, þó annað mál sé.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim