þriðjudagur, október 23, 2007

Borgin við ána

Fór til London um helgina og neytti menningar af miklum móð. Smá yfirlit og stöku sleggjudómar:

Macbeth
Uppfærsla Chichesterleikhússins og túlkun Patricks Stewarts á Glaumuþjáninum metnaðargjarna hefur verið rómuð í hástert af gagnrýnendum. Þeim mun meiri voru vonbrigðin með þessa vanhugsuðu, flatneskjulegu og illa leiknu sýningu.

Mary Poppins
Nánast gallalaus framleiðsla (fyrir utan pabbann sem gat allsekki leikið) og áhrifarík sem slík. En það er ekki heimtufrekja að biðja um meira en lýtalausa fagmennsku í leikhúsi. Það er nefnilega lágmarkskrafa að maður upplifi að verið sé að gefa manni eitthvað. Burtséð frá miðaverðinu.

Glengarry Glen Ross
David Mamet í bísna góðu formi að lýsa gangi mála í Homosapiens-búrinu í dýragarðinum. Leikhópurinn skilaði fuckjú-ljóðrænu Mamets feykivel, en aftur voru nokkrir á sviðinu sem ættu að vinna við eitthvað annað. Kannski fasteignasölu.

Arsenal-Bolton
Nýi völlurinn er ótrúlega flottur. Leikurinn var ekkert sérlega spennandi - Boltúnsmenn áttu aldrei séns. Ólíkt t.d. Adebayor sem átti talsverðan séns en tókst ekki að setja hann. Áreynslulaus sigur.

Louise Bourgeois
Slembilukka réði því að við hittum á yfirlitssýningu þessarar listakonu á fyrstu heimsókn okkar í nútímalistasafnið Tate Modern. Hafði aldrei heyrt hennar getið, enda lítill myndlistarmörður. Frábær sýning og mikill meistari þarna á ferð.

Patti Smith
HáPUNKturinn var svo að sjálfsögðu ómótstæðilega magnaðir tónleikar rokknornarinnar miklu. Frú Smith og drengirnir voru í banastuði. Ástríðan, útgeislunin, flippið, alvaran og rokkið blandast saman í banvænan kokteil þegar Patti stígur á svið.

3 Ummæli:

Blogger frizbee sagði...

Gefa West End söngleikir manni nokkurn tímann nokkurn skapaðan hlut? Efa það stórlega, og mun ekki mæta á annan svoleiðis ótilneyddur. Sérstaklega þegar ég get séð eitthvað helmingi áhugaverðara og þrisvar sinnum ódýrara annars staðar.

12:58 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Ekki alveg svona einfalt. Þetta er þrátt fyrir allt ekki alveg einsleitt stöff. Sá t.d. The Producers og þar var mjög sterk tilfinningin fyrir því að sýningin væri alltaf að gera aðeins meira en þurfti. Aðeins fleiri kjánabrandarar, aðeins meiri fíflalæti. Og skýr tilfinning fyrir að verið væri að gefa manni eitthvað.

Mórallinn: Listrænt örlæti þrífst allsstaðar. Líka á West end. Og hitt gildir auðvitað: Listræn níska leynist víða. Líka á jaðrinum.

Og svo að Ástþóri ofbjóði ekki alveg snobbið þá pöntuðum við miða á eina fringe-sýningu, en fréttum það svo rétt fyrir sýningu að það var orðið uppselt áður en við lögðum inn pöntunina á símsvarann.

2:06 e.h.  
Blogger frizbee sagði...

Jájá, ég er ekki svo einharður jaðarmaður (hætti mér ekkert svakalega langt út á hann) að ég telji ALLA West End söngleiki vera rusl... bara flesta. Svo er auðvitað hættan á háum PBS stuðli á jaðarsýningunum, en ef þær eru lélegar, þá getur maður huggað sig við að hafa ekki eytt svo miklu pening í þær ;)

10:52 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim