þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Skápaeinstaklingur talar

Við spilum. Gestir hlusta. Það ber árangur.

Bloggþurrðin orðin nógu löng í bili. Veit svosum ekkert hvort mér text að halda mig við efnið af einhverju viti. Tökum einn dag í einu.

Brjálað að gera. Var að byrja í nýrri vinnu fyrir nokkrum dögum og er að læra á takkana. Gaman en krefjandi. Eða kannski gaman og krefjandi. Gaman af því það er krefjandi.

Verst að allt hitt sem ég er að gera er líka gaman og krefjandi. Eða öllu heldur: Best að allt hitt sem ég er að gera er líka gaman og krefjandi. Ég er semsagt ekki að kvarta.

Ólíkt Magna Ásgeirssyni, sem skælir svolítið í Mogganum yfir óréttlæti heimsins. Honum þykir eins og lýðhylli hans eigi að endurspeglast í blaðagagnrýninni. Mér finnst hann ætti að njóta lýðhyllinnar og láta vera að ergja sig út í skríbentana nema þeir hafi ekki vandað sig. Og alveg óþarfi að kasta skít í Tom Waits og aðdáendur hans.

Öllum finnst sinn tónlistarsmekkur vera bestur. Þó ekki væri. Algildur mælikvarði er ekki til. Það getur vel verið að aðdáendur Tom Waits eigi það til að tala eins og handhafar sannleikans. Og sem einn slíkur þá verð ég að viðurkenna að ég á erfitt að trúa því að til sé fólk sem ekki getur notið þess besta sem frá honum hefur komið á löngum og fjölbreyttum ferli.

En það er víst þannig. Ekki minni menn (pun intended) en Dr. Gunni og Egill Helgason nota orð Magna um "skápaeinstaklinga sem hlusta á Tom Waits" sem tilefni til að lýsa því yfir að þeim þyki kallinn líka leiðinlegur. Nákvæmlega af hverju þeim þykir mikilvægt að deila þessu með okkur verður hver að ráða í sjálfur.

Hljómsveitin spilar og spilar. Verðum á Ljósanótt í Keflavík á laugardagskvöldið og síðan á NASA á fimmtudaginn í næstu viku með Hvanndalsbræðrum. Fyrsta stóra giggið í Reykjavík í langan tíma. Ekki til að missa af. Allir út úr skápunum!

5 Ummæli:

Blogger Eyja sagði...

"Sem einn slíkur" vísar til "handhafa sannleikans" í setningunni á undan, er það ekki?

Dóttir mín spurði mig einmitt hvort ég væri skápaeinstaklingur, í tilefni af þessu blessaða viðtali.

2:31 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

"Sem einn slíkur" vísar í "tomwaitsaðdáanda". Sem er kannski það sama, allavega í þröngum heimi skápsins.

Það er auðvitað alger snilld að núa fólki sem hlustar á Tom Waits (frá Ol' 55 til Earth Died Screeming) um skort á víðsýni (eða ætli það sé ekki meiningin með skápalíkingunni)

3:39 e.h.  
Blogger Eyja sagði...

Hemm, þetta átti náttúrlega að vera útúrsnúningur hjá mér. En sko, viðbrögð mín við setningunni "Það getur vel verið að aðdáendur Tom Waits eigi það til að tala eins og handhafar sannleikans" eru að sjálfsögðu: Já, auðvitað, enda eru þeir það ;)

Mér þætti alla vega talsvert verra að vera álitin Magnaaðdáandi. Og maður sem gerir tilraun til að komast í hljómsveit með pakki eins og Tommy Lee hefur akkúrat ekkert kredíbilití í mínum huga.

10:48 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

En hver er hin nýja og krefjandi vinna sem vekur þér slíka gleði?

Berglind Steins

6:44 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

eEins og segir einhversstaðar í þvímiðurónýttri blaðafyrirsögn sem Varríus samdi sjálfur ...

„Fagottleikari Ljótu hálfvitanna gengur til liðs við Sinfóníuhljómsveit Íslands!“

Ójá.

Læt Varríus um að útskýra hvað hann er að gera hjá Sinfó. ;)

1:30 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim