mánudagur, mars 19, 2007

London II

Hér kemur svo sjálfstætt framhald fyrri pistils um leikhúsferð til London. Hér er það klassíkin sem er til umfjöllunar. Þrír frjálsir leikhópar, allir í samvinnu við virðuleg leikhús. Röðum þeim í tradisjónsröð og byrjum á þeirri hefðbundnustu.

Twelfth Night
Fyrsta heimsókn okkar í hið sögufræga Old Vic leikhús, sem á tímabili hýsti þjóðleikhúsið en er nú undir stjórn Hollywoodstjörnunnar Kevin Spacey. Leikhússtjóraferill hans hefur reyndar þótt ansi brokkgengur, og kannski skýrir það veru þessarar sýningar í húsinu, því hér var á ferðinni einn eftirtektarverðari frjálsi leikhópur Englands um þessar mundir.

Propeller heitir hann og er undir forystu Edwards Hall, sem reyndar er sonur fyrrnefnds Peters. Hópurinn sérhæfir sig í Shakespeare en það sem einkum greinir hann frá öðrum hópum er að hann er eingöngu skipaður karlmönnum. Þetta háttarlag setur vitaskuld mjög afgerandi svip á uppfærslur hópsins, og rifjar náttúrulega upp að sama fyrirkomulag tíðkaðist á dögum skáldsins sem þeir einbeita sér að.

Blessunarlega verður þetta samt ekki að neinu aðalatriði í sýningunni, sem var bara þó nokkuð "venjuleg" uppfærsla á þessu frábæra leikriti. Þó voru á henni mjög sterk "Devise-" og hópvinnueinkenni, þátttakendur meira og minna inn á allan tímann, hlustandi á hina, spilandi á hljóðfæri eða á annan hátt takandi þátt í að segja söguna. Þetta var smekklega gert og féll vel að stíl verksins.

Reyndar eru svona vinnubrögð mögulega að ryðja sér meira til rúms en áður í Shakespeare-uppfærslum í Bretlandi. Allavega voru sömu einkenni á uppfærslu Royal Shakespeare Company á A Comedy of Errors sem við sáum í fyrra.

En svo við ljúkum umfjöllun um Þrettándakvöld þá var hún ágætlega heppnuð, hvergi neinn sérstakur glansleikur, en engir skandalar heldur. Heilsteypt, falleg og hugmyndarík sýning sem virkaði.

Cymbeline
Tilefni ferðarinnar.

Sýning þessi var upphaflega unnin fyrir Royal Shakespeare Company, en þar á bæ er mikill uppgangur, búið að loka aðalleikhúsinu en þess í stað leikið í nýrri skemmu sem þykir mikil meistarasmíð. Á sama tíma er verið að setja upp hvert einasta verk hirðskáldsins, og koma þar allskyns hópar við sögu til viðbótar við kompaníið sjálft, og gamlar stjörnur snúa aftur. Núna er t.d. sjálfur Patrick Stewart að brillera sem Prosperó í frumlegri uppfærslu Ofviðrisins, og indversk uppfærsla á Jónsmessunæturdraumi þar sem töluð eru átta tungumál og gagnrýnendur telja þá mögnuðustu síðan Peter Brook setti verkið upp 1971.

Já, Cymbeline. Svo oft og mikið hef ég mært Kneehigh-hópinn frá Cornwall á þessum vettvangi og öðrum að í þann bakkafulla læk verður ekki borið að sinni.

Nema bara að segja frá þessari sýningu sem var alveg frábær. Cymbeline er ekki eitt af heldri verkum Shakespeares, en frægt að endemum fyrir gríðarflókið plott, sem myndi duga í nokkur síson af vondri sápuóperu. Kneehighmönnum þótti samt sagan merkilegri en skáldskapurinn og hentu megninu af textanum út um gluggann og skemmta sér konunglega við að skopast að flækjunum en ná samt alltaf að miðla tilfinningalegu innihaldinu líka. Í því felst þeirra galdur öðru fremur. Að fíflast eina sekúnduna og verða svo háalvarleg þá næstu.

Tónlistin var mögnuð líka, eins og alltaf.

Hryllilega gaman, bara.

Faust
Breska Þjóðleikhúsið hefur unnið mikið með frjálsum og frumlegum leikhópum undanfarin ár, og sækjast í að fá til liðs fólk sem gerir eitthvað eins ólíkt hefðbundnu stofnanaleikhúsi og unnt er.

Það er óhætt að segja að Punchdrunk- hópurinn uppfylli þau skilyrði. Hann sérhæfir sig í s.k "Site-Specific" sýningum, sem felst í að sérhanna sýningar inn í ákveðin rými sem ekki eru hefðbundnir sýningarstaðir.

Þessi sýning t.d. fór fram í niðurnýddri fimm hæða skjalageymslu í Wapping, vel utan alfaraleiðar leikhúsrottunnar. Húsinu voru þau síðan búin að umbreyta í aldeilis makalausa kynjaveröld með útganxpunkt í suðurríkjum Bandaríkjanna á sjötta áratugnum. Ótrúlegt nostur við hönnun og smáatriði einkenndi umgjörðina og skapaði ansi hreint magnað andrúmsloft á köflum.

Verst hvað leiksýningin stóðst illa samanburð við umhverfið. Verulegum vandkvæðum var bundið að fylgja einhverri framvindu, sem hefði kannski ekki komið að sök ef hvert atriði eða hver þráður hefði verið áhugaverður í sjálfum sér. En því miður var það ekki svo. Framganga leikaranna var meira og minna eins og maður væri fluga á vegg á frekar sjálfshátíðlegu leiklistarnámskeiði, þar sem fókusinn var nokkuð skarpt í naflanum á hverjum leikara fyrir sig.

Frá mínum bæjardyrum séð var þetta tilraun sem gekk upp sem innsetning en að mestu ónýt sem leiksýning.

Og lýkur þar með ferðalýsingu Varríusar.

Efnisorð:

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Var ekkert um ný-póst-módernísk Leikrit þarna úti Toggi?

9:42 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim