laugardagur, september 09, 2006

Vandinn við þig, Sigmund ...

... er að þú skilur ekki fólk.

Sagði frænka Sigmunds Freud við hann einu sinni.

Fyndið.

En því miður virðist þetta vera satt. Sálfræðingar skilja ekki fólk. Og samt eru sálfræðingar beðnir um að segja álit sitt þar sem það er grundvallaratriði að skilja fólk.

Enginn sem sá viðtalið við Natöschu Kampusch gat annað en hrifist. Heillast af einurð þessarar 18 ára stúlku, heiðarleika hennar og skýrleika í að miðla einstakri reynslu og martraðarkenndu lífi sínu til umheimsins. Það var vonlaust annað en að heillast af hinni skýru mynd sem stúlkan hafði af eigin reynslu, hversu mótuð lífssýn hennar var þrátt fyrir að hafa nánast alið sjálfa sig upp og samlíðan hennar með sjúkum fangaverði sínum og sjálfskipuðum lífsförunaut bar vott um ótrúlega sterka persónu.

Þetta sáu allir. Nema sérfræðingurinn í fólki.

Í tíufréttum sama kvöld lýsti Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur vonbrigðum með viðtalið, á hliðstæðan hátt og leiklistargagnrýnandi kvartar yfir lélegri frammistöðu.

Hann sagði augljóst að frk. Kampusch væri "óörugg með tilfinningar sínar ... vissi ekki hvernig hún ætti að vera í viðtalinu" hefði reynt að " hafa stjórn á tilfinningum sínum" hefði virkað "mjög óörugg."

No shit Sherlock.

Tíu ára gömul stúlka er numin á brott og haldið fanginni í átta ár. Þá tekst henni að flýja og maðurinn sem hefur verið eina mannlega samneyti hennar allan þann tíma drepur sig í framhaldinu. Nokkrum vikum síðar mætir hún í sjónvarpsstúdíó og lýsir reynslu sinni og einhver gaur með háskólagráðu í mannlegu eðli kvartar yfir að hún hafi komið illa fyrir og finnur að því að hún hafi reynt að hafa stjórn á tilfinningum sínum!

Það er greinilega ekki ennþá partur af pensúminu að skilja fólk.

Eða íslensku. Það að lýsa einhverjum sem tilfinningalega flötum er gildishlaðið. það er ekki tækniorð eða sjúkdómsgreining. Í hversdagslegum skilningi þýðir það einfaldlega að viðkomandi er vond manneskja. Og hversdagslegur skilningur trompar alltaf tæknimerkingu. Að heyra Boga Ágústsson lýsa því með alvöruþunga að skv. mati sálfræðingsins hafi frk. Kampusch "sýnt merki tilfinngalegrar flatneskju" í upphafi fréttatímans var ekkert minna en ógeðslegt.

Og svo ég hætti mér nú út á örlítið hálli ís fræðilega séð - eru fjölmiðlungar og viðmælendur þeirra til í að hætta að bulla um Stokkhólmsheilkennið? Það að Natascha Kampusch "taki upp hanskann" fyrir mannræningjann og segi að hann "hafi ekki verið alslæmur" hefur augljóslega ekkert með neitt heilkenni að gera.

Stokkhólmsheilkenni snýst um að réttlæta gerðir mannræningjans. Reyndi frk. Kampusch að gera það? Auðvitað ekki. Það að skilja hann og hafa samúð með honum er annar handleggur sem býr ekki í Stokkhólmi.

Stúlkan bjó með þessum manni í átta ár. Hann ól hana upp. Enginn þekkti hann betur en hún. Verðskuldar frk. Kampusch ekki þá lágmarksvirðingu að vitsmunir hennar og aðdáunarverð tilfinningagreind sem öllum sæmilega vel innrættum sjónvarpsáhorfendum ættu að vera dagljós sé ekki sjúkdómsgerð af allrahanda tilfinningaklámhundum í kjaftastétt?

Lærimeistari minn, Þorsteinn heitinn Gylfason, skrifaði einu sinni ritgerð með því grallaralega nafni, ætti sálfræði að vera til? Góð spurning, og í ljósi ofangreinds mætti svara: Ekki veit ég það, en allavega væri gott að sálfræðingar reyndu að hugsa eins og fólk, en þegja ella.

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Verðskuldar frökenin ekki þá lágmarksvirðingu að sleppa við myndavélar og hnýsni almennings í vestrænum löndum? Gefum henni breik.

8:42 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim