mánudagur, nóvember 29, 2010

"Hvenær koma þingfréttirnar?"

Móðir mín, Áslaug Þorgeirsdóttir, fæddist þennan dag árið 1940. Hún komst semsagt til vits og ára meðan enn ríkti stríð í heiminum. Og náði að fyllast hryllingi yfir vonsku heimsins og kalla eftir meinlausari tíðindum. Hún ku semsagt hafa sagt undir fréttum af hildarleik heimsstyrjaldarinnar: "hvenær koma þingfréttirnar?"

Ég veit ekki hvort þingfréttir nútímans hefðu verið henni að skapi.

Móðir mín var bókaormur. Hún var handgengin Agötu Christie og hennar slekti til jafns við höfund Njálu og Halldór Laxness. Ég lærði þetta af henni, sem og þann (ó)sið að lesa ánægjulegar bækur aftur og aftur. Frá henni hef ég ástina á Halldóri Laxness og íslenskum fornsögum. Og fátt þykir mér vænna um á bókmenntasviðinu en að hafa kynnt hana fyrir tveimur öndvegismönnum sem seinna urðu partur af stóru eftirlætishöfundasafni hennar: John Irving og Robertson Davies.

Veruleikinn stuðaði mömmu oft. En fá voru þau feikn sem hún ekki þoldi ef þau voru í bókaformi. Ég heyri hana fussa yfir lagaþvælunni í kringum hrunið, en sambærilega steypu úr Njálu gleypti hún með glöðu geði, aftur og aftur. Og ég efast um að hún hefði umborið í lifanda lífi konu á borð við Orögu Lautoro sem hún dáði í bókum Robertson Davies. Sígaunadrottningin sú lætur sig ekki muna um að kreista túrtappa úr dóttur sinni með tesíu út í kaffið hjá virðulegum háskólaprófessor til að dóttirin nái ástum hans. Að þessu hló mamma og dáðist að sígaunakellingunni, en hafði á sama tíma lítið þol gagnvart vélum raunheimsins.

Ég veit ekki um líf eftir dauðann. En ef ég fengi einhverju um svoleiðis ráðið sæti mamma núna á hinu brunna bókasafni Alexandríu og skemmti sér konunglega yfir Óvíð og horfnum leikritum Aristófanesar, þar sem sagt er frá feiknum sem hún hafði ekkert umburðarlyndi gagnvart í raunveruleikanum en naut til hins ítrasta á blaði.

2 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

10:17 e.h.  
Anonymous Ólgunn sagði...

Hæ.
Hún gæti nú líka verið í HRÚTA-berjunum

8:50 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim